Úrhellisrigning hefur verið á suðausturhluta Spánar og hafa sem fyrr segir einhverjir látist. Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir síðan í gær og óttast yfirvöld að fleiri lík muni finnast. Notast leitarhópar meðal annars við dróna.
Sex íbúum þorpsins Letur er saknað en íbúafjöldi þar er innan við þúsund. Letur er þorp í austurhluta Albacete-héraðs. „Forgangsatriði okkar er að finna þetta fólk,“ segir Milagros Tolon, fulltrúi bæjaryfirvalda í Letur í samtali við spænska ríkisútvarpið.
Vakin var athygli á stöðunni á Facebook-hópnum Íslendingar á Spáni Costa Blanca þar sem mjög alvarlegri stöðu var lýst. „Trúi ekki að þetta sé hér á Spáni og maður er aldrei var við þetta. Kom smá gustur hér í Torrevieja en ekkert til þess að ræða um. Þetta er svakalegt og virkilega sorglegt að sjá,” sagði einn í hópnum. „Þetta er svakalegt,“ segir annar.
Spænska veðurstofan hefur gefið út rauða veðurviðvörun í Valencia-héraði og þá er næst hæsta viðbúnaðarstig í gildi í sumum hlutum Andalúsíu-héraðs. Borgaryfirvöld í Valencia hafa tilkynnt að skólar verði lokaðir í dag og allir íþróttaviðburðir felldir niður.