fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Öll spjót standa á Einari vegna framtíðar Grafarvogs – „Velur borgarstjóri að segja íbúum stríð á hendur“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 24. október 2024 13:00

Einar Þorsteinsson borgarstjóri Mynd: Framsóknarflokkurinn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur gagnrýnir harðlega framgöngu Einars Þorsteinssonar borgarstjóra í umræðu um þéttingu byggðar í Grafarvogi. Kemur gagnrýni Hildar í kjölfar harðorðs bréfs sem íbúar í hverfinu sendu frá sér þar sem þeir sökuðu Einar meðal annars um algjört virðingarleysi í sinn garð vegna mótmæla þeirra gegn áformunum. Hildur segir þetta vera nýjasta dæmið um að Einar eigi bágt með að þola andmæli við embættisverk hans.

Í gærkvöldi sendi hópur íbúa við Sóleyjartún í Grafarvogi, þar sem er fyrirhuguð bygging fjölbýlishúsa, frá sér bréf þar sem þeir lýstu mikilli óánægju sinni með orð Einars í þættinum Bítið á Bylgjunni. Segja íbúarnir Einar hafa gert lítið úr mótmælum íbúa Grafarvogs vegna byggingaráformanna :

„Þar gerði hann svo vægt sé til orða tekið, lítið úr mótmælum og upplifun íbúa Grafarvogs. Meðal annars vísaði hann til Elísabetar Gísladóttur formanns íbúasamtaka Grafarvogs sem „einhverrar reiðrar konu“ og sagði umræðuna aðallega koma frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Þessi ummæli eru hvorki borgarstjóra Reykjavíkur né borgarmeirihlutanum til framdráttar.“

Víst mótmæli

Íbúarnir segja það rangt hjá Einari að það sé fámennur en hávær hópur sem hafi mótmælt áformunum:

„Staðreyndin er sú að íbúar Grafarvogs hafa í miklum mæli mótmælt þessum áformum og rökstutt sín mótmæli með málefnalegum rökum byggðum á staðreyndum. Við sjáum okkur því knúin til að svara og ítreka mótmæli og rök íbúa gegn þessum áformum.“

Íbúarnir segja að þegar bréfið var ritað í gær hafi borist 526 athugasemdir við þéttingaráformin í Skipulagsgátt og 2.045 undirskriftir á mótmælalista. Íbúarnir segja það alrangt hjá borgarstjóranum að mikið samráð hafi verið haft við íbúa í Grafarvogi um þessi áform:

„Hægt er að setja út á nánast allt sem fram kom í máli borgarstjóra í morgun en sér í lagi fullyrðingar hans um að samráð við íbúa hafi verið með stórkostlegu móti. Það er alls ekki upplifun okkar íbúa Grafarvogs. Þvert á móti hafa fæstir fengið nokkra kynningu eða boð um samtal. Kynning á bókasafninu var illa auglýst, stóð stutt yfir og ekkert samtal var þar, þvert á fullyrðingar borgarstjóra sem sást í mýflugumynd á fyrsta fundinum. Borgarstjóri nefnir því næst fund íbúaráðs í beinni útsendingu, fund sem hann segir hafa verið auglýstan en enginn utan íbúaráðs hafi sótt. Dræm aðsókn kemur okkur íbúum ekki á óvart því ekkert okkar sá auglýsingar um hann þó þetta mál hafi átt hug okkar allan undanfarnar vikur og mánuði. Borgarstjóri gleymir líka að taka fram að helmingur umsagnarfrests, vegna tillagna sem kynntar voru þann 26. september, var liðinn áður en tillögurnar sjálfar voru kynntar.“

Íbúarnir segja borgarstjórann gera lítið úr þeim:

„Íbúar í hverfum Grafarvogs hafa þurft að eyða ómældum tíma í að ganga í hús og láta vita af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru. Eftir alla þá vinnu sem við höfum þurft að leggja á okkur í þessu máli er algjörlega óforsvaranlegt að borgarstjóri skuli gera lítið úr okkur með því að segja að þetta sé allt frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins komið.“

Ofurþétting

Íbúarnir setja í bréfi sínu fram lista með 10 atriðum sem þeir gera einkum athugasemd við þegar kemur að þessum umdeildu þéttingaráformum.

Efst á listanum er það sem þeir kalla ofurþéttingu byggðar á grænu svæði en þeir telja þéttingu byggðar á Sóleyjartúni of mikla. Því næst nefna þeir að þéttleiki fyrirhugaðrar byggðar sé ekki í nokkru samræmi við þá byggð sem fyrir sé. Byggja eigi fjölbýlishús með alls 80 íbúðum og bílastæðahús á Sóleyjartúni sem sé aðeins 1,5 hektarar að stærð. Fyrir séu eingöngu einlyft einbýlishús og raðhús. Íbúarnir nefna einnig meðal annars aukið álag á innviði, aukna umferð og mengun auk skerts öryggis barna í hverfinu vegna hinnar auknu umferðar.

Hildur Björnsdóttir tekur baráttu íbúanna upp á sína arma í Facebook-færslu fyrr í dag. Hún segir viðbrögð Einars enn eitt dæmið um að hann þoli illa gagnrýni á sín störf:

„Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með framgöngu borgarstjóra, Einars Þorsteinssonar, að undanförnu. Hann virðist hvort í senn, hofmóðugur og móðgaður, þegar borgarbúar leyfa sér að hafa minnstu skoðun á embættisverkum hans. Nýjasta dæmið eru þéttingaráform borgarstjórans í Grafarvogi. Þar telur hann skynsamlegt að ganga á græn svæði í þágu húsnæðisuppbyggingar – en rekur svo í rogastans yfir þeim augljósa veruleika að íbúar hafi skoðun á nærumhverfi sínu.“

Hildur segir það geta verið skynsamlegt að ráðast í frekari uppbyggingu á húsnæði í úthverfum borgarinnar en hún þurfi að vera skynsamleg og meta þurfi svigrúm innviða. Þéttingaráformin í Grafarvogi séu hins vegar ekki dæmi um slíkt:

„Hugmyndir borgarstjóra í Grafarvogi virðast hins vegar illa ígrundaðar og óvandaðar. Svo mjög að maður veltir því hreinlega fyrir sér hvort hann hafi nokkru sinni heimsótt hverfið? Hugmyndir borgarstjóra ganga á græn svæði, þær auka álag á veika innviði, hafa umferðaraukandi áhrif og eru í óþökk nærumhverfis.“

Einar gegn Grafarvogi

Hildur sakar Einar beinlínis um að segja íbúum Grafarvogs stríð á hendur og leggur til að hann taki sér smá frí:

„Í stað þess að sýna íbúum Grafarvogs þá lágmarksvirðingu að hlýða á athugasemdir þeirra og aðlaga uppbyggingaráformin að staðaranda og stöðu hverfisins, velur borgarstjóri að segja íbúum stríð á hendur. Hann sakar þau um falsfréttir og virðir málefnalegar ábendingar þeirra að vettugi. Aðra eins framgöngu borgarstjóra gagnvart íbúum hef ég ekki upplifað. Væri ekki ráð fyrir borgarstjórann að taka sér nokkra orlofsdaga og íhuga hin sígildu sannindi – að dramb er falli næst?“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“