fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Jóhanna segir styttingu vinnuvikunnar blekkingu og vill fá kaffitímann sinn til baka – „Ég upplifi að það sé búið að halda okkur í gíslingu“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 28. október 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhanna Helgadóttir, starfar í leikskóla og hefur mikið velt fyrir sér styttingu vinnuvikunnar. Það sé ekki öllum stéttum jafnt gefið í því verkefni. Hjá leikskólum sé starfsmönnum í reynd haldið í gíslingu þar sem stytting vinnuvikunnar megi ekkert kosta. Þar með fæst ekkert afleysingafólk og þar með sé verið að skaða faglegt leikskólastarf. 36 stunda vinnuvika í leikskólum muni alltaf kosta eitthvað og/eða leiða til skerðingar á þjónustu. Jóhanna vekur athygli á þessu í aðsendri grein hjá Vísi sem birtist um helgina.

Full stytting vinnudags á leikskóla þýði að hver starfsmaður safni sér 2 frídögum á mánuði. Til að setja það í samhengi nefnir Jóhanna að á deild með 5 starfsmenn séu það 10 dagar í mánuði þar sem starfsmenn vantar, og án þess að afleysing komi í staðinn. Jóhanna segir að styttingin sé seld undir fölskum formerkjum. Hér sé ekki verið að gefa starfsfólki eitt né neitt heldur þurfi starfsfólk að fórna forræði sínu á 35 mínútna kaffitíma. Þess í stað fær það 15 mínútur yfir daginn. Þessu fylgi svo aukið álag og streita út af mönnunarvanda.

Sjálf geti Jóhanna lent í því að vinnustaður hennar kjósi þessa styttingu í hennar óþökk, þar sem meirihlutinn ræður. Hún hefur engan áhuga á að fórna kaffinu sínu. Nú ætli sveitarfélagið þar sem Jóhanna starfar að mæta mönnunarvanda vegna styttingarinnar með því að fjölga dögum sem leikskólanum er lokað á ári.

„Sú staða hefur einfaldlega skapast vegna vinnustyttingarinnar að starfsfólk í leikskóla kemst ekki með góðu móti í sveigjanleg hlé, pásur á vinnutíma, og stundum er það þannig að starfsfólk kemst bara ekki einu sinni frá til þess að fara á salernið. Klárlega er afleysinga þörf og við höfum bent á það ítrekað! Í a.m.k. 2 ár! Mig grunar, þó svo ég viti það ekki fyrir víst, að hópur starfsfólks í heilbrigðiskerfinu okkar sé að glíma við svipaðan vanda.“

Starfsfólk í gíslingu

Jóhanna bendir á að það sé galin stefna hjá sveitarfélögum að ráðast í styttingu vinnuvikunnar undir þeim formerkjum að það megi ekkert kosta. Það kosti nefnilega svo sannarlega þegar leikskólakennarar fórna undirbúningstímum til að leysa af vegna styttingar, og fá fyrir vikið borgaða yfirvinnu. Þar með sé sparnaðurinn enginn en afleiðingin þó sú að skaðlegt starf verður fyrir skaða.

„Ég upplifi að það sé búið að halda okkur í gíslingu styttingu vinnuvikunnar með því að segja við okkur að þessi útfærsla megi ekki kosta neitt. Það er svarið sem við starfsfólk í leikskóla höfum fengið hingað til þegar við höfum óskað eftir því að yfirmenn okkar ráði inn afleysingafólk til þess að leysa af nánast daglega í fullri vinnustyttingu. Klárlega hefur það verið fyrirsláttur af hálfu sveitarfélaganna og ég vissi það allan tímann. Hvers vegna veit ég það? Vegna þess að sveitarfélagið mitt er alveg tilbúið til þess að kalla mig í störf úr undirbúningstíma fleiri klukkustundir á mánuði til þess að dekka afleysingar og borga mér yfirvinnu fyrir það. Það gleður mig alls ekki að þurfa að gera það! Mig langar að neita því, á þeim forsendum að það skaðar faglegt leikskólastarf, en ég má það ekki.“

Launakostnaður  hækkað

Nú standi til að binda fulla styttingu, 36 stunda vinnuviku, í kjarasamning og það án þess að búið sé að greiða úr þeim vanda sem styttingunni fylgir, og það þó að sumir leikskólar hafi ekki einu sinni nýtt sér styttingu til fulls þar sem hún telst ógna öryggi og heilsu starfsmanna.

„Launakostnaður hjá mínu sveitarfélagi hefur hækkað vegna vinnustyttingar, skilvirkni og gæði í þjónustu er nú þegar skert, niðurstöður kannanna sýna veikleika í vinnustaðamenningu að einhverju leyti, öryggi barna og starfsfólks í leikskóla er ógnað, staðreyndin er sú að starfsfólk finnur fyrir auknu álagi og streitu í starfi vegna undirmönnunar, veikindadögum (bæði skamm- og langtíma) hefur fjölgað. “

Jóhanna óskar eftir fólki með sömu afstöðu og hún – sem hefur engan áhuga á að fórna kaffitímanum sínum svo það megi þræla sér út í meira álagi og streitu bara fyrir þessa frídaga. Ljóst sé að stytting hjá öðrum stéttum, þar sem ekki þarf að leysa fólk af, sé að heppnast mun betur. Þar fái fólk enn kaffið sitt. Hún skorar því á stéttarfélögin að endurheimta kaffitímann, samhliða fullri styttingu.

„Ég velti því líka fyrir mér hvort leikskólakennarar séu ánægðir með framkvæmdina full vinnustytting? Ég veit fyrir mitt leyti að það er ýmislegt við útfærsluna sem setja má spurningamerki við og kjarni málsins er einfaldlega þessi: Leikskólakennarar, ekki láta blekkjast og þiggja að lágmarki 15 mínútna neysluhlé fyrir fulla vinnustyttingu! Ég held að við getum öll verið sammála um að það er eitthvað verulega galið við það!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“