„Það ber enginn ábyrgð. Við erum orðin klikkuð í alvörunni í svo mörgu. Ég er þeirrar skoðunar að Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra átti að segja af sér á mánudagsmorgni eftir brunann á Stuðlum og ég skil ekki af hverju fjölmiðlar eru ekki að herja á manninn að segja af sér. Hann er æðsti maður málaflokksins. Og ekki bara hann! Framkvæmdastjóri fóstur og meðferðarsviðs hann á að hafa vit á að segja af sér. Og forstjóri barna- og fjölskyldusviðs,“
segir Davíð Bergmann Davíðsson sem hefur unnið með börnum í vanda frá árinu 1994.
Sjá einnig: Davíð segir Framsókn hafa gert upp á bak – „Þetta leikrit fáránleikans verður að taka enda“
Laugardaginn 19. október síðastliðinn kom upp bruni á unglingameðferðarheimilinu Stuðlum. 17 ára piltur lést í brunanum og starfsmaður fékk alvarlega reykeitrun, hann er á batavegi og líðan hans eftir atvikum. Eldurinn kom upp í neyðarvistunardeild Stuðla og er sú álma ónothæf eftir brunann.
Börn sem voru á Stuðlum þegar eldurinn kviknaði var komið fyrir ýmist á Vogi eða í öðrum úrræðum á vegum barnaverndar, nokkur voru send til síns heima. Þrjú þeirra barna sem send voru heim struku frá heimilum sínum, en hafa skilað sér aftur. Börnin sem eru enn í umsjón Barna- og fjölskyldustofu, fluttu aftur inn á Stuðla í gær, eftir viðgerðir og þrif á húsnæðinu.
Davíð er harðorður um málefni Stuðla í viðtali við Kiddu Svarfdal í þætti hennar Fullorðins á Brotkast.
„Ásmundur Einar Daðason hélt hérna flugeldasýningu 2018 með bæjarstjórn Garðabæjar þar sem var skrifað undir viljayfirlýsingu um sérhæft meðferðarheimili 2018. Það eru sex ár síðan. Hann er búinn að vera ráðherra í sjö ár og hvernig er staðan núna? Það er eitt meðferðarheimili virkt, það er búið að kveikja í hinu heimilinu.
Fyrir 20 árum voru meðferðarheimilin sjö, í dag eru þau tvö. Okkur er búið að fjölga um hundrað þúsund íbúa á 20 árum, segir þetta ekki allt sem segja þarf?“
Í frétt á vef Stjórnarráðsins þann 21. desember 2018 kom fram að stefnt væri að því að framkvæmdir hefjist á árinu 2020. Þar segir einnig:
„Ásmundur Einar Daðason segist hafa lagt mikla áherslu á úrbætur í þessum málaflokki og það sé afar ánægjulegt að búið sé að finna heimilinu stað. Nú sé spennandi uppbygging framundan þar sem áberandi sé jákvæðni allra aðila sem að þessu standa og sameiginlegur vilji til að láta þetta mikilvæga verkefni ganga vel.“
Davíð spyr af hverju það eru ekki alvöru menn með stjórn á þessum málaflokki í stað fólks sem hefur nagað blýanta í háskóla. Segist hann vera að tala um menn sem eru með samanlagt 70 ára starfsreynslu með erfiðustu einstaklinga á hverjum tíma.
„Ég er að tala um menn eins og Grétar Halldórsson, sem var deildarstjóri á Stuðlum í 20 ár. Böðvar Björnsson, sem var deildarstjóri neyðarvistunarinnar, sem er stórkostlegur starfsmaður. Auðunn Jónsson, heimsmeistari í kraftlyftingum. Nei það er eitthvað lið efst upp í risinu sem er með þetta. Svo erum við á innsoginu yfir því að ástandið sé svo slæmt. Hræsnin og bullið sem er búið vera í þessum málaflokki er svo átakanlegt. Ásmundur Einar Daðason þú lofaðir þessu heimili fyrir sex árum, hver er þín ábyrgð?“