Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, segir að fyrirhugaður matsferill, sem á að koma í stað samræmdu prófanna í grunnskólum, sé ekki fullkomin lausn. Sumir þeir kostir sem eigi að vera á þessu nýja fyrirkomulagi séu jafnvel veikleikar þegar á hólminn er komið.
Pawel vekur athygli á þessu í pistli sem birtist hjá Vísi en þar segir hann samræmd próf mikilvæg tólk til bæði jafnræðis og eins sem tólk fyrir menntastofnanir til að bæta starfsemi sína.
„Gamaldags samræmd próf eru óumflýjanleg. Þau eru haldin á ákveðnum degi, sama hvort nemandanum eða skólanum hans líkar það betur eða ekki. Óumflýjanleikinn býr til hvatningu. Nemendur vita að prófin koma og efnið verður það sama, óháð því hvort kennarinn hafi verið veikur og ekki komist yfir allt. Þetta veitir aðhald í námi og það er kostur.“
Samræmd próf eru að sama bragði blind, eða með öðrum orðum allir nemendur fá sama prófið og það eru utanaðkomandi prófdómarar sem fara yfir það. Þar með séu nemendur metnir án fyrirframmótaðra hugmynda kennara sem þekkja til þeirra.
Gallinn við matsferilinn sé að þar eigi kennarar og skólar sjálfir að bera ábyrgð á fyrirlögn nýrra matstækja sem og að sjá um að skrá og halda utan um niðurstöður. Pawel ímyndar sér að þetta geti snúist upp í andhverfu sína og ýtt undir mismunun nemenda á grundvelli félagslegrar stöðu.
„Til dæmis má ímynda sér að metnaðarfullir foreldrar muni fara fram á að matsþættir séu endurteknir uns viðunandi árangur næst, en foreldrar sem fylgjast ekki jafnmikið með skólagöngu barna sinna geri það síður. Þarna er hætta á að matið dragi frekar fram mismun í félagslegum bakgrunni nemenda, fremur en að draga úr honum.“
Samkvæmt tillögu um matsferil er stefnt að því að banna skólum að birta niðurstöður matsferils opinberlega eða nota þær til samanburðar. Þar með megi væntanlega ekki nota matsferil til inntöku í framhaldsskóla.
„Það myndi aldrei líðast að halda ástandsskýrslum um skólahúsnæði leyndum fyrir almenningi. Hví ætti því að hvíla leynd yfir þeim þætti skólastarfsins sem mestu máli skiptir?
Hættan við leyndina er nefnilega enn meiri: að fólk horfist ekki í augu við vandamálin, því það veit einfaldlega ekki af þeim.“
Eins telur Pawel að þó matsferill hafi vissa kosti líka þá hafi það verið mistök að ráðast strax í að slaufa samræmdum prófum. Þess í stað hefði átt að keyra saman matsferil og samræmd próf í nokkur ár til að tapa ekki mikilvægum gögnum.
„Stærstu spurningamerkin sem setja má við Matsferilinn felast í þeim þáttum sem auglýstir hafa verið sem hans helstu kostir. Of mikið frelsi kennara til að ákveða hvað sé prófað og hvenær getur verið varhugavert. Sú leynd sem hvíla á yfir öllum niðurstöðunum er það líka.
Matsferlinum fylgja ákveðin tækifæri. En þegar kemur að óumflýjanleikanum, blindni prófanna og möguleikanum til að bera saman árangur nemenda og skóla þá hafa „gamaldags“ samræmd próf ýmsa kosti sem Matsferillinn hefur ekki.“