fbpx
Fimmtudagur 03.október 2024
Fréttir

Húseigendur í Kópavogi sáu ekki til sólar fyrir trjágróðri nágrannans – Tekist á um hæð trjánna á tveimur dómsstigum

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 3. október 2024 20:48

Mynd af lóðinni sem um ræðir. Mynd: ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágreiningur fimm húseigenda í Kópavogi yfir trjágróðri á lóðum þeirra rataði fyrir héraðsdóm og síðan Landsrétt eftir að eigendur parhúsa sem stóðu ofar en einbýlishús konu höfðu árangurslaust reynt að semja við konuna um að klippa há trén á lóð hennar. Töldu eigendur parhúsanna sig ekki geta nýtt hús sín sem skyldi þar sem trén skyggðu á svalir þeirra, auk þess sem trjánum fylgdi óþægindi og óþrifnaður. 

Tvenn hjón, eigendur tveggja parhúsa, stefndu konu sem átti hús fyrir neðan lóð parhúsanna í september árið 2022. Kröfðust hjónin þess að konunni yrði gert skylt að 

„fjarlægja trjágróður sem gróðursettur hefur verið á lóð stefndu við Brekkuhjalla 9 í Kópavogi innan við fjóra metra frá mörkum þeirrar lóðar og lóða stefnenda að Heiðarhjalla 22-24, og að stefndu verði gert skylt að klippa og snyrta öll tré sem gróðursett hafa verið á fasteign stefndu að Brekkuhjalla 9 í Kópavogi niður í hæð sem er 54 m.y.s., að viðlögðum dagsektum, 70.000 krónum á dag, sem renni til stefnenda.“

Til vara kröfðust hjónin þess að konunni yrði gert skylt að

„klippa trjágróður sem gróðursettur hefur verið á lóð stefndu við Brekkuhjalla 9 í Kópavogi innan við fjóra metra frá mörkum þeirrar lóðar og 5 lóða stefnenda að Heiðarhjalla 22-24 þannig að hann standi ekki hærra en 1,8 metra frá jörðu, og að stefndu verði gert skylt að klippa og snyrta öll tré sem gróðursett hafa verið á fasteign stefndu að Brekkuhjalla 9 í Kópavogi niður í hæð sem er 54 m.y.s., að viðlögðum dagsektum, 70.000 krónum á dag, sem renni til stefnenda. Í báðum tilvikum krefjast stefnendur þess að stefnda verði dæmd til að klippa og fjarlægja trjágróður og rætur sem vaxið hafa yfir lóðamörk frá fasteign hennar að Brekkuhjalla 9, Kópavogi, og inn á lóð fasteignanna að Heiðarhjalla 22-24 í Kópavogi. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.“

Tekist á um þá hagsmuni að geta nýtt fasteign sína

Eins og fram kemur í forsendum Landsréttar reyndi í málinu á „þá hagsmuni áfrýjanda að nýta fasteign sína á þann hátt sem hún kýs og telur þjóna sér best. Sá réttur nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar en takmarkast jafnframt af nábýlis- og grenndarhagsmunum stefndu til að njóta friðar á eign sinni og nýta hana á þann hátt sem venjulegt má teljast.“

Málsatvik og kröfur aðila eru rakin í dómi héraðsdóms. Í honum kemur fram að hæstu trén á lóð konunnar stæðu hærra en parhúsin þrátt fyrir að parhúsin standi mun hærra í landinu sé miðað við grunnflöt þeirra. Lögmaður hjónanna sendi konunni bréf í júlí 2020 þar sem konunni var bent á að auk þess sem sólar nyti lítið vegna hæðar trjánna, þá fylgdi þeim meiri óþægindi og óþrifnaður en eðlilegt væri. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til viðræðna, án árangurs, og því væri sú krafa gerð að trén yrði felld og/eða grisjuð. 

Matsmaður sagði að klippa þyrfti trén

Matsmaður var kvaddur til til að meta hæð trjánna og í matgerð hans frá apríl 2022, kemur meðal annars fram að hávaxin tré sunnan megin væru flest með toppana í 60 metra hæð yfir sjávarmáli (m.y.s.) eða ofar, en trén vestan megin nokkuð hærri, eða um og yfir 62,5 m.y.s. Toppar trjáa á lóð konunnar væru því 11–13 metrum ofar en svalirnar á annarri hæð parhúsanna. Lagði matsmaður til í þessu sambandi, og til að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar, að klippa og snyrta allan gróður og tré á lóðamörkum, þannig að hann yrði ekki hærri en sem nemur 1,8 m, á svæði sem nái frá lóðamörkum og fjóra metra inn á lóð konunnar. Þá skyldi klippa öll tré niður í 54 m.y.s. til þess að birtu gætti á veröndum parhúsanna að parhúsanna, frá apríl hvert ár til loka ágúst. 

Vísuðu til nábýlisréttar og byggingarreglugerða

Hjónin byggðu kröfur sínar aðallega á almennum ólögfestum reglum nábýlisréttar, og vísuðu einnig til ákvæða byggingarreglugerða, sem endurspegli í raun hefðbundin grenndarsjónarmið sem taka beri mið af við túlkun á því hvaða grenndaráhrif nágrannar þurfi ekki að þola. Stefnendur byggðu á því að þau eigi lögvarinn rétt til þess að nýta fasteignir sínar með eðlilegum hætti til útiveru og annarra athafna, en það geti þau ekki að óbreyttu ástandi, óþægindin af trjágróðri stefndu séu veruleg í skilningi nábýlisréttar og mun meiri en stefnendur megi búast við. Einnig byggja stefnendur á því að hæð og umfang trjágróðursins á lóð stefndu brjóti gegn forsendum í deiliskipulagi Digraneshlíða.

Sagði garðinn veita sér skjól og náttúruunað

Konan krafðist sýknu og sagði ræktun sína á lóð sinni byggjast á skýrum samningum og skipulagsskilmálum. Taldi konan sér óskylt með öllu að gera garðinn sinn þannig að hann falli eingöngu að smekk hjónanna. Gróðurinn veitir konunni skjól og náttúruunað, auk þess sem hann bindi jarðveg og raka í bröttu landi og setji ræktarlegan svip á hverfið. Bar konan því við að  uppbygging lóðarinnar teygi sig aftur til fyrstu íbúðauppbyggingar í Kópavogi og hafi verið hluti af skipulagi þegar loks var ráðist í skipulagningu hverfis í Digranesi. Þegar hús hjónanna hafi verið reist, og hvað þá þegar þau keyptu hús sín, stóð trjágróðurinn á lóð konunnar.

Konan vísaði til meginreglu nábýlisréttar um að nágranni geti einungis krafist þess að fasteignareigandi stöðvi það sem valdi verulegum óþægindum og þurfi óþægindin einnig að vera meiri en nágranni mátti með réttu vænta. Stefnda hafnar því að trjágróður í garði hennar valdi stefnendum verulegum óþægindum, og ekki meiri en þau megi vænta í hverfinu. Þá vísar konan til þess að hún sé fædd árið 1948 og hafi búið lengi í húsinu sínu og ræktað lóðina eins og hún sé.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að konan hafi undirritað nýjan lóðarsamning við Kópavogsbæ í mars 2022, og þá gengist undir skilyrði og kvaðir lóðarsala, Kópavogsbæjar, um að hlíta almennum úthlutunarskilmálum, deiliskipulagsmálum og samþykktum byggingarnefndar varðandi mannvirki á lóðinni, lagnir, leiðslur og um frágang lóðar. Samkvæmt samningnum voru eldri samningar um sömu lóð felldir úr gildi með gerð þess samnings. 

„Þá hefur stefnda að mati dómsins ekki sýnt fram á með heildarmati á aðstæðum öllum að hagsmunir hennar af óbreyttu ástandi séu mun meiri en hagsmunir stefnenda, og er þeirri málsástæðu því hafnað, þótt fallast megi á að hærri gróður veiti meira skjól, og að tilfinningar tengdar trjágróðrinum kunni að vera miklar.

Aðalkröfu hjónanna hafnað 

Dómarinn taldi að hafna yrði aðalkröfu hjónanna þar sem hún gengi lengra en gert er ráð fyrir í reglugerð 112/2012, og þau sjónarmið og grenndarreglur sem þar liggja að baki, sem fallist hefur verið á að horfa verði til. Dómarinn féllst hins vegar á varakröfu hjónanna, 

„þó þannig að hæð trjáa við lóðamörk skal ekki vera meira en 48,6 metra hæð yfir sjávarmáli, en í því felst að trjágróður getur verið í 1,8 metra hæð yfir gólfi neðri plötu húsanna að Heiðarhjalla 22 og 24 og halli þaðan með 53° halla fjórum metrum frá lóðamörkum í 54 metra hæð yfir sjávarmáli, og trén á lóðinni að öðru leyti skulu ekki vera hærri en 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Með þessu móti telur dómurinn að gætt sé meðalhófs, þannig að tré geti verið hærri en 1,8 metrar, þótt þau standi innan fjögurra metra frá 14 lóðamörkum, vegna hæðarmismunar lóðanna.

Áfrýjaði og krafðist sýknu

Konan áfrýjaði dómnum til Landsréttar og krafðist sýknu. Í dómnum kemur fram að:

„Þegar lagt er mat á innbyrðis vægi þessara hagsmuna hefur almennt verið miðað við að eigendur fasteigna megi gera ráð fyrir einhverju óhagræði vegna sambýlis við annað fólk og þeir geti ekki krafist úrbóta af hálfu nágranna vegna óþæginda, nema óþægindin teljist veruleg og meiri en með réttu megi vænta.

Með vísan til framlagðrar matsgerðar dómkvadds matsmanns og þess sem dómendur sáu við vettvangsgöngu er ljóst að trjágróður á lóð áfrýjanda varpar svo miklum skugga á lóðir stefndu að þau geta ekki nema að litlu leyti notið sólar á lóðum sínum og svölum. Fallist er á það með stefndu að það takmarki verulega möguleika þeirra til að njóta þar útivistar og að óhagræði þeirra sé meira en þau þurfa að þola samkvæmt reglum nábýlisréttar.

Konan var sýknuð að hluta í Landsrétti oog aðeins gert að klippa hluta af trjám á lóð sinni. 

Hefur þrjá mánuði til að klippa trén til að sleppa við dagsektir

Samkvæmt dómi Landsréttar skal konan klippa innan þriggja mánaða þau tré sem gróðursett hafa verið á lóð hennar innan við fjóra metra frá mörkum lóðarinnar og lóða hjónanna, þannig að trén standi ekki hærra en 48,6 metra yfir sjávarmáli og halli síðan með 53° halla fjórum metrum frá lóðamörkum og í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Klippi konan ekki trén innan þriggja mánaða ber henni að greiða dagsektir að fjárhæð 35.000 krónur á dag sem renna til hjónanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðislega áreitni á salerni skemmtistaðar

Ákærður fyrir kynferðislega áreitni á salerni skemmtistaðar
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“
Fréttir
Í gær

Landsbankinn týndi veðskuldabréfi

Landsbankinn týndi veðskuldabréfi
Fréttir
Í gær

Erna verulega ósátt og spyr hvort lágkúrunni séu engin takmörk sett

Erna verulega ósátt og spyr hvort lágkúrunni séu engin takmörk sett