Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt eins og yfirleitt á þessum tíma vikunnar.
Meðal annars komu við sögu umferðarlagabrot, fíkniefnasala, umferðarslys þar sem gerandi stakk af, þjófnaðir og í miðborginni voru nokkrar líkamsárásir. Einna mest rými í tilkynningu lögreglunnar fékk hins vegar einstaklingur sem tók upp á því að abbast upp á lögreglumenn. Í tilkynningunni segir að óprúttinn aðili hafi verið handtekinn fyrir að standa í vegi fyrir lögreglubifreið við skyldustörf og neitað að færa sig. Aðilinn hafi ekki farið frá lögreglubifreiðinni og hafi hann verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Þegar búið var að afla allra nauðsynlegra gagna hafi aðilinn neitað að fara á brott af varðsvæði lögreglu og verið þá vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.