Björgunarsveitin Brák í Borgarfirði hefur lent illa í þjófum sem hafa brotið upp dósagáma sveitarinnar og stolið fyrir hundruð þúsunda króna. Gámarnir eru meðal annars í sumarhúsahverfum og þjófarnir eru augljóslega vel verkfærum búnir.
„Þetta er nýtt fyrir okkur,“ segir Jakob Guðmundsson, stjórnarmaður hjá björgunarsveitinni, í samtali við DV. „Við héldum í einfeldni okkar að fólk myndi ekki stela frá félagsskap. Hvort sem það er íþróttafélag eða björgunarsveit eða hvað sem er. Þetta er veruleikinn.“
Staðarmiðillinn Skessuhorn greindi fyrst frá málinu. Það er að þjófarnir hefðu stolið úr söfnunargámum björgunarsveitarinnar í sumarhúsahverfum í Svignaskarði og á Mýrum. Einnig úr kerru á lóð sveitarinnar á Fitjum í Borgarnesi.
Jakob segir að björgunarsveitin hafi fengið að vera í friði með þessa gáma í mörg ár. Bæði gámana í sumarhúsahverfunum og á Borgarnesi. Dósasöfnun er afar mikilvæg fjáröflun fyrir sveitirnar og því skiptir þetta miklu máli.
Aðspurður segir Jakob að þjófnaðurinn hafi ekki verið tilkynntur til lögreglu. „Það hefur ekkert upp á sig, þannig lagað,“ segir hann. „Það er miklu frekar að vekja athygli á þessu þannig að hinn almenni borgari sem fer fram hjá og sér eitthvað grunsamlegt láti vita af því.“
Auk þess að vekja athygli fólks á málinu þá verða settir á öflugri lásar á gámana.
„Við héldum að við værum með þetta nógu rammgert. Þetta eru læstir járngámar. Þá er lóðin hjá okkur upplýst og með myndavélum,“ segir Jakob. „Við tókum eftir þessu aðeins of seint. Myndavélaminnið náði ekki að dekka þetta.“
Jakob segist ekki vita hvort aðrar sveitir hafi lent í svona dósaþjófnaði. En á námskeiði nokkurra björgunarsveita í gær hafi málið verið rætt og Brák virðist eina sveitin á svæðinu sem hafi lent í þjófunum bíræfnu.
Bendir Jakob á að þessir einstaklingar séu greinilega á ferð um sumarhúsahverfin, vel verkfærum búnir. Það þurfi klippur eða kúbein til að brjóta upp svona rammgerða lása. „Þeir eru að leita að einhverju,“ segir hann.