fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Fréttir

Guðmundur húðskammar þingmenn: „Skammist ykkar!“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 23. október 2024 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur St. Eiríksson, fyrrverandi blaðamaður, núverandi öryrki og eldri borgari, er ómyrkur í máli í opnu bréfi sem hann skrifar til þingmanna og birtist á vef Vísis í morgun. Yfirskrift greinarinnar er þessi: „Skammist ykkar! – opið bréf til þing­manna“

„Nú á að kjósa til Alþingis enn einn ganginn. Fullt af góðu fólki reynir að komast að kjötkötlunum. Sumt er lafmótt eftir hjaðningarvíg innan eigin flokka og svo merkilegt sem það er, eiga 90% af þessum „góðmennum” það sameiginlegt að vilja helst skara eld að eigin köku. Það býður sig fram fyrir þjóðina en flokkarnir eru fljótir að breyta því í óvita og græðgispúka,“ segir Guðmundur í grein sinni.

Hann tekur fram að vísu séu ekki allir undir sömu sökina seldir.

„Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir hafa fengið sitt tækifæri og það m.a.s. samfleytt í sjö ár. Þeir skila efnahagsmálunum í rúst, eru ráðalaus í húsnæðismálum, heilbrigðiskerfið felst í því að starfsfólkið á að hlaupa hraðar, menntakerfið er ekki á vetur setjandi og innviðir eru í molum. Svo leyfa ráðamenn sér að berja sér á brjóst og segja að þjóðinni hafi aldrei að meðaltali liðið betur. Gott ef þeir trúa þessu ekki sjálfir. Nei, þeir sem kjósa þessa flokka eru upp til hópa masókistar sem annað hvort eru hreinlega glópar eða elska að kyssa vöndinn.“

Leið eins og rokkstjörnu

Guðmundur segist fyrst og fremst hafa skrifað greinina til að vekja athygli á stöðu eldri borgara og öryrkja – hópanna sem hann segir að séu alltaf skertir og haldið í fátæktargildru til þess að öðrum líði betur, að meðaltali.

„Það er eins og að landið farist ef ,,bognu bökin” borga ekki brúsann og innflutt, erlent vinnuafl heldur ekki hjólum atvinnulífsins gangandi. Vinnur láglaunastörfin. Auðvitað eiga hægri öfgamenn ekki við þetta fólk þegar þeir agnúast út í útlendinga. Þeir eiga bara við hælisleitendur og miðað við bullið í þessu rökþrota fólki mætti halda að hælisleitendur skiptu þúsundum hér á landi. Þessu vesalings fólki verður ekki svefnsamt nema að hægt sé að vísa langveiku barni út fyrir múrinn sem það hefur reist í huga sér.“

Guðmundur tjáir sig svo um eigin reynslu og bendir á að honum hafi orðið á fyrir skemmstu að samþykkja eingreiðslu frá lífeyrissjóði sem borgaði honum 3.500 krónur á mánuði.

„Mikið held ég að sjóðsstjórnin hafi verið fegin að losna við mig. Sjóðurinn greiddi mér um 850 þúsund krónur. Ríkið þurfti auðvitað á fá sína skatta og ég var bara ánægður með mín 470 þúsund sem ég hélt eftir. Nei, viti menn, Tryggingastofnun ríkisins komst að því að mátulegt væri á mig að skerða ellilífeyrinn um 330 þúsund krónur á árinu 2024 vegna þessarar eingreiðslu. Niðurstaðan var sú að ég greiddi 84% skatt til ríkisins og leið eins og rokkstjörnu sem var í þann veginn að flýja land vegna okurskatta.“

„Viðbjóðslegt þjóðfélag“

Guðmundur segir að málið sé einfalt og segir að á meðan ráðamenn virðist telja að ellilífeyrir sé eitthvað sem dettur af himnum ofan þá sé vá fyrir dyrum.

„Alþingismenn hafa búið þannig um hnútana að Ísland er viðbjóðslegt þjóðfélag. Násugurnar hafa ekki aðeins gert skjólstæðingum Tryggingastofnunar ómögulegt að spara fyrir aðra en ríkið, heldur vilja þeir gefa firðina og vindaflið til erlendra gróðapunga,“ segir hann og heldur áfram:

„Flóttamaður frá Vestmannaeyjum berst fyrir því, sem bæjarstjóri í Þorlákshöfn, að fjalli sé mokað til Þýskalands og gott ef sama manni finnst ekki í góðu lagi að útlendingar fái að bora eftir einhverjum verðmætum á Selvogsbanka – einhverri mestu hrygningarslóð þorsks í heiminum og fleiri nytjategunda. Þá á að breyta Völlunum í Hafnarfirði í niðurdælingarstöð fyrir innflutt CO2 til að einhverjir græðiskarlar í útlöndum geti mengað meira. Nú síðast heyrði ég að hirðmaður Noregskonungs væri kominn í oddvitasæti hjá Íhaldinu í Norð-Austurkjördæmi. Óhamingju Íslands virðist flest verða að vopni þessa dagana.“

Guðmundur tekur þó fjóra þingmenn út fyrir sviga, þau Ingu Sæland og Guðmund Inga Kristinsson hjá Flokki fólksins, Björn Leví Gunnarsson hjá Pírötum og Jóhann Pál Jóhannsson hjá Samfylkingu. Þau séu þau einu sem sýnt hafi málefnum öryrkja og eldri borgara skilning.

„Hinir ættu að skammast sín. Vonandi tekur nýtt fólk skynsamlegar ákvarðanir og lætur ekki flokkana telja sér trú um að hvítt sé svart. Jafnvel í útlendingamálunum sem hægri öfgamenn vilja að kosningabaráttan snúist um. Það kallast á íslensku að drepa málum á dreif.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“
Fréttir
Í gær

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar