Kjörræðismaður Íslands á Orihuela Costa, Manuel Zeron Sanchez, hefur látið af störfum. Af þeim sökum hefur kjörræðisskrifstofu Íslands á staðnum verið lokað. Um er að ræða Alicante og Murcia svæðið þar sem þúsundir Íslendinga búa eða dvelja á hverjum tíma.
Utanríkisráðuneytið greinir frá þessu.
„Utanríkisráðuneytið vinnur að skjótri lausn mála, enda margir íslenskir ríkisborgarar búsettir á svæðinu. Athygli er vakin á því að starfsmaður utanríkisráðuneytisins verður að störfum á svæðinu meðan unnið er að breytingum á fyrirsvari ræðismála,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Kemur fram að aðstaða til utankjörfundaratkvæðagreiðslu til alþingiskosninga verði tryggð. Auglýst verði sérstaklega þegar nær dregur hvernig henni verður háttað, en hún hefst 7. nóvember.
Sendiráð verður opnað í Madríd á næsta ári. Hafa skipulagsbreytingar á ræðismálum á Costa Blanca svæðinu verið í undirbúningi samhliða opnuninni.
Manuel, sem er spænskur hagfræðingur, var ráðinn ræðismaður árið 2017 og er vel þekktur á meðal Íslendinga á svæðinu. En hann fékk starfið eftir að hafa kynnst íslenska samfélaginu í gegnum viðskiptafélaga.
Manuel var í viðtali við Fréttablaðið árið 2021 í tilefni af því að hann fékk fálkaorðuna. Þar greindi hann meðal annars frá því að hafa í mörg skipti þurft að hafa aðkomu að því að koma Íslendingum heim, bæði lifandi og látnum, bera kennsl á og hafa uppi á nánustu ættingjum. Einnig tilkynna þeim um andlát.
Einnig greindi hann frá því að mest hefði fengið á hann að koma börnum úr erfiðum aðstæðum, í samstarfi við félagsþjónustu og lögreglu á Spáni og Íslandi. Sem og að fást við íslenska glæpamenn, sem eru sumir búsettir í ónefndum bæ í umdæminu. Þá lýsti hann ástandinu þegar Covid faraldurinn hófst sem stríðsástandi. En Spánn fór mjög illa út úr fyrstu bylgju Covid og margir aldraðir Íslendingar á svæðinu.