Þar skrifar Inga um verðtrygginguna og neytendalán og segir að íslenskir lántakar fái aldrei að vita hversu mikið þeir þurfa í raun að borga af lánum sínum.
„Húsnæðislánin stökkbreytast í græðgiskjafti bankanna án þess að lántakinn fái rönd við reist. Enginn fyrirsjáanleiki, engin framtíðarplön er hægt að gera í þessu ófremdarástandi sem síendurtekið fær að kúga og níðast á almenningi. Við Íslendingar megum lúta séríslensku okurkerfi sem hvergi á sér hliðstæðu í nokkru lýðræðis- og réttarríki. Hið séríslenska fyrirbrigði sem verðtryggingin er er hannað sérstaklega til þess að kúga lántaka og sjúga af þeim allt sem þeir eiga,“ segir Inga sem furðar sig á því að þetta sé látið viðgangast hér á landi þar sem „gjaldborg“ sé slegin um heimili landsins en „skjaldborg“ um bankakerfið.
„Það er í raun með hreinum ólíkindum hvað við erum fljót að gleyma því þegar Samfylking og VG reistu nákvæmlega slíkt varnarkerfi um peningaöflin í kjölfar efnahagshrunsins 2008 þar sem þúsundir og aftur þúsundir misstu heimili sín og allar eigur.“
Inga segir í grein sinni að þegar verðtryggingunni var komið á, á sínum tíma, hafi hún einnig gilt um launin í landinu.
„Þannig var verðtryggingin ekki einungis til að setja belti og axlabönd á fjármálakerfið heldur líka að tryggja að launin okkar væru verðtryggð. En ríkisstjórn þess tíma ákvað að það borgaði sig ekki að verðtryggja launin. Það kostaði of mikið. Þannig breyttu þeir kerfinu svo enginn gæti hagnast á því nema peningaöflin í landinu og þeir sem spila matador með sparnað almennings,“ segir Inga og bætir við að verðtryggingin sé böl sem meðal annars kemur í veg fyrir að nokkur geti myndað eignarhlut í íbúðinni sinni nema hann sé á ofurlaunum.
Inga kveðst ítrekað hafa lagt fram frumvörp á Alþingi frá því hún var kjörin á þing 2017 um afnám verðtryggingar á neytendalán.
„Það er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnin hendir þessum frumvörpum umhugsunarlaust í ruslið þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar stjórnarflokkanna um að það væri ráð að skoða verðtryggð neytendalán m.t.t. þess að afnema þau. Staðreyndin er sú að þau hafa aldrei ætlað að afnema verðtrygginguna, þau hafa aldrei ætlað að verja heimilin. Þau hafa alltaf ætlað að verja okrið, eignaupptökuna og græðgiskúgunarhagkerfið. Árum saman hafa stjórnvöld án nokkurrar blygðunar viðhaldið þessu viðurstyggilega eignaupptökukerfi þrátt fyrir að þykjast vilja eitthvað allt annað.“