fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Slapp undan milljóna reikningi eftir klúður á bensínstöð

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 3. október 2024 19:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ónefndur maður sem tók bílaleigubíl á leigu lagði bílaleiguna fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Maðurinn hafði dælt svokölluðum adblue-vökva á bílinn í stað bensíns. Hafði þetta þær afleiðingar að bæði vél og eldsneytiskerfi bílsins eyðilögðust. Nefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að maðurinn ætti ekki að greiða bílaleigunni neitt fyrir tjónið en bílaleigan ætlaði sér að láta manninn greiða samtals á þriðju milljón króna.

Maðurinn vísaði málinu til nefndarinnar í apríl síðastliðnum og krafðist þess að bílaleigunni yrði gert að endurgreiða honum 1,3 milljónir sem hann hafði þegar greitt vegna tjónsins og krafðist þess einnig að bílaleigan félli frá innheimtu á kröfu sem nam sömu upphæð.

Maðurinn leigði bílinn frá 1. til 11. apríl 2024 og greiddi fyrir 127.045 krónur. Þann 2. apríl dældi hann svokölluðum adblue-vökva á bílinn í stað bensíns. Adblue-vökvi er sérstakt íblöndunarefni sem dælt er í dísilvélar til að draga úr útblæstri skaðlegra efna.

Bílaleigan fullyrðir að þetta uppátæki mannsins hafi orðið til þess að vél og eldsneytiskerfi bílsins eyðilögðust. Var maðurinn krafinn samdægurs um 1,3 milljónir króna sem hann greiddi á staðnum. Síðasta dag leigutímabilsins undirritaði hann yfirlýsingu um að hann bæri ábyrgð á tjóninu og féllst á að greiða 1,3 milljónir í viðbót innan tveggja vikna.

Ósanngjarnt að borga fyrir nýja vél

Manninum snerist hins vegar hugur. Hann byggði kröfur sínar fyrir nefndinni á þeim rökum að honum þætti ósanngjarnt að þurfa að greiða alls 2,6 milljónir króna til bílaleigunnar vegna tjóns á bílnum enda hafi hann verið nokkuð mikið keyrður. Maðurinn sagðist því ekki vilja greiða fyrir nýja vél.

Bílaleigan vísaði í andsvörum sínum til þess að bílinn hefði orðið fyrir tjóni þegar maðurinn dældi adblue-vökva í bensíngeyminn. Þess vegna hafi þurft að skipta um vél og eldsneytiskerfi í bílnum. Hafi krafa bílaleigunnar til mannins miðað við tilboð í nýja varahluti og vinnu við viðgerð frá umboðsaðila framleiðanda bílsins. Hafi bílaleigan þó viljað koma til móts við manninn með því að gera aðeins kröfu um greiðslu að fjárhæð alls 2,6 milljónir króna. Minnti bílaleigan á að maðurinn hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu á tjóninu og lofað að greiða þessa upphæð og hefði þegar greitt helminginn.

Framvísuðu ekki gögnum

Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að bílaleigan hafi lagt fram tilboð umboðsaðila framleiðanda bifreiðarinnar, í kaup á varahlutum vegna viðgerðar á bílnum, og nam tilboðið 3,7 milljónum króna. Samkvæmt framlögðum reikningi bílaleigunnar til mannsins hafi kostnaður við viðgerð og kaup á varahlutum verið metinn að fjárhæð 4,2 milljónum króna. Þá hafi jafnframt legið fyrir tilboð umboðsaðila í viðgerð og varahluti alls að fjárhæð 4,3 milljónir króna.

Nefndin segir að í skilmálum bílaleigunnar sé tiltekið að engin trygging nái til tjóns sem verði af þeim völdum að röngu eldsneyti sé dælt á bíla hennar. Í skilmálunum sé hins vegar ekki að finna nánari upplýsingar um uppgjör vegna tjóns.

Nefndin segir enn fremur að það liggi fyrir að maðurinn hafi valdið tjóni á bílnum með því að dæla adblue-vökva á hann í stað bensíns en bílaleigan verði hins vegar samkvæmt reglum skaðabótaréttar að sýna fram á hvert raunverulegt fjárhagslegt tjón hennar hafi verið til þess að geta krafist bóta frá manninum.

Bendir nefndin á að hvorki liggi fyrir tjónamat fagaðila á bílnum né bilanagreining. Fyrir lá að bíllinn hafði verið skoðaður á verkstæði og óskaði nefndin eftir að bílaleigan myndi leggja fram bilanagreiningu frá verkstæðinu. Einnig óskaði nefndin eftir því að bílaleigan myndi leggja fram gögn sem kynnu að varpa ljósi á það fjárhagslega tjón sem hún hefði orðið fyrir vegna viðgerðar á bílnum. Í svari frá bílaleigunni kom fram að ekki hafi verið skráð formleg bilanagreining á verkstæðinu og það sé raunar ekki mikið um slíkt á verkstæðum á landsbyggðinni eins og um hafi verið að ræða í þessu tilfelli. Einnig sagðist bílaleigan hafa átt alla nauðsynlega varahluti til viðgerðarinnar á sínum eiginn lager og hafi tilboðið frá umboðsaðila framleiðandans verið látið duga til að gefa verðhugmynd að verkinu.

Sönnuðu ekki tjón sitt

Í sinni niðurstöðu segir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa að að umrætt tilboð umboðsaðilans dugi ekki eitt og sér til að sýna fram á fjárhagslegt tjón bílaleigunnar. Þar að auki hafi bílaleigan, að hennar sögn, átt alla nauðsynlega varahluti og framkvæmt viðgerðina á bílnum á sínu eigin verkstæði. Utanaðkomandi viðgerðarþjónusta hafi ekki verið keypt og engir varahlutir heldur. Auk þess hafi bílaleigan ekki lagt fram nein gögn sem styðji við það að í raun og veru hafi farið fram viðgerð á bílnum. Skilmálar bílaleigunnar um að tryggingar nái ekki yfir það að röngu eldsneyti sé dælt á bíla, í hennar eigu, hafi ekki áhrif á þá grundvallarskyldu að sýna fram á umfang fjárhagslegs tjóns til að geta krafist skaðabóta.

Þar sem nefndin taldi bílaleiguna ekki hafa tekist að sanna fjárhagslegt tjón sitt var fallist á þá kröfu mannsins að bílaleigunni bæri að endurgreiða honum þær 1,3 milljónir króna sem hann hafði þegar greitt henni og fella niður kröfuna um að hann myndi greiða 1,3 milljónir til viðbótar.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Eiga ekki orð yfir „málaliða“ Pútíns – Hvað eru þeir að gera?

Eiga ekki orð yfir „málaliða“ Pútíns – Hvað eru þeir að gera?
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við