fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
Fréttir

Íslendingar ræða ofbeldisölduna sem ríður yfir landið – „Hver andskotinn er í gangi“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 25. október 2024 17:30

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræða fer nú fram meðal Íslendinga á samfélagsmiðlinum Reddit um þá hrinu ofbeldisverka sem skollið hefur á landinu að undanförnu. Sitt sýnist hverjum. Sumir vísa til erfiðs ástands geðheilbrigðismála, aðrir til efnahagsástandsins en sumir segja slíkar skýringar fela í sér of mikla meðvirkni með gerendum.

Íslendingar hafa rætt víðar en á Reddit um vaxandi tíðni ofbeldis í samfélaginu. Alvarlegum ofbeldisglæpum fer fjölgandi, hnífa- og annar vopnaburður fer vaxandi. Átta manns hafa verið myrtir á Íslandi það sem af er þessu ári.

Einn Íslendingur óskaði eindregið eftir svörum á Reddit um hvað sé að gerast í íslensku samfélagi:

„Hver andskotinn er í gangi með allt ofbeldið í landinu upp á síðkastið??“

Ljóst er að a.m.k. sumir þeirra sem framið hafa alvarleg ofbeldisverk á þessu ári eiga við geðræn vandamál að stríða og einn aðili sem svarar spurningunni vísar til bágs ástands geðheilbrigðismála:

„Geðheilbrigðismálin eru í lamasessi. Ekki nóg með það að það er algjört áhugaleysi hjá yfirvöldum fyrir því að gera eitthvað heldur eru fáfræði og fordómar meðal almennings gagnvart geðheilbrigðiskvillum miklu meiri en marga grunar.“

Annar svarandi vísar til ójöfnuðar:

„Af því aukinn efnahagslegur ójöfnuður ýtir undir aukna ofbeldisglæpi í öllum samfélögum, og við á Íslandi erum ekkert frábrugðin þeim öllum öðrum samfélögum Við kusum að eiga meira af ríku fólki, frekar en að halda í jafnaðarsamfélagið frá fyrri öld. Stjórnmál og efnahagsmál hafa raunverulegar afleiðingar sem taka oftar en ekki áratug að verða öllum ljós og hérna erum við.“

Ekki svo einfalt

Annar einstaklingur lýsir sig hins vegar ósammála því að aukið ofbeldi á Íslandi megi rekja til vaxandi ójöfnuðar og segir slíkar fullyrðingar bera vott um gerendameðvirkni:

„„Jafnaðarsamfélagið frá fyrri öld.“ Þetta er svo mikil afbökun á sögunni að það er ótrúlegt. Viltu í alvörunni að þjóðfélagið sé eins og á síðustu öld? Ertu að tala um jöfnuðinn þegar enginn fékk húsnæðislán nema með persónulegu samþykki bankastjóra og þá þurfti viðkomandi auðvitað að vera í réttum stjórnmálaflokki … Miklu stærri hluti þjóðarinnar var virkilega fátækur áður fyrr.

Þessi afsökun á ofbeldi af því að einhver lifir ekki lúxuslífi er orðin sorgleg og hættuleg. Það voru engin morð framin 1984, 1986 og 1987. Allan áratuginn voru framin 14 morð eða 1,4 á ári að meðaltali. Veistu hvernig efnahagsástandið var á þeim tíma? Verðbólgan fór upp í 25%, það voru tekin tvö núll af krónunni, sparnaður landsmanna brann upp, geðheilbrigðisþjónusta eða sálfræðiþjónusta var varla til og Íslendingar ofurölvi alkar af brennivíni því bjórinn var bannaður.“

Verðbólgan sé ekki málið

Einstaklingurinn heldur síðan áfram andmælum sínum:

„Að ætla að kenna 6% verðbólgu um það að fólk drepi börnin sín og fólk sé stingandi hvort annað hægri vinstri er algjör veruleikafirring og gerendameðvirkni. Þó það væri 1000% verðbólga þá er ekki hægt að benda á það sem afsökun fyrir barnamorðum (eða öðrum morðum).

Einn svaraði mér um daginn að fólk í gamla daga hefði bara verið svo vant því að hafa það slæmt, og þess vegna væri fólk núna ofbeldisfyllra, það væri svo góðu vant. Það er ömurleg afsökun að reyna að réttlæta allt þetta ofbeldi með því að fólk sé að lenda í einhverju mótlæti.“

Þessi aðili telur sjálfur líklegustu skýringuna vera utanaðkomandi áhrif og að fólk í íslensku samfélagi beini sjónum sínum í of miklum mæli að peningum og lífsgæðakapphlaupinu.

Annar svarandi segist telja orsakirnar margþættar:

„Meiri ójöfnuður. Mikil efnahagsleg pressa í ár og í fyrra. Háir stýrivextir, verðbólga og húsnæðiskreppa. Okkur hefur fjölgað of hratt fyrir innviði og svo í ofanálag fáum við 2 miljónir túrista a ári. Geðheilbrigðismál hafa verið hundsuð, áhugasamtök sjá um að eiga við fíknivandann. Við höfum alið upp kynslóð af ungum körlum sem eru vart læsir og tja svona mellufærir á ensku og íslensku. Stinga í stað þess að ræða málin eins og fullorðnir einstaklingar. Mér hefur líka fundist eins og samfélagssáttmálinn sé að rakna upp. Fólk getur ekki gert ráð fyrir því að eignast hús og aðstæður fyrir leigendur eru ömurlegar á Íslandi.“

Enn annar svarandi kennir almennri vanlíðan í samfélaginu um:

„Stress, álag, reiði, ópersónulegra samfélag, mikil vanlíðan. Mjög gott dæmi bara héðan er hversu margir þræðir eru búnir að vera hér á þessu ári frá fólki sem er einmanna og á enga vini/félagslíf. Mikið af þráðum um launakjör, húsnæðismál, og þar fram eftir götum. Mikið af fólki sem er að bugast í samfélaginu í dag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör