fbpx
Fimmtudagur 31.október 2024
Fréttir

Hundaeigendur ósáttir við Icelandair – Ef þú getur ekki flutt inn hundinn þinn þá ertu að skilja eftir fjölskyldumeðlim

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 29. október 2024 12:30

Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erna Ómarsdóttir, formaður Hundaræktendafélags Íslands, segir marga hundaeigendur setta í mjög erfiða stöðu vegna þeirrar ákvörðunar Icelandair að hætta innflutningi gæludýra til landsins frá og með 1. nóvember.

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sú að Icelandair er að fara að taka í notkun nýja tegund Airbus-véla og hefur ákveðið að fjárfesta ekki í búnaði til að flytja gæludýr í þessum vélum. Ástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun eru sagðar vera annars vegar vegna kostnaðar og hins vegar vegna kolefnisspors.

Erna ræddi málið á Bylgjunni í morgun.

„Gæludýr sem eru flutt til Íslands eru í 80-90 prósent  tilvika gæludýr fólks sem fólk er að flytja hingað heim. Bara fjölskyldumeðlimir, þetta er bara hluti af fjölskyldunni. Þegar fólk er búið að vera úti í námi eða vinnu eða hvað það er, þá vill það náttúrulega taka … þú skilur ekki barnið þitt eftir í Danmörku þegar þú flytur heim. Þú tekur hundinn með þér líka,“ sagði Erna.

Erna hefur rætt málið við Icelandair og komið sjónarmiðum hundaeigenda til skila.

„Við fengum fund með Icelandair í síðustu viku og áttum gott samtal. Það var gott að fá að hitta þau og koma okkar áhyggjum og sjónarmiðum til skila fyrir okkar félagsmenn og aðra hundaeigendur. Við erum náttúrulega búin að heyra rosalega mikla umræðu og óánægju með þetta. Í gær og dag og á morgun er innritun í einangrun hjá annarri stöðinni og þegar þú horfir á flugfélög sem eru að koma þá er þetta eiginlega bara Icelandair og ein, tvær eða kannski þrjár vélar með SAS og Finnair, sem flytja hunda,“ sagði Erna ennfremur.

Varðandi þá spurningu hvort ekki sé hægt að beina gæludýraflutningum til annarra flugfélaga þá benti Erna á að mörg flugfélög hafi fengið þær upplýsingar að dýraflutningur til Íslands sé ekki leyfður. Virðist það vera misskilningur sem stafar af því að fyrir nokkru var tekið fyrir dýraflutning í farþegarými. Erna segist vera að kanna hvort þessar villandi upplýsingar komi frá MAST eða Isavia. „Það er rosalega alvarlegt mál að þessar upplýsingar séu að komast svona illa til skila. Næst á dagskrá er að finna út hvaðan þessar upplýsingar eru að koma og láta leiðrétta þetta.“

Flutningar með dýr til landsins skipta mörg hundruð á ári. Erna bendir á að það séu tvær einangrunarstöðvar fyrir gæludýr í landinu sem taki 20-25 hunda í hvert holl, en tekið er inn á þriggja vikna fresti. Fjöldinn er því mjög mikill. „Ég veit að þetta eru í 80-90% tilvika að koma með Icelandair-flugi. Þetta er rosalega þungt högg.“

Erna vísar til samfélagslegrar ábyrgðar Icelandair:

„Icelandair er okkar tenging við alheiminn. Þetta er okkar flugfélag og hefur verið í mörg mörg ár. Þetta er að okkar mati samfélagsleg ábyrgð, að flytja inn fjölskyldu til landsins. Samfélagsleg ábyrgð er farin að skipta máli þegar hún er farin að kosta.“

Þáttarstjórnandi spurði Ernu hvort Icelandair væri með þessu að brjóta upp fjölskyldur. Hún sagði:

„Já, ég meina ef þú getur ekki flutt inn hundinn þinn og þú þarft að skilja hann eftir þá ertu að skilja eftir fjölskyldumeðlim.“

Hún segir að fundurinn með Icelandair hafi verið góður og vonandi finnist einhver lausn á málinu.

Sjá nánar hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Glúmi brugðið vegna ummæla Ólafs í Silfrinu í gærkvöldi

Glúmi brugðið vegna ummæla Ólafs í Silfrinu í gærkvöldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hallgrímur svarar Snorra með myndbroti úr þætti Gísla Marteins – „Við biðjum öll fyrir framtíð þessa unga efnismanns“

Hallgrímur svarar Snorra með myndbroti úr þætti Gísla Marteins – „Við biðjum öll fyrir framtíð þessa unga efnismanns“