fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

Fær vægan dóm fyrir gróft heimilisofbeldi vegna þess að hann hefur bætt ráð sitt – „Ég lamdi hana“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 9. október 2024 12:00

Héraðsdómur Austurlands. Mynd: Pjetur Sigurðsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrjátíu og þriggja ára gamall maður á Austurlandi var þann 2. október fundinn sekur um heimilisofbeldi og brot gegn valdstjórninni.

Ákæruliðirnir eru þrír. Maðurinn var í fyrsta lagi ákærður fyrir brot í nánu sambandi með því að hafa á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð fyrirverandi kærustu sinnar með líkamlegu ofbeldi og ólögmætri nauðung. Að kvöldi laugardagsins 9. júlí 2022 hafi hann ýtt henni, slegið hana í andlitið, rifið í hár hennar, hent henni í gólfið, haldið höndum hennar, meinað henni útgöngu úr íbúðinni með því að króa hana af um tíma og standa fyrir útidyrahurð íbúðarinnar og því næst, eftir að konan hafði komist út úr íbúðinni, dregið hana inn í íbúðina aftur, allt framangreint með þeim afleiðingum að hún hlaut roða eða skrámu á úlnlið, marblett á hægri upphandlegg, sár á efri vör vinstra megin, bólgu í húð ofan við nef vinstra megin, bólgu ofan við kinnbein vinstra megin og ótilfært nefbrot.

Í öðrum ákærulið var maðurinn sakaður um brot í nánu sambandi með því að hafa endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð þáverandi kærustu sinnar (sem er önnur kona en um getur í fyrsta ákærulið) með því að hafa föstudagskvöldið 17. mars 2023 veist með ofbeldi að konunni með því að slá hana í andlitið og rífa í hár hennar með þeim afleiðingum að hárflygsur losnuðu af höfði hennar og hún hlaut roða og rispu á hægri vanga.

Hann var ákærður fyrir annað ofbeldistilvik gagnvart þessari konu en miðvikudaginn 6. september 2023 skellti hann útidyrahurðinni á hana með þeim afleiðingum að hún klemmdist á milli hurðar og veggjar. Einnig fyrir að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimilið með því að sparka upp útidyrahurðinni og grýtt eldhússtól í konuna sem lenti á vinstri öxl hennar og hún hlaut mar á vinstri öxl.

Í þriðji lagi er hann sakaður um að hafa 12. september 2023 beitt konuna ofbbeldi með því að kýla hana, sparka í hana og rífa í hár hennar. Í ákæru segir einnig: „Ennfremur með því að hafa í beinu framhaldi af framangreindu haldið B niðri með taki annarrar handar á hálsi hennar og taki hinnar handarinnar á andliti hennar en síðan fært síðarnefnda takið af andliti og á háls hennar og haldið henni með báðum höndum þannig að þrengdi að öndunarvegi hennar, allt framangreint með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli í kringum barkakýli, mar og skrámu á hálsi, mar á aftanverðri öxl og mar á handlegg ofan við olnboga.“

Einnig var maðurinn ákærður fyrir að hafa sparkað í fótlegg aðstoðarslökkviliðsstjóra og hóta honum og fjölskyldu hans líkamsmeiðingum.

Sló konuna í tryllingi

Í dómnum kemur fram að lögreglu barst tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra laugardagskvöldið 9. júlí 2022 þess efnis að óskað hefði verið verið eftir að ákærði yrði fjarlægður úr föðurhúsum í ótilgreindri íbúð. Segir í skýrslunni frá því að þeir lögreglumenn sem sinntu útkallinu hafi á vettvangi hitt ákærða fyrir, utandyra, og er skráð að hann hafi þá haft á orði: „Ég lamdi hana.“

Á vettvangi voru ákærði og faðir hans auk kærustunnar sem skýrði lögreglunni frá því að ákærði hefði í tryllingi slegið og kýlt hana í andlitið auk þess að hrinda henni niður tröppur og meina henni að fara út úr íbúðinni. Fram kemur að ákærði hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Þá segir frá því að brotaþoli hafi verð færð á slysadeild sjúkrahúss og er vísað til þess að hún hafi verið með sýnilega áverka á vör, en einnig blóðnasir.

Fram kemur að maðurinn var með ofbeldishótanir við slökkviliðsmenn (sjúkraflutningamenn) á vettvangi og sparkaði í einn þeirra, mann sem þá gegndi starfi aðstoðarslökkviliðsstjóra í bænum. „… hann var með hótanir í minn garð og hótaði að senda menn heim til mín og svoleiðis og hérna þrífur þarna í mig og lemur og sparkar til mín þarna líka á tímabili,“ sagði vitnið fyrir dómi.

Sagður hafa bætt ráð sitt

Ákærði var sakfelldur en hann játaði sum brotin og neitaði öðrum. Þau þóttu öll vera fullsönnuð. Í dómsniðurstöðu segir að brotin séu alvarlegs eðlis og þau hafi verið framin í skjóli trúnaðartrausts. Háttsemi ákærða að hluta beri merki um einbeittan brotavilja.

Hins vegar er þess getað að viðhorfsbreyting hafi orðið hjá manninum undanfarin misseri og hafi hann þegið boð um sálgæslu til að halda sig frá neyslu vímuefna. Einnig að hann sé í fastri atvinnu og breytingar hafi orðið á fjölskylduhögum hans og sambýliskonu hans, sem er annar brotaþolanna, en þau eignuðust barn saman í sumar.

Ennfremur er virt honum til refsilækkkunar að rannsókn málsins hefur dregist.

Niðurstaðan er sú að maðurinn var dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann er auk þess dæmdur til að greiða hvorri konu fyrir sig, sem hann beitti ofbeldi, 850 þúsund krónur í miskabætur.

Dóminn má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag