Nemendur við Menntaskólann á Akureyri eru ósáttir við að vera skikkaðir til þess að lesa íslenska skáldsögu sem inniheldur grófar lýsingar á kynferðisofbeldi. Segja þeir að lýsingarnar geti ýft upp, eða triggerað, minningar af ofbeldi hjá þolendum. Talskona Stígamóta segir að skólayfirvöld eigi að hlusta á og taka tillit til unga fólksins.
Um er að ræða skáldsöguna Blóðberg, sem var gefin út árið 2021. En hún fjallar um unga stúlku í Skagafirði á sautjándu öld sem lifir með ásökunum um blóðskömm eftir að hún elur barn. Þungunin er afleiðing hópnauðgunar. Bókin er kennd í íslensku í öðrum bekk í skólanum.
„Í þessari bók eru grófar og ítarlegar lýsingar á grófu kynferðisofbeldi og nánara tekið til hópnauðgun,” segir París Anna Bergmann, einn af nemendunum sem hafa barist gegn því að bókin sé skyldunámsefni.
París ásamt Ásdísi Lind Vigfúsdóttur hafa skrifað langt og ítarlegt bréf þar sem upplistaðar eru áhyggjur nemenda. Að þeirra sögn hefur málið verið mikið rætt á meðal nemenda, svo sem í spjallhópi. Meðal annars að fólk sem hafi orðið fyrir ofbeldi geti ekki farið afsíðis eða gengið út úr kennslustofunni án þess að upplýsa allan bekkinn um að þau hafi orðið fyrir slíku. Í stað þess að finna fyrir öryggi og stuðningi í skólastofunni þurfi nemendur að upplifa vanlíðan.
Auk þess að ræða við kennara og skólameistara, þá hafa nemendurnir leitað til og fengið stuðning hjá Stígamótum, Bergsins headspace, Aflsins, oddvita Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, Barna og ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ og Ungmennaráði Akureyrarbæjar.
Hún tekur það skýrt fram að nemendurnir eru ekki í stríði við kennara eða rithöfund bókarinnar, Þóru Karítas Árnadóttur. En baráttunni sé ekki lokið. „Í dag ætlum við að ákveða hvert við förum með þetta næst,“ segir hún.
Í samtali við DV segir Drífa Snædal, talskona Stígamóta, að skólayfirvöld eigi að hlusta á ungt fólk þegar það biðst vægðar undan svona efni.
„Það er alveg ljóst að kynferðisofbeldi er útbreitt, sérstaklega í þessum aldurshópi. Ef að þau segja að þetta veki hjá þeim óhug og þetta geti verið triggerandi fyrir þau sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi þá á að hlusta á það,“ segir Drífa. „Við vitum svo miklu meira en áður um triggera. Hvað getur valdið afturhvarfi til ofbeldis sem þú hefur orðið fyrir.“
DV náði ekki tali af skólameistara MA fyrir gerð þessarar fréttar.