Sverrir Einar Eiríksson, veitingamaður og fyrrverandi eigandi skemmtistaðarins B5 í miðborg Reykjavíkur, hefur kært lögreglumann til héraðssaksóknara fyrir rangar sakargiftir. Lögreglumaðurinn lagði fram kæru á hendur Sverri haustið 2023, þar sem hann sakaði hann um að hafa hindrað störf lögreglu og veist að sér með ofbeldi.
Eftir að kæran var tekin til rannsóknar af héraðssaksóknara var málið fellt niður þar sem talið var ósannað að Sverrir hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lögreglumaðurinn kærði hann fyrir. Í niðurstöðum kemur fram að ekkert í gögnum málsins, þar á meðal myndefni úr búkmyndavélum lögreglu, styðji að Sverrir hafi hindrað störf lögreglu eða beitt lögreglumanninn ofbeldi. Lögreglumaðurinn kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara, sem staðfesti niðurstöðu héraðssaksóknara um að fella málið niður.
Samkvæmt úrskurði ríkissaksóknara stóð Sverrir fyrir utan B5 þegar lögregla kom þangað haustið 2023 og ætlaði að framkvæma eftirlit. Sverrir krafðist þess að lögreglumennirnir framvísuðu skriflegri heimild fyrir aðgerðum sínum. Þegar lögreglumennirnir gerðu honum ljóst að hann yrði handtekinn ef hann hindraði þá í að fara inn á staðinn, vék hann úr vegi og lögreglumennirnir framkvæmdu eftirlitið. Í úrskurði ríkissaksóknara kemur einnig fram að hegðun Sverris, eins og hún birtist í myndbandsupptökum, bendi ekki til þess að hann hafi hindrað störf lögreglu, og engin gögn styðji ásakanir um ofbeldi.
Í kjölfar þessa atviks kærði Sverrir framferði umrædds lögreglumanns, sem stjórnaði aðgerðunum, til „Nefndar um eftirlit með störfum lögreglu (NEL)“ en niðurstaða nefndarinnar var sú að byggt á þeim gögnum sem nefndin hefði undir höndum sæi hún ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.
Eins og komið hefur oft fram í fjölmiðlum hefur Sverrir lengi haft mörg járn í eldinum í atvinnurekstri og verið umdeildur. Hann hefur meðal annars rekið skemmtistaðina B5 og Exit í miðborginni (en hefur nýlega selt B5), Hótel Brim í Skipholti og áfengisvefverslunina Nýja Vínbúðin. Hvað eftir annað undanfarið ár hafa verið framkvæmdar lögregluaðgerðir í fyrirtækjum Sverris, meðal annars eftirlit fjölmenns lögregluliðs á skemmtistöðunum tveimur, auk þess sem Hótel Brim hefur verið lokað vegna þess að starfsleyfi hafði ekki verið endurnýjað.
Sverrir var handtekinn í lok apríl á þessu ári, um hábjartan dag á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur, og leiddur í handjárnum yfir Ingólfstorg. Ástæða handtökunnar voru ásakanir um að Sverrir hefði rofið innsigli á dyrum skemmtistaðarins Exit, sem hafði verið sett þar án heimildar af lögreglu og starfsmanni skattsins. Eftir atvikið baðst yfirmaður starfsmanns skattsins Sverri afsökunar og lét fjarlægja innsiglið. Málið vakti mikla athygli og furðu enda fáheyrt að menn séu leiddir í handjárnum á almannafæri vegna ásakana um brot á innsigli.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sverris, segir að úrskurður ríkissaksóknara sýni glögglega að Sverrir og starfsfólk hans hafi verið lagt í einelti af hálfu þess lögreglumanns sem á þeim tíma stýrði eftirliti með veitinga- og skemmtistöðum. Hann vísar einnig til handtökunnar sem getið er um hér að framan. „Handtaka Sverris var algerlega tilefnislaus; jafn niðurlægjandi og hún var fyrir umbjóðanda minn sem leiddur var brott í handjárnum að viðstöddum fjölda manns sem margir tóku myndir sem sumar hverjar rötuðu í fjölmiðla. Varð hann fyrir miklum miska vegna þessa og verður ríkið krafið um bætur,“ segir Sveinn Andri.
Sveinn Andri segir einnig að mikilvægasta lexían sé sú að það sé alls ekki öllum gefið að fara með þær valdheimildir sem lögregla hefur. „Vanda þarf valið þegar menn eru valdir í starf lögreglumanns, þannig að í það veljist ekki menn sem kunna ekki með vald að fara heldur misbeita því.“ Hann bætir við að þessi lögreglumaður hafi þráfaldlega verið staðinn að valdníðslu og ef hann eigi að starfa áfram, verði það að vera í hlutverki þar sem engar valdheimildir eru til staðar.
„Það þarf að endurskoða eftirlit með störfum lögreglu frá grunni. Þetta mál sýnir að NEL er handónýtt apparat,“ segir Sveinn Andri.
Sverrir hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af úrskurði ríkissaksóknara. Hann segir að bæði héraðssaksóknari og ríkissaksóknari hafi vísað kærunni frá sem tilhæfulausri. „Myndbandsupptökur sanna að ég hvorki hindraði störf lögreglu né réðist á lögreglumann og raunar hafði ég hendur í vösum og lagði þær ekki á lögreglumanninn,“ segir hann. Sverrir telur umræddan lögreglumann hafa reynt að skapa falskt sakamál gegn honum og tilgreinir þrjár lagagreinar sem hann telur lögreglumanninn hafa brotið. Fréttatilkynningin er eftirfarandi:
„Fréttatilkynning: Sverrir Einar Eiríksson hreinsaður af röngum ásökunum lögreglu
Þann 18. september 2023 sendi lögmaður minn, Sveinn Andri Sveinsson, inn kvörtun til Nefndar um eftirlit með lögreglu (NEL) vegna afskipta lögreglunnar og ólögmætrar handtöku á veitingastaðnum B5 þann 17. september sama ár. Í kjölfar þessara kvartana brást lögreglan við með því að kæra mig fyrir að tálma störf lögreglu og ráðast á lögregluþjón. Bæði Héraðssaksóknari og Ríkissaksóknari vísuðu kærunni frá sem tilhæfulausri. Það kemur skýrt fram á myndbandsupptökum frá atvikinu að ég hvorki hindraði störf lögreglu né réðist á lögreglumann. Í staðinn sést þar að ég beygi mig niður með hendur í vösum til að heyra hvað lögreglumaðurinn hafði að segja.
Eftir að Ríkissaksóknari felldi málið niður þann 19. október 2024 og rökstuddi niðurstöðuna ítarlega, hef ég lagt fram formlega kæru á hendur lögreglumanni nr. [….] fyrir rangar sakargiftir. Ég hef einnig kvartað yfir störfum þessa lögreglumanns til NEL. Að auki hef ég sent bréf til þingmanna þar sem ég hvet til þess að NEL, eftirlitsnefnd með störfum lögreglu, verði efld til að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig, svo að borgarar þurfi ekki að óttast óréttmætar aðgerðir lögreglu.
Ákvæði almennra hegningarlaga
Ég tel að hegðun lögreglumanns nr. [….] brjóti gegn eftirfarandi ákvæðum almennra hegningarlaga:
1. Rangar sakargiftir (148. gr.) – Í 148. grein almennra hegningarlaga segir að hver sá sem vísvitandi leggur fram rangar eða villandi sakargiftir til þess að valda öðrum ámæli eða refsingu, getur átt yfir höfði sér refsingu. Með því að gefa rangar upplýsingar í lögregluskýrslu, tel ég að lögreglumaðurinn hafi reynt að skapa falskt sakamál gegn mér, sem brýtur alvarlega gegn grundvallarreglum um sanngirni og réttlæti í störfum lögreglu.
2. Rangt vitni (142. gr.) – Ef lögreglumaður gefur falskan vitnisburð fyrir dómstólum, eða í opinberri rannsókn, er það brot á 142. grein. Ég tel að rangar upplýsingar sem lögreglumaðurinn setti fram í skýrslu sinni hafi verið til þess fallnar að leiða til rangrar málsmeðferðar.
3. Misnotkun á valdi (131. gr.) – Samkvæmt 131. grein getur lögreglumaður verið refsað ef hann misnotar vald sitt í starfi. Ég tel að lögreglumaður nr.[…] hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að koma fram með rangar sakargiftir, sem eru í bága við grundvallarreglur um sanngirni og réttlæti.“