fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Einar Kárason gagnrýnir RÚV harkalega – „Þar er varnarbaráttu Úkraínumanna gegn innrás líkt við árásarstríð Napóleons gegn Rússum 1812“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 31. október 2024 10:15

Einar Kárason og Haukur Már Helgason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason rithöfundur gagnrýnir Ríkisútvarpið harkalega vegna upplesins pistils þar sem Selenskí Úkraínuforseta var líkt við Napóleón að ráðast inn í Rússland.

„Þetta er eitthvert fyrirlitlegasta kjaftæði sem ég hef heyrt, en það var fyrr í dag flutt í menningarstofnun ríkisins,“ segir Einar í færslu á samfélagsmiðlum í gær og vísar til útvarpsþáttarins Lestarinnar á Rás 1.

„Þar er varnarbaráttu Úkraínumanna gegn innrás líkt við árásarstríð Napóleons gegn Rússum 1812. Er verið að borga mönnum fyrir að flytja okkur svona mannfjandsamlegan þvætting?“ spyr Einar og er augljóslega misboðið.

Myndband af hauskúpusuðu

Í byrjun þáttarins las heimspekingurinn Haukur Már Helgason upp pistil, þann fjórða í röðinni um upplýsingaóreiðu. Pistillinn fjallaði um fréttaflutning af Úkraínustríðinu.

Meðal annars sagðist Haukur hafa opnað Telegram rás Úkraínumanna og fundið þar myndband sem hafi setið í honum.

„Ég varð til dæmis svoldið sleginn þegar ég sá myndskeið af manni sem sat á hækjum sér í skógi, hrærandi í súpupotti á glóðum. Í pottinum flaut mannshöfuð. Maðurinn sem hrærði í pottinum glotti. Sagt var að þar sæti úkraínskur hermaður við að sjóða rússneskt höfuð. Margir lækuðu myndskeiðið, það virtist vekja hrifningu. Vitandi að Úkraínumenn eru góðu gaurarnir í þessu stríði fann ég engan stað í skilningi mínum fyrir hauskúpusúpuna, hundsaði hana, lét sem ég hefði ekki séð hana og sneri mér að öðru,“ sagði Haukur.

Land hinnar skilyrðislaus samstöðu

Sagði hann að myndin hafi haldið áfram að trufla hann og á hvaða forsendum hann hafi valið að hundsa hana. Stríð líti illa út í nær mynd en það breyti ekki stóru myndinni, innrás rússa hafi verið ólögmæt, Úkraínumenn eigi í vök að verjast og þeir eigi inni skilyrðislausan, jafn vel takmarkalausa samstöðu okkar.

„Frá upphafi stríðsins hafa íslenskir fjölmiðlar af skyldurækni miðlað ofureinfaldri mynd og sögu af átökunum,“ sagði Haukur og nefndi dæmi um að úkraínski herinn hefði sótt menn af djamminu í Kænugarði til að senda á víglínuna. Frá þessu hefði fréttastofan AP sagt frá en ekki íslenskir fjölmiðlar, það er fjölmiðlar í „landi hinnar skilyrðislausu samstöðu.“

„Í flóknum heimi hefði það geta reynst tímafrekt að lofa tugmilljörðum úr sameiginlegum sjóðum á Íslandi til vopnakaupa í Úkraínu. Í ofureinföldum heimi má hins vegar segja: Varla viljum við taka sjénsinn á því að Úkraína tapi stríðinu á meðan við tölum um hlutina. Lýðræðið sjálft er í húfi og því er ekki tími til að tala um eitt né neitt. Okkur ber skylda til að skjóta fyrst og sjóða svo,“ sagði Haukur.

Napóleon og Selenskí

Því næst kom samlíkingin við Napóleón. Hljóðar hún svo:

„Það var að haustlagi fyrir 218 árum síðan sem þýski heimspekingurinn Hegel sem sá þáverandi keisarann Napóleon ríða hesti úr borg út að sjó. Hegel nefndi atvikið í bréfi til vinar síns, hvað það hefði verið stórkostleg tilfinning að sjá þennan anda heimsins eins og hann orðaði það, keisarann á hestbaki, einstakling eða punkt sem teygir sig þó af baki hestsins yfir allan heiminn og ríki yfir honum. Volodimír Selenskí er ekki keisari og ekki er ég Hegel, en þegar Úkraínuforseti fór hér um borgina á mánudag, sveimaði hér þyrla Landhelgisgæslunnar yfir heimili mínu í Hlíðunum. Kona mín og dóttir voru úti að spássera og sáu bílalestina sjálfa fara hjá. Nú eiga þeir þetta sameiginlegt, Napóleon og Selenskí, að vilja standa vörð um Evrópu með því að ráðast inn í Rússland.“

Þessar áætlanir hafi Selenski rætt við Bjarna Benediktsson í heimsókn sinni til Íslands. Það er að færa stríðið yfir landamærin.

„Að snúa vörn í sókn, að herja á Rússland,“ sagði Haukur. „Íslenskir fjölmiðlar virðast hafa haft vit á að spyrja ekki nánar út í það. Ekki hika, ekki efast.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“