Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag en tilefni valsins er 400 ára afmæli Pembroke College sem var stofnaður árið 1624.
Óhætt er að segja að Hannes sé í góðum félagsskap á listanum því þar er einnig að finna rithöfundinn J.R.R. Tolkien, höfund Hringadróttinssögu, bandaríska öldungadeildarþingmanninn J. William Fulbright, breska stjórnmálamanninn Michael Heseltine lávarð og samgöngumálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Buttigieg.
Hannes ræðir þetta í samtali við Morgunblaðið þar sem hann segir meðal annars:
„Þetta kom mér algjörlega á óvart. Ég fékk tilkynningu frá Pembroke um þetta. En ég á ekki nema góðar minningar frá Oxford, þar sem ég var árin 1981 – 1985,“ segir hann meðal annars.
„Þar var spurt hvaða röksemdir og gögn menn gátu lagt fram en ekki hverra manna þeir væru eða í hvaða klíku. Á mínum námsárum í Oxford var þetta kyrrlátur griðastaður fyrir grúsk og rannsóknir, fjarri skarkala heimsins, en samt í góðum tengslum við hann, enda ekki nema klukkutíma ferð í lest til Lundúna.“
Í umfjöllun Morgunblaðsins er vísað í umsögn um Hannes á heimasíðu Pembroke College og er þess getið að hann hafi verið R.G. Collingwood Scholar á Pembroke og tvö ár og stofnað Hayek Society í Oxford. Þá sé hann kunnur álitsgjafi og málsvari hins frjálsa markaðar.