Þetta kemur fram í grein sem Áslaug skrifar í Morgunblaðið í dag.
„Hefur þú staðið fyrir framan 25 unglinga í þeim tilgangi að kenna þeim stærðfræði? Verið í grunnskóla í Reykjavík og þegar þau horfðu á þig með stór spurningarmerki í augunum áttaðir þú þig á því að fæst þessara barna töluðu íslensku? Eftir dálítið grúsk komst þú að því að þrjú þeirra voru nýkomin úr flóttamannabúðum með litla skólagöngu að baki og að alls voru töluð sex tungumál í þessum litla bekk,“ segir Áslaug Arna.
Hún bendir á að veruleiki grunnskólabarna og grunnskólakennara sé alls konar. „Sögurnar eru ótrúlegar en það litla sem við raunverulega vitum um stöðu þessa mikilvæga skólastigs er að þar hefur hallað verulega undan fæti síðastliðin ár,“ segir Áslaug og nefnir að tæp 30% nemenda í íslenskum grunnskólum hafi erlendan bakgrunn og ljóst að slík fjölgun í óbreyttu kerfi hafi áhrif á gæði náms og árangur nemenda.
„Kennarar hafa reynt að mæta þessum áskorunum með fjölbreyttum leiðum en benda á að álagið sem þessu fylgir haldi aftur af hefðbundnu skólastarfi og vilja aðrar lausnir,“ segir hún.
Áslaug bendir í grein sinni á slakan árangur íslenskra nemenda í PISA og þá staðreynd að árangurinn þar er undir meðallagi OECD og Norðurlandanna í öllum þáttum. Þá útskrifist helmingur drengja úr grunnskólum án þess að hafa náð grunnfærni í læsi.
„Vandinn er margþættur og erfitt er að benda á eina töfralausn en þrátt fyrir það er ég sannfærð um að ein ákvörðun – ein stór breyting – gæti skipt sköpum og haft mikil og jákvæð áhrif fyrir allt skólastarf. Hún er sú að við Íslendingar setjum upp almennilega og vel skipulagða móttökuskóla fyrir börn af erlendum uppruna,“ segir hún.
Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni og segir hún að slíkan skóla megi til dæmis finna í Noregi.
„Skólinn væri fyrsta skref fyrir börn af erlendum uppruna sem eru að fóta sig í íslensku samfélagi og lögð væri áhersla á samræmda tungumálakennslu og hæfnismat. Sérhæft úrræði þannig að þau séu betur undirbúin þegar þau síðan fara inn í almenna grunnskóla. Slíkar tillögur hafa verið lagðar fram af Bryndísi Haraldsdóttur og fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins,“ segir Áslaug og bætir við að með því að taka slíka ákvörðun mætum við betur nemendum sem eru á fóta sig í nýju skólaumhverfi og þurfa aukna aðstoð og tungumálakennslu.
„Í óbreyttu kerfi tapa allir – ekki aðeins börn og ungmenni af erlendum uppruna heldur líka aðrir nemendur, kennarar og starfsfólk sem reynir að mæta þörfum hvers og eins nemanda án nægilegs stuðnings. Árangur skiptir samfélagið öllu máli. Kerfið þarf að virka fyrir alla – og sérstaklega fyrir þann hóp barna sem á undir högg að sækja í íslensku menntakerfi. Menntakerfið okkar á að tryggja jöfn tækifæri. Óbreytt staða tryggir ekki þau tækifæri fyrir alla.“