fbpx
Fimmtudagur 03.október 2024
Fréttir

Arnar Björn kynntist konu á samskiptaforriti og nauðgaði henni 10 dögum síðar – 2 og hálfs árs dómur staðfestur

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 3. október 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur staðfesti í dag tveggja og hálfs fangelsisdóm yfir Arnari Birni Gíslasyni, fyrir nauðgun.  Arnar Björn, sem er 26 ára, var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember í fyrra, fyrir að hafa að morgni sunnudagsins 20. febrúar árið 2022 brotið á konu á heimili hennar í Reykjavík. 

Í ákæru dagsettri 11. maí 2023 segir að hann hafi 

„án  samþykkis konunnar og  með  ofbeldi  og ólögmætri  nauðung,  haft  samræði  og  önnur  kynferðismök  við  hana,  en  ákærði  stakk fingrum ítrekað inn í leggöng hennar, lagðist ofan á hana, hélt henni niðri og hafði við hana samræði og kleip hana víðs vegar um líkamann á meðan á þessu stóð og skeytti því engu þó konan segði honum ítrekað að hún vildi þetta ekki og bæði hann um að hætta, ýtti hendi hans í burtu og öskraði af sársauka. 

Af þessu hlaut konan roða og marbletti á brjóstum, bringu, ofanverðum upphandleggjum og hægra utanverðu læri og 1 cm langan skurð rétt fyrir utan leggangaop.“

Kynntust á samskiptaforriti

Arnar Björn og brotaþoli kynntust á samskiptaforriti, sem ekki er tilgreint frekar, þann 10. febrúar 2022, eftir nokkurt spjall hefðu þau hist fyrst föstudaginn 18. febrúar 2022. Þau gistu saman þá nótt, en ekkert kynferðislegt átti sér stað, og mæltu sér mót aftur kvöldið eftir. Brotaþoli sótti þá Arnar Björn rétt eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins þar sem hann hafi ekki getað náð í leigubifreið, og þau farið heim til hennar. Hefði hann þá verið búinn að drekka áfengi og verið drukkinn. 

Við heimkomu hafi þau lagst upp í rúm til að spjalla. Kvaðst brotaþoli hafa verið í samfestingi með stuttbuxum og nærbuxum innan undir og hafi ákærða tekist að koma vinstri hendi sinni inn undir hægri buxnaskálm hennar og stungið fingrum inn í leggöng hennar. Viti hún ekki hversu marga fingur hann hefði notað en þetta hefði verið mjög sárt. Væri hún með sár í leggöngunum eftir þetta og hefði það sést við skoðun. Kvaðst hún ítrekað hafa reynt að ýta ákærða í burtu. Ákærði hefði síðan klætt sig úr nærbuxunum og hefði hún þá sagt við hann að þau væru ekki að fara að sofa saman. Hann hefði engu svarað, lagst ofan á hana, dregið buxnaskálmina hennar til hliðar og stungið typpinu inn í píkuna á henni. Viti hún ekki hve lengi þetta hafi staðið yfir en hann hefði hætt og byrjað aftur að fingra hana og gert það hratt og harkalega og klórað hana svo hún öskraði. Kvaðst hún ítrekað hafa beðið hann um að hætta en hann engu svarað og hundsað hana. Að lokum hafi hann hætt og lagst við hlið hennar r og látið eins og ekkert hefði í skorist. 

Svaraði engu fyrr en eftir að brotaþoli lagði fram kæru

Sagðist brotaþoli eftir þetta hafa reynt að hafa samband við Arnar Björn til að fá hann til að biðjast afsökunar og segja honum að samskiptum þeirra væri lokið. Hann hafi engu svarað og að lokum hafi hún sent honum skilaboð og sagt honum að hún ætlaði að leita sér aðstoðar á Landspítalanum en hann engu svarað. Hafi hún talið að ákærði hefði verið að hundsa hana af því að hann vissi upp á sig skömmina. 

Brotaþoli sagði að Arnar Björn hefði haft samband við hana eftir að hún lagði fram kæru. Hafi hann þóst vera miður sín og talað um að fyrirfara sér og þannig komið inn hjá henni sektarkennd yfir að hafa kært hann. Þá hefði komið fram hjá honum að lögfræðingur hans hefði sagt honum að hafa samband við hana. Kvaðst hún hafa fengið endalaust af skilaboðum frá honum og hafa á endanum blokkerað hann. Þá hefðu þau einu sinni hist og hann þá grátbeðið hana um að gefa sér annað tækifæri en hún ekki viljað það. Brotaþoli kvaðst hafa leitað sér aðstoðar hjá áfallateymi Landspítalans vegna atviksins.

Arnar Björn neitaði því að samræðið hefði verið gegn vilja konunnar og sagði þau einnig hafa sofið saman kvöldið áður, sem konan sagði ekki rétt.

Fyrir héraðsdómi lágu skilaboð sem hann sendi konunni í júlí 2022 þar sem hann skrifaði:

Er sjálfur í smá mission-i […] og er að gera lista yfir það fólk sem ég hef sært á einhvern hatt á minni lífsleið. Þetta er ekki langur listi en þú ert þó á honum það sem mér finnst ég hafa valdið þér vonbrigðum/sært þig. Vill helst hitta fólk f2f og biðjast fyrirgefningar en ef þú treystir þér ekki i það skil ég það mjög vel. […] 7 […] … vil ég biðjast innilegrar afsökunar og vona að þú getir fyrirgefið mér en mun samt skilja það ef þú vilt það ekki.

Fyrir dómi sagði hann að hann væri að biðja konuna afsökunar á hve seint hann svaraði henni.

Dómari taldi framburð Arnars Björns ótrúverðugan um margt

Héraðsdómur byggði niðurstöðu sína á trúverðugum framburði brotaþola gegn neitun ákærða.  Framburður Arnars Björns hefði verið á reiki um málsatvik og sumar skýringar hans mjög ótrúverðugar. Taldi dómari að Arnari Birni hafi átt að vera ljóst frá í upphafi að konan væri að saka hann um alvarlega háttsemi. Dómari taldi framburð konunnar hafa verið stöðugan frá upphafi og hún trúverðug um málsatvik. Framburður konunnar fengi stoð í skýrslu á Neyðarmóttöku, vottorði og vitnisburði læknis og hjúkrunarfræðings, sem og annarra sem komu fyrir dóminn. 

Dómari taldi, sérstaklega með vísan til framburðar brotaþola og heildstæðs mats á öðrum fyrirliggjandi gögnum, sannað að ákærði hafi án samþykkis brotaþola og með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola eins og í ákæru greinir. Taldi dómari í ljósi alvarleika brotsins og með hliðsjón af dómafordæmum ekki tilefni til að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Konan krafðist miskabóta að fjárhæð 3,5 milljónir króna og voru dæmdar 1,8 milljón í dómi héraðsdóms. Voru bæturnar hækkaðar í 2 milljónir í dómi Landsréttar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“

Ragnar Þór sakar Seðlabankann um hræsni og gerir sláandi samanburð – „Þetta er auðvitað allt okkur að kenna“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrá afhentar ólöglega

Viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrá afhentar ólöglega