Bændurnir á býlinu Unaósi í Hjaltastaðarþinghá á Austurlandi hyggjast ekki nota brunabæturnar til að endurbyggja útihúsin í bráð. Vel á þriðja hundrað skepnur fórust í miklum eldsvoða á bænum á síðasta ári.
Eldsvoðinn mikli kom upp á Unaósi þann 1. mars í fyrra. Eins og greint var frá í Austurfrétt kom vegfarandi auga á bálið um klukkan 13:00 og klukkustund síðar var slökkvilið Brunavarna Austurlands komið á staðinn, en þá voru hlaðan og fjárhúsið í björtu báli.
Gekk tiltölulega auðveldlega að ná niðurlögum eldsins og veðuraðstæður voru hagstæðar. Mbl.is greindi frá því að slökkviliðið hafi notað bæjarlækinn til að afla vatns til að slökkva eldinn.
Hins vegar var skaðinn skeður. 260 dýr brunnu inni, að stærstum hluta sauðfé en einnig um tíu geitur. Fjárhúsið og hlaðan voru gerónýt á eftir og skemmdir á öðrum húsum.
Unaós er ríkisjörð og þurfti því Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir að hafa aðkomu að málinu. Þá þurftu ábúendurnir, Bylgja Rún Ólafsdóttir og Erlendur Ágúst Einarsson, að fá samþykki Framkvæmdasýslunnar og sveitarfélagsins Múlaþings fyrir ráðstöfun brunabóta.
Höfnuðu bændurnir að endurreisa útihúsin vegna mikils kostnaðar, langt umfram brunabæturnar. Þessi í stað sóttu þau um og fengu leyfi fyrir að nýta þær til að hreinsa brunarústirnar og gera endurbætur og lagfæringar á íbúðarhúsinu.
Í skjali kemur fram að ekki hafi verið óskað eftir heimild til niðurrifs heldur að húsarústirnar fái að standa áfram. Útveggir, kjallari og botnplata fái áfram að standa en smíðað grindverk fyrir ofan kjallaraopið og allar hurðir byrgðar.
Afgangur bótanna verði notaður til að lagfæra vatnsból, forðatank, lagnir, frárennsli, gler og gluggakarma, þak og þakkant og jafnvel klæðningu íbúðarhúss, eftir því sem bæturnar duga.
Í meðferð byggðarráðs Múlaþings er afgreiðslan samþykkt en lögð áhersla á að útihúsin verði byggð þó síðar verði. En sveitarfélagið hefur áður ítrekað mikilvægi þess að halda sauðfjárbúskap gangandi á jörðinni og öryggisatriði sé að það sé búseta þar. Telur byggðarráð að taka þurfi málefni ríkisjarða til endurskoðunar en oft hefur reynst erfitt að finna ábúendur á ríkisjarðir.
„Byggðarráð beinir því til stjórnvalda að áherslur varðandi útleigu ríkisjarða verði teknar til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að tryggja réttindi ábúenda, viðhalda verðmæti ríkisjarða og tryggja búsetu á þeim til framtíðar,“ segir í bókun ráðsins.