fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
Fréttir

Jón Gnarr skýtur hugmynd Áslaugar Örnu í kaf og leggur til aðra hugmynd

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 24. október 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gnarr, frambjóðandi Viðreisnar í komandi þingkosningum, er allt annað en hrifinn af hugmynd sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, varpaði fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær.

Í grein sinni kvaðst hún sannfærð um að svokallaður móttökuskóli fyrir börn af erlendum uppruna geti skipt sköpum og haft jákvæð áhrif fyrir allt skólastarf hér á landi.

„Skól­inn væri fyrsta skref fyr­ir börn af er­lend­um upp­runa sem eru að fóta sig í ís­lensku sam­fé­lagi og lögð væri áhersla á sam­ræmda tungu­mála­kennslu og hæfnismat. Sér­hæft úrræði þannig að þau séu bet­ur und­ir­bú­in þegar þau síðan fara inn í al­menna grunn­skóla,“ sagði Áslaug Arna meðal annars.

Jón skrifaði pistil um málið á Facebook-síðu sína í gærkvöldi þar sem hann skaut hugmynd Áslaugar í kaf.

Áslaug Arna sannfærð um að þessi breyting geti skipt sköpum – „Sögurnar eru ótrúlegar“

„Arfaslæm hugmynd“

„Ekki tiltekur hún í greininni hvað hún vill reisa marga svona skóla, einn í hverjum landsfjórðungi eða eina volduga byggingu sem gæti þjónað öllu landinu. Hvort sem er þá finnst mér þetta arfaslæm hugmynd,“ segir Jón sem spyr jafnframt hvort einangra eigi börn af erlendum uppruna enn meira en gert er nú þegar.

„Mér finnst líka alveg sérlega skringilegt að koma fram með svona pælingar um sértæk úrræði fyrir börn, þegar algjört stjórnleysi í málefnum utangarðsbarna á Íslandi blasir við öllum og ég er ekki einu sinni að ýkja neitt þegar ég segi að það er allri þjóðinni ljóst að það ríkir algjört neyðarástand í þeim málaflokki. Fjölda úrræða hefur verið lokað og þrengt hefur verið að neyðarþjónustu sem líður fyrir húsnæðisskort og manneklu og sem hefur komið harðast niður á þeim sem síst skyldi; börnum í alvarlegum vanda,“ segir hann.

Hann segir þetta líka einkennilegt útspil í ljósi þess að í vor var undirritað samkomulag um verkefnið Menntun móttaka menning (MEMM) á vegum barnamálaráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og Reykjavíkurborgar.

„MEMM miðar að því að koma á samræmdu verklagi um móttöku og menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningar bakgrunn á landsvísu í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og frístundastarfi. Jafnframt er því ætlað að þróa og tryggja öfluga ráðgjöf, námsgögn og verkfæri, sem og stuðning til lausnar flóknari aðstæðum og var sagt “liður í heildarsýn ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu.”“

Búi til fleiri vandamál en hún leysir

Jón er þeirrar skoðunar að þessi nýja hugmynd Áslaugar Örnu byggist á hugmyndafræði einhvers konar aðskilnaðarstefnu.

„Kann að virka sem sniðug lausn en býr samt á endanum til fleiri vandamál en hún leysir. Við eigum ekki að fjölga óþarfa opinberum stofnunum og halda áfram að þenja þannig út kerfi, með tilheyrandi kostnaði, sem er ekki að virka fyrir fólk og stendur því einungis fyrir þrifum. Við ættum frekar að reyna að nýta betur þau úrræði sem eru fyrir hendi með því að auka úrræði og stuðning við skólana og kennara,“ segir Jón sem leggur til að frekar verði settar verði á fót nýnemadeildir innan ákveðinna skóla í samræmi við MEMM-verkefnið.

„Þar fengju nemendur stuðning til að samlagast venjulegu íslensku umhverfi og menningu með aðaláherslu á íslenskukennslu. Þannig mætti nýta þá sérfræði þekkingu og aðstöðu sem er þegar til staðar innan skólaveggjanna. Barnið tæki þátt í íþróttastarfi og félagslífi í sínum skóla. Barnið er hluti af skólastarfinu og þarf ekki að dúsa í einangruðum móttökuskóla þar sem er mjög ólíklegt að það sé í samskiptum við íslensk börn. Í stað einangrunar leggjum við áherslu á samlögun og þegar barnið er tilbúið færist það sjálfkrafa yfir í venjulegan bekk.“

Jón segir að lokum að þetta sé ekki bara heilbrigðari og manneskjuvænlegri aðferðafræði heldur líka örugglega miklu ódýrari og árangursríkari til lengri tíma.

„Í stað þess að setja á laggirnar dýrar stofnanir með tilheyrandi byggingarkostnaði þá nýtum við bara betur þau úrræði sem við eigum fyrir. Er það ekki lang skynsamlegast?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Myndband: Þjófur og búðarstarfsmaður í átökum – „Þetta þarf að stoppa harkalega, ekkert annað sem þýðir“

Myndband: Þjófur og búðarstarfsmaður í átökum – „Þetta þarf að stoppa harkalega, ekkert annað sem þýðir“
Fréttir
Í gær

Guðbrandur: „Í fram­hald­inu var kon­an svo niður­lægð með ýms­um fá­rán­leg­um spurn­ing­um“

Guðbrandur: „Í fram­hald­inu var kon­an svo niður­lægð með ýms­um fá­rán­leg­um spurn­ing­um“