Matvæla- og veitingafélag Íslands, Matvís, hefur verið fundið skaðabótaskylt vegna lyga sem fulltrúar félagsins sögðu starfsfólki veitingastaðarins Flame í eftirlitsheimsókn sumarið 2022. Félagið var sýknað af kröfum vegna yfirlýsingar í fjölmiðlum um stórfelldan launaþjófnað á Flame og Bambus.
Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll á þriðjudag en var birtur í dag. Mbl.is hafði áður fjallað um málið.
Málið höfðuðu félögin Teppanyaki Iceland ehf (Flame) og Borg 16 ehf (Bambus). Kröfðust forsvarsmenn félaganna að Matvís yrði gert skaðabótaskylt vegna háttsemi starfsmanna í vettvangsheimsókn í ágúst mánuði árið 2022 og tilkynninga í fjölmiðlum nokkrum dögum seinna.
Tveir starfsmenn Matvís heimsóttu Flame í Katrínartúni 19. ágúst árið 2022 ásamt tveimur lögreglumönnum eftir að erlendur starfsmaður hafði leitað til félagsins, ósáttur við sín kjör og aðbúnað. Hafi hann sagt að vaktir væru langar, margar samfelldar og á frídögum. Launaseðillinn hafi ekki verið sundurliðaður og kjör ekki samkvæmt kjarasamningi.
Tveir karlmenn og ein kona voru að vinna þegar fulltrúar Matvís og lögreglunnar mættu. Var starfsfólkið spurt um landvistarleyfi og vinnustaðaskírteini.
Lögreglukona sagði fólkinu að hópurinn væri mættur til að hjálpa fólkinu og starfsmaður Matvís sagði að þau gætu hjálpað þeim að „komast héðan.“
Var starfsfólkið spurt út í vinnutíma sinn og sagði einn að hann ynni sex daga vikunnar, að lágmarki 10 tíma á dag. Stundum færu þau yfir til að vinna á Bambus líka. Bjuggu þau öll saman á stað ásamt einum starfsmanni Bambus.
Eftir að launaseðlarnir voru skoðaðir sagði starfsmaður Matvís starfsfólkinu að þau væru ekki að fá neitt orlof og ynnu sér ekki inn neinn rétt. Vildu starfsmenn Matvís að fólkið kæmi með sér af staðnum og flyttist yfir í aðra íbúð.
„Fulltrúi stefnda sagði við starfsfólkið að fulltrúar stefnda vildu bara að starfsfólkið yfirgæfi staðinn strax. Þá sagði hann að þau héldu að starfsfólkið myndi ekki fá neitt greitt í næsta mánuði fyrir þá vinnu sem það vann í ágúst. Fyrirtækið væri í svo mikilli skuld við ríkið. Það borgaði ekki skatta eða lögbundin gjöld og því hefði ríkið lagt fram kæru, það hefði fryst allar eignir á öllum reikningum. Sagði hann að þeir mættu ekki eyða peningum nema það væri einhver ráðinn frá ríkinu til að hafa umsjón með reikningum þeirra,“ segir í dóminum.
Einnig sagði starfsmaður Matvís að eigendur Flame græddu á því að borga starfsfólki minna og þó þeir segðust ekki geta borgað starfsfólki meira borguðu þeir sjálfum sér sennilega ekkert minna. Þeir verndi alltaf sig sjálfa og ef þeir tali um að vinnustaðurinn sé ein stór fjölskylda sé það viðvörunarmerki.
„Það sé arðrán 101, að tala um fjölskyldu og að færa fórnir þannig að reksturinn gangi betur. Jafnvel þótt reksturinn gangi betur muni starfsfólkið ekki njóta góðs af því,“ segir enn fremur.
Fór starfsfólkið burt og þurfti að loka staðnum.
Þann 25. ágúst, tæpri viku eftir heimsóknina, var gefin út opinber yfirlýsing í nafni Fagfélaganna með fyrirsögninni: „Vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna kom upp um stórfelldan launaþjófnað“.
Sagði þar að komist hefði upp um stórfelldan launaþjófnað á tveimur veitingastöðum í eigu sömu aðila eftir eftirlitsferð á annan veitingastaðinn. Fólkinu, sem hefði þáð að vera komið úr aðstæðunum, hefði unnið 10 til 16 tíma á dag, sex daga vikunnar og hafi aðeins fengið lágmarkslaun en ekkert vaktaálag, yfirvinnu, orlof eða annað sem um er samið á íslenskum vinnumarkaði. Launakröfur á hendur eigendunum hlypu á milljónum króna.
Samdægurs birtist svo fréttir hjá öllum helstu miðlum landsins um málið.
Dómari dæmdi Matvís skaðabótaskylt vegna vinnuheimsóknarinnar. Segir í dómnum að starfsmaður félagsins hafi vikið verulega frá hátternisreglum sem finna má í handbók ASÍ. Þó verulegur misbrestur hafi verið við launauppgjör Flame gagnvart starfsfólki sínu gengu starfsmenn Matvís hart fram í að fullyrða um stöðu veitingastaðarins, svo sem að fullyrða að hann væri í skuld við ríkið og að fólkið fengi ekki greidd laun um mánaðamótin. Þetta hafi ekki átt neina stoð í gögnum málsins.
Því hafi heimsóknin farið fram með ólögmætum hætti og Matvís ber ábyrgð samkvæmt reglum um vinnuveitendaábyrgð.
Matvís var hins vegar sýknað af kröfum vegna yfirlýsingarinnar og ummæla í fjölmiðlum. Hafi félagið haft nægar upplýsingar um misfellur við launauppgjör til þess að fjalla um á opinberum vettvangi og verið í góðri trú.