Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók einn eftir meiriháttar líkamsárás í Breiðholti í gærkvöldi eða nótt. Frá þessu er greint í dagbók lögreglu um helstu verkefni frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í morgun.
Ekki koma frekari upplýsingar um árásina fram í skeyti lögreglu en sá sem var handtekinn gistir fangaklefa lögreglu. Í miðborg Reykjavíkur var svo tilkynnt um minniháttar líkamsárás og skemmdarverk. Einn maður var handtekinn vegna málsins og vistaður í fangageymslu.
Í hverfi 107 var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr verslun en gerandinn í því máli er ókunnur.
Í Hafnarfirði var svo tilkynnt um umferðarslys og voru tveir fluttir á bráðamóttöku. Ekki er vitað um meiðsli.