fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

Segir að ekki áður hafi nokkur verið niðurlægður við val á lista eins og Dagur

Ritstjórn DV
Mánudaginn 28. október 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Óhætt er að segja að ekki hafi maður áður verið niður­lægður með slík­um hætti við val á lista og verður að telj­ast með ólík­ind­um að hon­um sé boðið sætið, hvað þá að hann þiggi það.“

Þetta segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag um afhjúpandi skilaboð sem Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sendi kjósanda á dögunum. Fjallað var um skilaboðin um helgina en kjósandinn lýsti yfir áhuga á að kjósa Samfylkinguna en kvaðst þó óánægður með að Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, væri á lista í Reykjavík norður á eftir henni.

Í svari til kjósandans gerði Kristrún sem minnst úr væntanlegu hlutverki Dags, lagði áherslu á að hann yrði ekki ráðherra og benti kjósandanum á að hann gæti kosið Samfylkinguna en strikað yfir nafn Dags. Kristrún bætti því við að það væri hún sem stjórnaði í Samfylkingunni en ekki Dagur.

Uppnám eftir afhjúpandi skilaboð Kristrúnar til kjósanda – „Þetta er ógeðsleg framkoma“

Í leiðara blaðsins segir höfundur að Dagur hafi þurft að bíða lengi eftir svari frá Kristrúnu um það hvort hann fengi yfirleitt sæti á lista flokksins.

„Þegar svarið kom þá var annað sætið í öðru Reykja­vík­ur­kjör­dæm­inu í boði, alls ekki odd­vita­sæti. Þetta er sér­stak­lega áhuga­vert í ljósi þess að formaður­inn sagði einnig að fyrst og fremst yrði horft til odd­vit­anna við val á ráðherr­um flokks­ins, komi til þess, Dag­ur sé hins veg­ar „að stíga til baka“,“ segir leiðarahöfundur og vindur sér síðan að einkaskilaboðunum sem birtust um helgina þar sem talað sé enn skýrar.

Aukaleikari og í stuðningshlutverki

„Óhætt er að segja að ekki hafi maður áður verið niður­lægður með slík­um hætti við val á lista og verður að telj­ast með ólík­ind­um að hon­um sé boðið sætið, hvað þá að hann þiggi það. Hann skal sitja og standa eins og formaður­inn seg­ir, hann er „auka­leik­ari“, eins og formaður­inn orðar það og í „stuðnings­hlut­verki“. Þá bend­ir hún kjós­anda í einka­skila­boðum á að sé viðkom­andi ósátt­ur við að hafa Dag á list­an­um þá liggi „bein­ast við að strika hann út“. Og til að tryggja ræki­lega að eng­inn efi sé til staðar um álit for­manns­ins á borg­ar­stjór­an­um fyrr­ver­andi tek­ur Kristrún fram að hún skilji „vel sjón­ar­mið fólks sem vill ekki hafa hann“ og að staða Dags á list­an­um þýði ekki að „ég sé samþykk öllu sem borg­in hef­ur gert“.“

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir að þetta sé allt með miklum ólíkindum og útilokað sé að engin eftirmál verði, þó að eflaust verði „reynt að setja lokið á“ fram yfir kosningar.

Vilji ekki segja nei en þó draga úr skaða framboðsins

„Það geng­ur vita­skuld ekki upp að halda því fram að fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri til margra ára geti ekki orðið ráðherra því að hann sé á Alþingi kom­inn á nýj­an vett­vang og þurfi að læra að fóta sig. Hvað þá með Ölmu Möller og Víði Reyn­is­son? Hvaða yf­ir­burðareynslu hafa þau sem fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri hef­ur ekki? Eða Jó­hann Páll Jó­hanns­son, sem setið hef­ur á þingi í þrjú ár en hafði fram að því ekki telj­andi reynslu.“

Segir leiðarahöfundur að auðvitað sé það fyrirsláttur að fyrrverandi borgarstjóra skorti reynslu eða þekkingu til að vera gjaldgengur sem ráðherraefni. Augljóst sé að eitthvað annað búi að baki.

„En hvað er það þá sem veld­ur þess­ari sér­kenni­legu fram­komu for­manns­ins við flokks­fé­laga sinn? Aug­ljósa skýr­ing­in hlýt­ur að vera sú að formaður­inn veit, þó að borg­ar­stjór­inn fyrr­ver­andi og flokk­ur­inn viður­kenni það ekki, að und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar hef­ur Reykja­vík verið illa stjórnað, þjón­ust­an við íbú­ana er af­leit, skipu­lags­mál­in í ólestri og fjár­mál­in þannig að í al­gert óefni er komið,“ segir í leiðaranum sem endar á þessum orðum:

„Þessu vill formaður­inn ekki gang­ast við og treyst­ir sér því ekki til að segja nei við fram­boði Dags, en vill draga úr skaða þess fyr­ir flokk­inn. Um leið von­ast Kristrún lík­lega til þess að Dag­ur verði gagn­leg­ur við að mynda stjórn í anda Reykja­vík­ur­mód­els Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, með Pír­öt­um, Viðreisn og eft­ir at­vik­um Fram­sókn eða Vinstri-græn­um, nái sá flokk­ur þrátt fyr­ir allt á þing. Dag­ur seg­ir sjálf­ur í fram­boðsyf­ir­lýs­ingu sinni að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn þurfi frí, og miðað við orð for­manns­ins um að hann dansi að henn­ar vilja eru þau skila­boð vænt­an­lega frá henni kom­in.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng