fbpx
Laugardagur 26.október 2024
Fréttir

Örvar lýsir skelfilegri vist í tælensku fangelsi – Kakkalakkar í klefunum, stæk hlandlykt og sofið á ísköldu gólfi án dýnu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 24. október 2024 18:35

Örvar Myrkdal. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ætla ekki að leika eitthvert fórnaramb, ég kom mér í þessar hremmingar sjálfur. Ég var ekki tekinn neitt sérstaklega fyrir og lenti í einhverju, ég bara varð vitlaus og kom mér í vandræði,“ segir Örvar Geir Geirsson, öðru nafni Örvar Myrkdal, í viðtali við DV.

Örvar sat 25 daga í fangelsi í Phuket í Tælandi, fyrst og fremst vegna þess að hann var í landinu án vegabréfsáritunar. Örvar lýsir skelfilegri dvöl í fangelsinu og því miður er hætta á því að hann lendi þar aftur takist honum ekki að komast sér úr landi fyrir tilskilinn tíma.

Upphaf vandræðanna má rekja til óviðeigandi hegðunar Örvars á hóteli, sem hann gengst að fullu við. „Ég var handtekinn rétt fyrir lok ágúst vegna þess að ég lamdi í vegg á hótelherbergi og gerði gat í vegginn. Þegar lögreglan handtekur mig kemur síðan líka í ljós að ég er skilríkjalaus því vegabréfinu hafði verið stolið af mér ásamt ýmsum öðrum eigum. Það kom líka í ljós að ég var búinn að vera of lengi í landinu án vegabréfsáritunar. Þetta eru mín mistök sem ég gengst við en ég vil líka taka fram að ég er ekki glæpamaður og á engan slíkan feril að baki.“

Þegar Örvar hafði setið 25 daga í varðhaldi var efnt til réttarhalda vegna skemmdanna á hótelinu. Hóteleigandinn, sem kom fyrir dóm, féll hins vegar frá öllum kröfum. Hann var hissa yfir að Örvar væri búinn að sitja í varðhaldi vegna málsins og sagði að hann væri búinn að þola nóg vegna atviksins. Þetta dugði þó ekki til að Örvar væri látinn laus því þeir sem eru settir í varðhald vegna þess að þeir eru ólöglega í landinu þurfa að borga sig út í frelsið:

„Það er svona beil-kerfi í Tælandi og þetta var sirka 120 þúsund kall í íslenskum krónum talið sem ég þurfti að borga til að komast út.“

Örvar er bótaþegi og fær um 300 þúsund krónur lagðar inn á sig mánaðarlega. Þetta var um mánaðamót og því átti hann fyrir þessum mútum en fjárhagsstaðan er mjög þröng núna.

„Meirihluti teknanna fyrir þennan mánuð fóru í beilið og lögfræðikostnað,“ segir hann.

Þegar DV spyr út í aðbúnaðinn í fangelsi slær þögn á Örvar og er hann rýfur þögnina brestur röddin og hann segist eiga mjög erfitt með að tjá sig um þetta.

„Það er erfitt að tala um þetta en þetta var bara ógeðslegt.“ Aðspurður um framkomu fanga og fangavarða segir hann að fangaverðirnir hafi verið fínir en fangarnir misjafnir. „Þetta var í bland gott og slæmt og maður þurfti að passa sig. Sem betur fer gerðist það eftir sirka miðtímann hjá mér þarna að ég kynnsti Rússunum og þeir tók mig undir sinn verndarvæng,“ segir Örvar og lýsir ótrúlegri og skilyrðislausri manngæsku rússneskra afbrotamanna í sinn garð sem hann kynntist í fangelsinu.

„Ég var ekki með neinn pening í fangelsinu en þeir hjálpuðu mér með aukamat, kaffi og hreint vatn. Þetta bjargaði minni andlegu heilsu þarna og án þeirra hefði ég örugglega fengið taugaáfall þarna inni. Þeir ætluðust ekki til neins af mér, nema bara að ég væri ég, og hjálpuðu mér með allt saman.“ – Rödd Övars brestur aftur þegar hann lýsir góðmennsku Rússanna. Hann grætur dálitla stund og biður afsökunar. „Þú verður að afsaka, ég hef verið svo mikil tilfinningavera upp á síðkastið,“ segir hann, og það er skiljanlegt, mikið hefur gengið á.

Hræðilegur aðbúnaður

Hann lýsir síðan aðbúnaðinum í fangelsinu.

„Það eru kakkalakkar inni í klefunum, engar dýnur eða neitt, þú sefur bara á ísköldu og hörðu gólfinu og svo fyllir stæk hlandlykt vitin. Ég svaf aldrei alvörusvefni þarna, maður vaknar fimm, sex sinnum á nóttunni á hörðu gólfinu. Síðan eru rosalega háværar viftur í gangi á nóttunni og þeir spila tónlist á morgnana. Virklega slæmur aðbúnaður þarna, í rauninni enginn aðbúnaður. Maður fékk kannski eitt teppi og þurfti að nota kókflösku fyrir kodda. Vatnið ekki hreint og ég var allur í útbrotum, rauðir flekkir um allan líkamann af því að drekka óhreint vatnið, allt þar til Rússarnir björguðu mér og keyptu hreint vatn handa mér. Ég á þeim lífið að launa…“ segir Örvar og enn brestur rödd hans.

Örvar segir að borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hafi reynst sér nokkuð hjálpleg, en þó fyrst og fremst varðandi ráðgjöf. „Þeir sendu einhverja frá ræðismannsskrifstofunni og það eina sem þau gerðu var að spyrja hvernig ég hefði það. En ég hef verið í sambandi við borgaraþjónustuna og þau hafa verið dugleg að hjálpa mér varðandi leiðbeiningar, en þau aðstoða ekki fjárhagslega.“

Hefur stuttan tíma til að forða sér

Þegar Örvar var látinn laus úr fangelsinu var honum gert skylt að fara úr landinu innan 30 daga. Sá frestur rennur út 1. nóvember. „Ég fæ mína greiðslu um mánaðamótin sem ég vona að dugi fyrir því sem ég þarf að gera en peningarnir fyrir þennan mánuð kláruðust miklu fyrr en þeir áttu að gera. Ég þarf að fara til Tokýó, það er það sendiráð innan Asíu sem er næst mér varðandi það að nálgast nýtt vegabréf. Eftir það mun ég taka stefnuna til Kambódíu til bandarísks pars sem ég þekki frá Hawai, en þau eru nýflutt til Kambódíu.“ Þess skal getið að Örvar er núna með bráðabirgðavegabréf sem borgaraþjónusta utanvíkisráðuneytisins útvegaði honum.

Aðspurður hvort þetta gangi upp varðandi tíma og peninga, segir Örvar: „Þetta verður bara að ganga upp.“

Hann segir ekki inni í myndinni hjá sér að koma til Íslands því hann segist ekki geta séð fyrir sér á Íslandi á þeim tekjum sem hann hefur. „Heimalandið togar alltaf í mig en íslenskt samfélag er fjárhagslega orðið of fjandsamlegt til að ég geti lifað þar,“ segir hann og vísar meðal annars í húsnæðiskostnað.

Uppfært föstudaginn 25.10 kl. 18:40 – Örvar afþakkar frekari stuðning: 

Í fyrri útgáfu þessarar fréttar voru birtar reikningsupplýsingar Örvars og lesendum boðið að styrkja hann. Svo góð voru viðbrögðin að Örvar hafði samband við DV og sagðist hafa fengið nægan stuðning. Óskaði hann eftir því að reikningsupplýsingarnar yrðu fjarlægðar úr greininni og biður hann þá sem vilja láta gott af sér leiða að beina stuðningi sínum annað. Jafnframt þakkar hann lesendum DV kærlega fyrir hugulsemina og stuðninginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Valgeir telur sig hlunnfarinn og veltir fyrir sér hvort hann sé heiðraður eða lítilsvirtur

Valgeir telur sig hlunnfarinn og veltir fyrir sér hvort hann sé heiðraður eða lítilsvirtur
Fréttir
Í gær

Naumlega tókst að forðast mikinn árekstur í Vestmannaeyjahöfn – Skipstjóri Herjólfs fór ekki að beiðni hafnsögumanns

Naumlega tókst að forðast mikinn árekstur í Vestmannaeyjahöfn – Skipstjóri Herjólfs fór ekki að beiðni hafnsögumanns
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öll spjót standa á Einari vegna framtíðar Grafarvogs – „Velur borgarstjóri að segja íbúum stríð á hendur“

Öll spjót standa á Einari vegna framtíðar Grafarvogs – „Velur borgarstjóri að segja íbúum stríð á hendur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur orðlaus yfir uppgjörstölum bankanna – Ekkert eðlilegt við að íslenskur almenningur sé í þessari stöðu

Vilhjálmur orðlaus yfir uppgjörstölum bankanna – Ekkert eðlilegt við að íslenskur almenningur sé í þessari stöðu