fbpx
Fimmtudagur 31.október 2024
Fréttir

Reykjavíkurborg fækkar áramótabrennum – Sjáðu hvaða brennur verða aflagðar

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 31. október 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samþykkt var í gær á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að fækka áramótabrennum í borginni um áramótin í ár úr 10 í 6. Meirihluti ráðsins segir þetta gert einkum að ósk slökkviliðs, lögreglu og heilbrigðiseftirlits og að auki vegna kostnaðar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu tillögunni harðlega og sögðu þær brennur sem verða lagðar af eiga sér langa hefð og um væri að ræða hreina aðför að þessum hefðum.

Tillagan um fækkun brennanna var lögð fram af umhverfis- og skipulagssviði, nánar til tekið af skrifstofu borgarlandsins. Með tillögunni var lagt til að fækka áramótabrennunum sem hafa verið 10 í borginni undanfarin ár í 6. Segir í tillögunni að brennurnar hafi mikil umhverfisáhrif auk þess að vera dýrar í uppsetningu og rekstri. Enn fremur segir að skrifstofu borgarlandsins hafi reynst erfitt að fá starfsfólk til að sinna brennunum á áramótunum enda vilji starfsfólkið vera heima á þessum tíma. Það kemur einnig fram að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi gert athugasemd við ákveðnar brennur vegna nálægðar við byggð. Í tillögunni er hins vegar viðurkennt að sterk hefð sé fyrir brennum í Reykjavík.

Til að mæta báðum þessum sjónarmiðum var því lagt til að brennurnar verði 6 í stað 10 og verði í Vesturbænum (með fyrirvara um góða staðsetningu), Gufunesi, Geirsnefi, Jafnaseli, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi.

Skrifstofa borgarlandins leggur til að allar brennurnar verði minni en 250 rúmmetrar sem þýðir að þær verða skilgreindar sem litlar brennur. Er þetta sagt hugsað til að halda í hefðirnar en koma um leið til móts við áhyggjur af brennunum.

Brennurnar sem hverfa

Þær brennur sem lagt var til yrðu aflagðar eru brenna við Rauðavatn og er þá vísað til þess að þar hafi skapast umferðarvandræði undanfarin ár við Suðurlandsveg og einnig til mögulegra umhverfisáhrifa á Rauðavatn. Lagt er til að brenna sem verið hefur í Suðurfelli, þar til á síðasta ári, verði framvegis í Jafnaseli en þessi tilfærsla er sögð nauðsynleg vegna nýs Arnarnesvegar. Loks var lagt til að brennurnar í Laugardal og Skerjafirði yrðu aflagðar vegna slæms aðgengis og nálægðar við byggð.

Þessi tillaga skrifstofu borgarlandsins var samþykkt af meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs, fulltrúum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Framsóknarflokksins. Í bókun meirihlutaflokkanna segir að fækkunin sé aðallega tilkomin vegna beiðna frá slökkviliði, lögreglu og heilbrigðiseftirliti sem vísi til nálægðar við byggð, umferðaröryggis og neikvæðra staðbundinna umhverfisáhrifa. Meirihlutinn segir kostnað við brennur töluverðan en einungis kostnaður við förgun sé um 20 milljónir og og svo bætist við kostnaður við efnivið og mönnun. Eðlilegt sé að horfa í hverja krónu. Vegna staðla sem fyrir liggi þurfi nú að kaupa efni í brennuna frekar en að nýta efni sem fellur til við framkvæmdir. Mönnun sé einnig erfið.

Hefðirnar

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísuðu í sinni bókun til hinna sterku hefða fyrir áramótabrennum:

„Áramóta- og þrettándabrennur, ásamt tilheyrandi mannsöfnuði, blysförum, harmónikku- og gítarspili, þjóðlegum fjöldasöng, og álfum og öðrum þjóðsagnavættum á áramótum og á þrettándanum, hafa hér á landi, verið órjúfanlegur þáttur hátíðarhaldanna á þessum árstíma, allt frá upphafi þéttbýlismyndunar. Í fjölda hverfa Reykjavíkur á slíkt samkomuhald sér meira en aldar gamla hefð.“

Í bókuninni segir að þær brennur sem verði aflagðar eigi sér áratuga hefð. Þessi ákvörðun verði ekki réttlætt með manneklu hjá Reykjavíkurborg, sem aldrei hafi haft fleiri starfsmenn. Það hafi einnig verið ákvörðun borgaryfirvalda að safna í bálkestina, en til margra áratuga hafi það verið samvinnuverkefni íþróttafélaga og íbúa. Segja sjálfstæðismenn vel mögulegt að taka þetta verklag upp aftur. Það sé einnig fráleitt að leggja brennurnar af án nokkurs samráðs við íbúa og um sé að ræða aðför að grónum hefðum.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnaði hins vegar áformunum og sagði um stórt umhverfismál að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Geirs Arnars minnst í athöfn á fimmtudag

Geirs Arnars minnst í athöfn á fimmtudag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Saka Sigurð Inga um slæma stjórnsýslu – Starfsstjórn hafi ekki umboð til að leggja á slíkan „landsbyggðarskatt“

Saka Sigurð Inga um slæma stjórnsýslu – Starfsstjórn hafi ekki umboð til að leggja á slíkan „landsbyggðarskatt“