Í leiðara Morgunblaðsins í dag er þögnin innan Samfylkingarinnar gagnrýnd og bent á að Morgunblaðið hafi – eins og aðrir fjölmiðlar – ítrekað reynt að ná tali af bæði Kristrúnu og Degi en án árangurs.
„Í kosningabaráttu eru stjórnmálamenn ekki aðeins í framboði, af þeim er eiginlega offramboð. Ekki síst í fjölmiðlum, þar sem þeir fitja upp á stefnumálum og reyna að sýna á sér mannlega hlið. Það er gagnlegt til kynningar á mönnum og málefnum, en karp og kappræður leiða einnig margt í ljós um bæði málefnin og mennina,“ segir leiðarahöfundur og heldur áfram:
„Almenningur fékk óvænta innsýn í það um helgina, þegar svör Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar til kjósanda í Grafarvogi voru opinberuð. Hún tók af öll tvímæli um ætlað aukahlutverk Dags B. Eggertssonar í þingliði Samfylkingar og útilokaði ráðherradóm hans, en ef það sefaði kjósandann ekki gæti hann einfaldlega strikað Dag út í kjörklefanum.“
Bent er á það að í þessu hafi falist ótal fréttir, svo sem um samkomulagið í forystu flokksins, fyrirhugaðan ráðherralista. „Og það að Kristrún, sem boðað hefur nýtt upphaf og ný stjórnmál, varð þarna uppvís að gamaldags baktjaldamakki,“ segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins og bætir við að við blasi ótal spurningar sem kjósendur þurfa að fá svör við.
„Þá brá hins vegar svo við að það var ekkert framboð til þess að anna þeirri eftirspurn. Morgunblaðið hefur síðan – líkt og aðrir fréttamiðlar – reynt að ná tali af Kristrúnu, en hún gefur ekki kost á viðtali. Dagur svaraði ekki heldur. Ekki oddvitar framboðslista eða starfsmenn flokksins. Enginn,“ segir höfundur og heldur áfram:
„Ekki fyrr en í gærkvöld að Dagur kom í Silfur Rúv. og sagði að segja mætti að Kristrún hefði beðið sig fyrirgefningar og að hann væri sáttur, þó greinilegt væri að hann var allt annað en sáttur. Sérstaklega með að hún væri búin að ákveða ráðherralistann, sem hann taldi alls ekki tímabært. Þar er ósögð saga og henni er ekki lokið.“
Leiðarahöfundur segir að stjórnmálamenn vilji vanalega rými undir málflutning sinn í fjölmiðlum, ekki síst í aðdraganda kosninga. Því sé jafnan vel tekið, enda felist í því þjónusta við almenning.
„Veigamesti þáttur þess lýðræðislega hlutverks er þó að halda valdhöfum við efnið, veita þeim aðhald: spyrja þá út úr. Og hreinskiptnir stjórnmálamenn svara óhikað, jafnvel þegar spurt er um óþægileg efni og fá svör góð. Hvaða ályktanir má draga um stjórnmálamenn sem loka að sér í miðri kosningabaráttu og neita að svara áleitnum spurningum, sem eiga beint erindi við kjósendur? Sem forðast að svara almenningi af einlægni um eigin gerðir?“
Segir höfundur að það beri ekki vott um góða samvisku í þessu máli. „En fyrst og fremst vekur þögnin spurningar um heilindi og traust, kjark og hreinskilni, sem allt er bráðnauðsynlegt í fari þeirra sem veljast til æðstu embætta þjóðarinnar.“