Hvað leikskólana varðar þá eru stjórnendur minntir á að þeim beri skylda til að sjá til þess að starfsemi og þjónusta truflist sem minnst vegna verkfalls. Minnt er á að aðeins félagar í Félagi leikskólakennara eru á leið í verkfall. Stjórnendum beri að sjá til þess að allar deildir séu starfandi með því starfsfólki sem ekki fer í verkfall. Stjórnendur hafi heimild til að flytja starfsmenn milli deilda eftir þörfum og ekki sé skylt að loka deild þó deildarstjóri sé í verkfalli. Eins er minnt á að leikskólakennarar þiggja ekki laun á meðan verkfalli stendur og að laun í veikindaleyfum, námsleyfum og öðrum launuðum leyfum falla niður á meðan verkfall varir. Hið sama eigi um laun starfsfólk í orlofi.
Hvað grunnskóla varðar er minnt á að skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjóri staðgengill á undanþágulista fara ekki í verkfall og „mega/eiga að sinna öllum þeim störfum sem þeir sinna venjulega samkvæmt starfslýsingu, hvort sem það er kennsla eða stjórnunarstörf“. Heimilt sé að nýta skólahúsnæðið á þann hátt sem sveitarfélagið kýs til kennslu. Sveitarfélögum sé heimilt að bjóða grunnskólanemendum upp á hvers konar gæslu eða umönnun og lengda viðveru í samræmi við þá þjónustu sem hefur verið í boði. Minnt er á að fjöldi starfsfólks er ekki í verkfalli og sinnir því störfum sínum að venju. Fyrir liggi þó að starfsemi muni skerðast og þurfi að skoða verkefnastöðu í því ljósi. Heimilt sé að breyta vinnuskipulagi annarra starfsmanna skóla, sem ekki eru í verkfalli, að svo miklu leyti að ekki verði litið svo á að þeir séu að ganga í störf kennara í verkfalli. Eins er minnt á að öll laun og launagreiðslur, hverju nafni sem þau nefnast séu „fryst“ á meðan verkfalli stendur.
Sambærileg bréf voru send í tengslum við verkföll leikskólakennara árið 2011 og taldi þáverandi formaður Félags stjórnenda leikskóla að verið væri að hvetja til verkfallsbrota. Sama var uppi í aðdraganda verkfalla grunnskólakennara árið 2004 en þá gagnrýndu kennarar að SÍS væri að hvetja til verkfallsbrota með því að benda sveitarfélögum á að þeim væri heimilt að nýta húsnæði skólans eins og þau vilja, svo sem með því að bjóða upp á gæslu.
Verkföll hefjast að óbreyttu í 9 skólum á miðnætti. Skólarnir eru eftirfarandi: