Stórt og margbrotið fíkniefnamál, sem kallað hefur verið stóra fíkniefnamálið, en er einnig kallað Sólheimajökulsmálið, er nú að taka á sig nýja mynd. Eftir að allir sakborningar neituðu sök við þingfestingu málsins hafa nú þrír snúið við blaðinu og játað sök og samkvæmt heimildum DV eru líkur á því að tveir sakborningar til viðbótar játi sök á næstunni.
Sakborningar í málinu eru alls 18, 13 karlar og 5 konur. Sum eru sökuð um skipulagða brotastarfsemi, önnur um fíkniefnasölu, vörslu fíkniefna og peningaþvætti. Nafnið Sólheimajökull er heiti á spjallhóp sem um helmingur sakborninga hélt gangandi á samskiptaforritinu Signal og lögregla vaktaði. Talið er að hópurinn hafi starfað í nokkur ár en þau brot sem ákært er fyrir byggja á rannsóknum lögreglu frá því um haustið 2023 og fram til apríl á þessu ári, fíkniefnamagn sem þar kemur við sögu nemur aðeins um 6 kg, þar af rúmlega tvö í einu smygli með skemmtiferðaskipinu Aidasol.
Þriðji sakborningurinn sem játað hefur sök er 28 ára gamall karlmaður. Hann hefur annars vegar játað á sig peningaþvætti, að hafa móttekið 16 milljónir og 175 þúsund krónur í reiðufé frá öðrum ákærða, sem var afrakstur brotastarfsemi, á heimili sínu að Kuggavogi í Reykjavík. Þessi móttaka átti sér stað þann 23. mars á þessu ári en daginnn eftir fór maðurinn með peningana til Vínarborgar, með flugi frá Keflavík, en hann var handtekinn í Vínarborg.
Maðurinn hefur ennfremur játað að hafa fimmtudaginn 18. apríl á þessu ári haft í vörslu sinni í sölu- og dreifingarskyni tæp 16 g af kókaíni í íbúð sinni að Kuggavogi og í bíl sínum.
Aðalmeðferð í Sólheimajökulsmálinu hefst við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 28. október. Mál þessa manns verður klofið frá aðalmálinu og réttað yfir honum sér.