fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Hafa látist langt fyrir aldur fram á innan við tveimur árum – „Öll voru þau einu sinni saklaus lítil börn með allt lífið framundan“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 26. október 2024 15:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í ágúst 2022 var pabbi að flytja – við vorum að hjálpa honum við flutningana, ég, Aron bróðir minn, Helena systir mín og stjúpbræður mínir tveir Jón Kjartan og Sindri Geir. Í ágúst 2024 var pabbi svo aftur að flytja – nema í þetta skiptið voru það bara ég og Aron bróðir minn að hjálpa honum – hvers vegna? Jú, því hin þrjú eru öll látin. Fædd 1988, 1990 og 1997!“

Þannig hefst færsla Söndru Gunnarsdóttur, sem er 33 ára, fædd 1991, um alsystur hennar Helenu, og stjúpbræður hennar, Jón Kjartan og Sindra Geir. Bræðurnir og Sandra voru stjúpsystkini í 20 ár, en móðir þeirra og faðir Söndru skildu fyrir fimm árum.

Bræður létust sama dag

Jón Kjartan Einarsson og Sindri Geir Ásgeirsson létust með 12 klukkustunda millibili þann 9. ágúst síðastliðinn.

„Þann 9. ágúst síðastliðinn fékk Ásgeir þá harmafregn að sonur hans, Jón Kjartan Einarsson, hefði látist í íbúð sinni í Kópavogi. Jón Kjartan hafði átt við vímuefnavanda að stríða og mátti rekja andlátið til ofskömmtunar efna. Jón Kjartan var fæddur árið 1990. Bróðir Jóns Kjartans, Sindri Geir Ásgeirsson sem fæddur er árið 1997, bjó með honum í íbúðinni í Kópavogi. Hann átti líka við vímuefnavanda að stríða. Eftir að lögregla og heilbrigðisstarfsmenn höfðu yfirgefið íbúðina eftir andlátið vildi Sindri dvelja þar áfram, þrátt fyrir að fjölskyldu hans hafi þótt heppilegra að hann gerði það ekki. Örfáum stundum síðar var fjölskylduna farið að undra að ekki náðist samband við Sindra Geir. Lögregla fór á vettvang og kom að Sindra látnum 12 klukkustundum eftir andlát bróður hans. Bræðurnir féllu frá vegna ofskömmtunar með 12 tíma millibili. Ekkert bendir til annars en að um óhapp, en ekki viljaverk, hafi verið að ræða, eins og allt of oft gerist með fólk sem glímir við þennan sjúkdóm. Þetta er ólýsanlegur harmur og erfitt fyrir okkur öll að ná utan um þetta. Forsagan er líka sársaukafull.“

Sigmar Guðmundsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður og núverandi þingmaður Viðreisnar rekur í grein sinni fyrr í vikunni sögu bræðranna eftir símtal frá föður þeirra, Ásgeiri Gíslasyni.

Sjá einnig: Sigmar fékk átakanlegt símtal frá föður tveggja bræðra: Létust með tólf klukkustunda millibili – „Sagan sem hann bað mig um að segja er sorglegri en orð fá lýst“

Varð úti í óveðri rétt fyrir jól

Helena Ósk Gunnarsdóttir var 34 ára gömul þegar hún varð úti í Mosfellsbæ í óveðri sem gekk yfir rétt fyrir jól, nánar tiltekið dagana 17 – 19. desember. Helena Ósk var fótgangandi á leið heim til sín og fannst látin skammt frá heimili sínu þann 20. desember þegar veðrinu hafði slotað.

Sjá einnig: Ung kona varð úti í Mosfellsbæ í óveðrinu sem geisaði um jólin

Vonast eftir að andlát systkina sinna veki einhverja til umhugsunar

Jón Kjartan fór í meðferð rétt fyrir síðustu áramót. Vegna plássleysis var bið eftir áframhaldandi meðferð sem varð til þess að hann hélt ekki strax áfram meðferðinni. Jón Kjartan féll skömmu síðar 34 ára.

Sindri Geir var að reyna að sækja bata. Hann hafði nokkrum mánuðum fyrr óskað eftir því að komast í meðferð en það var átta mánaða bið. Hann lést á meðan 27 ára,“ segir Sandra í samtali við DV. 

Um systur sína segir hún: Helena var búin að vera edrú í mörg ár og búa sér yndislegt líf. Það kom svo að því að hún var að missa núverandi húsnæðið sitt og kom að lokuðum veggjum allsstaðar, verandi öryrki. Hún var búin að pakka niður og sá ekki fram á annað en að flytja í iðnaðarbil á verkstæði. Hún missti alla von og lést áður en úr því varð 34 ára.

Sandra segist engan veginn hafa átt von á þeim viðbrigðum sem færsla hennar fékk. 

Var skrifuð sem bara lítil grein fyrir vini og vandamenn – en snerti greinilega marga víðsvegar. Vonandi fær þetta fólk til umhugsunar, þó ekki nema bara nokkra.

Segir samfélagið einkennast af fordómum og lélegri forgangsröðun

Í færslu sem Sandra skrifaði á Facebook um systkini sín og hefur vakið mikla athygli segir Sandra að dauða systkina sinna megi að einhverju leiti tengja við rotið samfélag sem einkennist af fordómum og illa stjórnuðu þjóðfélagi þar sem forgangsröðunin á sér við engin rök að styðjast.

„Öll voru þau einu sinni saklaus lítil börn, hraustir og lífsglaðir krakkar með allt lífið framundan. Lengst af sitt stutta æviskeið voru þau fyrirmyndarborgarar – kærleiksrík, gáfuð, lögðu sitt af mörkum og voru harðduglegt fólk! Mun duglegra en margt af silfurskeiðarfólki í fínu jakkafötunum sínum sem sitja og búa til Power Point sýningar og bora í nefið – og öll áttu þau það sameiginlegt að eiga samheldna fjölskyldu sem stóð saman í hverju og einu þar sem væntumþykjan var ávallt allsráðandi.

En því miður áttu þau það líka öll sameiginlegt að koma að lokuðum dyrum alls staðar – því jú skattpeningunum okkar er auðvitað mun betur varið í að hjálpa utanaðkomandi fólki sem er oft ekki einu sinni í meiri neyð heldur en okkar eigin þegnar, okkar eigin ástvinir – því við þurfum jú að byggja sundlaugar og borgarlínur og sjá til þess að okkar fína og flotta ráðafólk komist alveg örugglega amk 10x á ári til útlanda og geti sopið sitt fína rauðvín – first things first sjáðu til.

Á meðan við getum sagst vera að hjálpa þúsundum manna annars staðar úr heiminum frá – þá skipta innviðir okkar og okkar eigið fólk engu máli – því að sinna okkar eigin fólki upphefur okkur ekki á pappír, en að sýna fram á hitt gerir það – ekkert nema sýndarmennska út í eitt ef þú spyrð mig.

Okkar eigin þegnar sem eru úti á gaddinum – þurfa annaðhvort að sofa undir berum himni eða í besta falli fá gám til að hreiðra um sig. Gám! – væri utanaðkomandi fólki boðið að búa í gám? Aldrei!“

Sandra segir að fyrir henni sé staðan í málefnum þeirra sem eiga við fíknivanda að stríða eins og ef heimilisbókhald gengur ekki upp, „þú átt ekki pening til að borða út mánuðinn, en samt ertu að styrkja góðgerðarmálefni um tugi þúsunda á mánuði – ok hugsunin er góð og falleg, en því miður hefurðu ekki efni á því – þú þarft fyrst og fremst að eiga ofan í þig og þína – og þegar þú ert komin á þann stað og átt meira til – þá fyrst geturðu farið og styrkt aðra – þú sveltir ekki þína eigin fjölskyldu til að hjálpa öðrum – eins og Ísland er að gera við okkur.“

Helena Ósk öryrki eftir alvarlegt bílslys

Sandra rekur sögu systur sinnar, Helenu Óskar, sem var öryrki eftir stóralvarlegt bílslys sem hún lenti í 14 ára. Sandra segir hana þó alla sína tíð hafa þurft að hunsa það og þjösna sér út í svartri vinnu „bara fyrir það eitt að geta átt ofan í sig og kisurnar sínar – taka svo bara verkjalyf því skrokkurinn þoldi þetta ekki, en vinnunni þurfti að sinna, því ekki komumst við af án matar – og ekki komumst við af á örorku – ekki á Íslandi í það minnsta.“

Segir föður sinn fá enga aðstoð

Faðir Söndru er einnig öryrki og segir Sandra hann hafa unnið á sjó allt sitt líf frá barnsaldri. Hann leigi á almennum markaði og eftir að íbúðin var seld og faðir hennar vantað nýtt húsnæði hafi þau leitað til bæjarins.

„Í von um aðstoð fyrir mann sem hefur borgað meiri skatta í þjóðfélagið heldur en margir – svarið? Nei því miður ekkert sem við getum gert – ok en þá endar hann heimilislaus? Já því miður ekkert sem við getum gert.“

Jón Kjartan og Sindri Geir misstu móður sína fyrir 4 árum

Bræðurnir Jón Kjartan og Sindri Geir sem nú eru látnir fengu enga áfallahjálp að sögn Söndru eftir að móðir þeirra lést með hörmulegum hætti fyrir fjórum árum.

„Stjúpbræður mínir misstu móður sína á hörmulegan hátt fyrir 4 árum síðan – það er ekkert sem grípur fólk – nákvæmlega ekkert – alveg eins og það er ekkert sem grípur son systur minnar eða nokkurn annan – bara life goes on, suck it up.“

Segir Sandra það ótrúlega staðreynd að meðferðarheimili loka á sumrin vegna fjárskorts, fíkn er sjúkdómur. „Síðan hvenær fara sjúkdómar í sumarfrí? Fer ekki örugglega krabbameinsdeildin líka í sumarfrí? – Þess á milli eru allir biðlistar fullir og í engin úrræði að leita – computer says no.

Afi minn var á hjúkrunarheimili – vann allt sitt líf og borgaði sína skatta – samt þurfti mamma að borga MEÐ honum á hjúkrunarheimilinu svo hann gæti leyft sér pepsi á laugardögum og súkkulaði með því – að lokum lést hann í höndunum á okkar á meðan starfsfólkið var að sinna öðru, því það var jú undirmannað – aftur, vegna fjárskorts.“

Viðvarandi vítahringur

Sandra spyr hvað gerist þegar svona vítahringur rúllar í hringi og enga aðstoð er að finna.

„Jú fólki fer að líða illa, fólk missir vonina, finnur engan tilgang, fólk finnur sig út í horni með dimmar hugsanir, fólk með tilhneigingu til þess leitar í áfengi og fíkniefni til að deyfa sig – og kostar það þjóðfélagið? Ó já! Miklu meiri fjár heldur en ef fólk fengi bara þann stuðning sem það á skilið að fá frá upphafi.

Þetta skilar sér í fleiri læknaheimsóknum, lyfjakostnaði, glæpum, álagi á lögregluna, skorti á sálfræðingum og geðlæknum, yfirfullum meðferðarheimilum, löngum biðlistum, heimilisofbeldi, óhamingju á heimilum sem síðan bitnar á börnum sem þar búa og þá fer þeim að líða illa og þá haga þau sér verr og gengur verr í skólanum og fara sem verri einstaklingar út í samfélagið og lengi mætti vel telja koll af kolli – hvort er þetta meira virði eða að bjóða bara fólki uppá mannsæmandi líf á þessu „besta landi í heimi.“

Dauði systkinanna gnístandi harmleikur fyrir alla sem syrgja

Sandra segir andlát systkina sinna þriggja hafa komið öllum í galopna skjöldu.

„Dauði þessara þriggja yndislegu einstaklinga kom öllum í galopna skjöldu og var og er gnístandi harmleikur fyrir alla sem eftir sitja! Sársaukinn við slíkt áfall er svo yfirþyrmandi að ég óska engum að upplifa slíkt – það er ekkert sem réttlætir að lífi þeirra þyrfti að ljúka, ekki neitt!

Þau áttu börn, foreldra, systkini, ömmur, afa og ótal vini og kunningja sem eftir sitja með brostin hjörtu – og þau áttu svo sannarlega allt lífið framundan.

Ofan á allt, þá þurfa eftirlifendur sem lenda í slíku áfalli nánast undantekningalaust að leita sér hjálpar við sorginni og sársaukanum og geta jafnvel skilað minna af sér en ella – sem allt leiðir til meiri kostnaðar fyrir þjóðfélagið, aftur vítahringur. Byrjum á rótinni, ekki bara þegar það er of seint.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir