fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fréttir

Naumlega tókst að forðast mikinn árekstur í Vestmannaeyjahöfn – Skipstjóri Herjólfs fór ekki að beiðni hafnsögumanns

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 25. október 2024 11:00

Frá Vestmannaeyjum. Mynd: Óskar Friðriksson. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá sér skýrslu vegna atviks sem varð í höfninni í Vestmannaeyjum sumarið 2023. Þá munaði afar litlu að árekstur yrði milli farþegaferjunnar Herjólfs og flutningaskipsins Helgafells. Er það niðurstaða skýrslunnar að Herjólfi hafi verið siglt of nálægt Helgafelli þótt rými hafi verið fyrir skipið til að taka krappari beygju og koma þar með ekki eins nálægt flutningaskipinu og raunin varð en fjarlægðin milli skipanna var einn metri þegar þau voru næst hvort öðru. Einnig segja skýrsluhöfundar að skipstjóri Herjólfs hafi getað beðið á meðan Helgafell var að leggjast að bryggju en í skýrslunni kemur einnig fram að hafnsögumaður hafi beðið skipstjórann um að gera einmitt það en hann ekki orðið við því.

Í skýrslunni er farið yfir helstu staðreyndir um skipin en nokkur stærðarmunur er á þeim. Herjólfur er 15,09 metrar að breidd og mesta lengd hans er 71,73 metrar. Helgafell er 21,55 metrar að breidd og mesta lengd þess er 137,53 metrar.

Atvikið varð að morgni dags. Um borð í Herjólfi voru 35 farþegar og 10 manna áhöfn en á Helgafelli var 11 manna áhöfn. Helgafell var að leggjast að bryggju í höfninni, nánar til tekið að Kleifarbryggju, en Herjólfur var á hinn bóginn að sigla af stað frá Vestmannaeyjum, frá Básaskersbryggju. Á þessari mynd úr skýrslunni, sem er úr leiðsögutölvu hafnsögumanns, má sjá staðsetningu skipanna áður en Herjólfi var siglt af stað frá Básaskersbryggju.

Mynd: Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Atvikinu er lýst þannig að leggja hafi átt Helgafelli með bakborðssíðuna ( vinstri hliðina, innsk. DV) að bryggju og var verið að snúa því um 180 gráður til stjórnborða (hægri, innsk. DV). Skipstjóri Herjólfs hafi beðið um leyfi til brottfarar en hafnsögumaður, sem hafi verið um borð í Helgafelli, hafi beðið skipið um að bíða á meðan verið var að snúa Helgafelli en gefið jafnframt leyfi til brottfarar þegar Herjólfur hefði nægt rými.

Fór samt af stað

Í skýrslunni segir um það sem gerðist næst að áður en búið hafi verið að klára að snúa Helgafelli hafi Herjólfur haldið af stað. Skipið hafi tekið víða beygju og stefnt hafi í árekstur. Þegar skipstjóri Helgafells, sem var með hliðarskrúfur á hámarks afli í stjórnborða, hafi séð í hvað stefndi hafi hann beitt hliðarskrúfunum af fullu afli til bakborða til að hægja ferð skipsins. Herjólfur hafi farið mjög nærri Helgafellinu í víðri beygju áfram og farið síðan mjög nærri hafnarkanti Kleifarbryggju.

Í skýrslunni eru birtar þó nokkrar myndir úr tölvu hafnsögumannsins sem sýna fjarlægðina milli skipanna áður en Herjólfur fór af stað og hversu nálægt Helgafelli honum var siglt.

Í skýrslunni kemur fram að ein myndanna úr leiðsögutölvu hafnsögumannsins sýni hreyfingu Herjólfs og Helgafellsins en af þeim upptökum megi ráða að um einn metri hafi verið á milli skipanna þegar þau voru næst hvort öðru og einnig hafi vitni verið sammála um það. Samkvæmt framburði skipstjóra Herjólfs hafi hann metið aðstæður þannig að engin hætta hefði verið á ferðum.

Myndina úr skýrslunni sem sýnir hversu nálægt Helgafelli Herjólfi var siglt má sjá hér fyrir neðan.

Mynd: Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Í skýrslunni er einnig birt önnur mynd úr leiðsögutölvu hafnsögumannsins sem sýnir hversu nálægt hafnarkanti Kleifarbryggju Hejólfi var siglt þegar hann var kominn framhjá Helgafellinu.

Mynd: Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Nægt rými

Í þeim hluta skýrslunnar sem er með fyrirsögninni „greining“ segir að nægt svæði hafi verið í höfninni til að Herjólfur gæti tekið mun krappari beygju fyrir Básaskersbryggju og haldið beint í austur án þess að fara nærri Helgafellinu og hafnarkanti Kleifarbryggju. Kemur fram að skrúfur og leiðsögutölva Herjólfs hefðu ráðið vel við það.

Í niðurstöðuhluta skýrslunnar kemur fram skipstjóri Herjólfs hefði annaðhvort átt að fresta brottför þar til Helgafelli hefði verið lagt að bryggju eða að taka krappari beygju fyrir enda Básaskersbryggju og forðast með þeim hætti að fara of nærri Helgafellinu og hafnarkanti Kleifarbryggju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör