fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Kona sem stakk kærasta sinn bar við neyðarvörn en var sakfelld – Hlaut áverka víða um líkamann eftir manninn

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 29. október 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona hefur verið sakfelld í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að stinga kærasta sinn með hnífi. Konan bar við neyðarvörn og sagðist hafa neyðst til að beita hnífnum til að bjarga lífi sínu eftir að maðurinn hafi ráðist á hana. Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi veitt henni áverka. Þetta dugði þó ekki til sýknu.

Atburðurinn átti sér stað vorið 2021 en konan var ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Í ákæru var hún sögð hafa stungið manninn ítrekað með hnífi sem var með 15 sentímetra blaði. Hlaut maðurinn 5 sentímetra skurð á aftanverða vinstri öxl og djúpan skurð í vinstri hnésbót og varð sá skurður til þess að taug skaddaðist.

Um málsatvik segir í dómnum að maðurinn hafi óskað eftir aðstoð lögreglu. Lögreglumenn komu að honum í anddyri fjölbýlishússins þar sem konan bjó ásamt fimm ára syni sínum. Talsvert blóð var í kringum hann. Hann tjáði lögreglumönnum að kona í húsinu hefði stungið hann en vildi ekki gefa upp nafn hennar.

Hafi verið fyrri til að beita hnífi

Lögreglumenn bönkuðu upp á hjá konunni sem viðurkenndi að hafa veitt manninum áverkana. Hún sagði að hann væri kærasti hennar en að þau byggju ekki saman. Konan lýsti atburðarásinni fyrir lögreglumönnum á vettvangi. Hún sagði að kærastinn hefði komið í heimsókn og þau drukkið saman áfengi eftir að sonur hennar sofnaði. Hún sagði að til rifrildis hefði komið á milli þeirra vegna þess hversu ágengur maðurinn væri við hana þegar hún vildi ekki sofa hjá honum.

Konan sagði manninn hafa skorið í samfesting sem hún var í. Hann hafi síðan lamið og sparkað í hana og hún þá náð í hníf og stungið hann.

Fram kemur í dómnum að maðurinn og konan hafi bæði verið ölvuð þegar lögreglan kom á vettvang.

Konan var með sýnilega áverka meðal annars sár á höku sem blæddi úr og kúlu fyrir ofan annað gagnaugað. Hún var hins vegar ekki flutt á sjúkrahús heldur handtekin og sett í fangaklefa.

Daginn eftir atvikið leitaði konan sjálf á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans. Við skoðun kom í ljós meðal annars mar víða um líkamann og var hún einnig mjög aum í andliti. Ekki þótti þörf á annarri meðferð en að vísa henni á áfallateymi spítalans.

Hnífur fannst fyrir utan húsið og var hann tekinn til rannsóknar.

Hafi óttast um líf sitt

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði konan að maðurinn hefði kallað hana hóru, viðbjóð, skorið utan af henni fötin, sparkað í höfuð hennar og kýlt hana meðal annars í andlit og höfuð. Hún sagðist hafa óttast um líf sitt og náð í hnífinn til að verja sig. Hún hafi stungið manninn einu sinni en hann náð hnífnum af henni. Hún hafi þá flúið inn á baðherbergi.

Fyrir dómi sagði konan að maðurinn hefði áður en þetta atvik átti sér stað oft beitt hana ofbeldi. Eftir að hann réðst á hana hafi hún náð að stinga hann í öxlina. Hann hafi hins vegar haldið áfram að sparka í hana og þá hafi hún stungið hann aftan í annað hnéð.

Fyrir dómi lýsti maðurinn atburðarásinni talsvert öðruvísi. Hann sagði konuna hafa átt við áfengisvandamál og andleg veikindi að stríða. Þetta kvöld hafi komið til ósættis þeirra á milli eftir að hann hafi sagst vilja slíta sambandinu. Hann hafi þá fundið fyrir stungu aftan í annað hnéð. Maðurinn sagðist þá hafa reynt að yfirgefa íbúðina en þá komið til ryskinga þeirra á milli. Vel gæti verið að konan hefði einnig hlotið áverka. Áður en hann hafi komist út hafi konan stungið hann aftur. Maðurinn harðneitaði því að hafa beitt hnífi.

Lögmaður konunnar bar því við að hún hafi neyðst til að stinga manninn til að bjarga lífi sínu. Það hafi verið hennar eini möguleiki í ljósi mikilla líkamlegra yfirburða mannsins og vísaði lögmaðurinn einnig til áverkanna sem konan hlaut.

Ekki nauðvörn

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness segir að það sé ljóst að konan hafi hlotið áverka af völdum mannsins. Gögn málsins sýni fram á að hegðun mannsins þetta kvöld hafi ekki verið viðeigandi og hann undir töluverðum áhrifum áfengis. Hann hafi bersýnilega einnig líkamlega yfirburði yfir konuna sem hafi eflaust staðið ógn af manninum í því ástandi sem hann var.

Niðurstaða dómsins er hins vegar sú að þrátt fyrir þetta verði ekki fullyrt að lífi konunnar hafi verið ógnað eða að henni hafi verið nauðsynlegt að grípa til hnífs til að verjast manninum. Þá verði ekki annað ráðið en konan, ganstætt því sem hún fullyrti, hafi verið ein með hníf í átökunum. Dómurinn féllst ekki á að verknaður konunnar hafi verið réttmæt neyðarvörn í skilningi hegningarlaga.

Konan var því sakfelld.

Hæfilegt þótti að dæma hana í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í ljósi þess dráttar sem varð á málinu og að um var að ræða fyrsta brot.

Konan var einnig dæmd til að greiða manninum 500.000 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta en hann hafði krafist 5 milljóna króna. Hún þarf einnig að greiða lögmanni sínum málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns mannsins, samtals um 1,9 milljónir króna en sérstaklega er tekið fram í dómnum að tímaskráning beggja lögmanna þyki úr hófi miðað við umfang málsins.

Uppfært: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var því ranglega haldið fram að dómurinn hefði verið kveðinn upp við Héraðsdóm Reykjavíkur. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Í gær

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Í gær

Rýmingarreitirnir á Austurlandi

Rýmingarreitirnir á Austurlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“