fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Össur les yfir Ingu Sæland eftir brotthvarf Jakobs og Tómasar – Með ólíkindum að svona gerist á Íslandi á þriðja áratugi 21. aldarinnar

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. október 2024 13:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og ritstjóri, segir að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafi gert sig seka um valdníðslu.

Össur skrifar færslu á Facebook um brotthvarf Jakobs Frímanns Magnússonar og Tómasar Tómassonar af framboðslistum flokksins, en þessir tveir þingmenn verða ekki í framboði í kosningunum sem fram undan eru í nóvember.

Það hefur komið ýmsum á óvart að Jakob Frímann hafi ekki fengið oddvitasætið í Norðausturkjördæmi, en þar er fylgi Flokks fólksins mest.

Í færslu sinni segir Össur:

„Inga Sæland talar sig móða um skort á lýðræði – nú síðast þegar starfsstjórn var í myndun – en á sama tíma tekur hún sér alræðisvald innan Flokks fólksins, þverbrýtur reglur hans og lög og rekur þingmenn úr framboði af því þeir dansa ekki algerlega eftir hennar höfði.“

„Opinber brottrekstur Jakobs Frímanns (og Tomma í Búllunni) úr framboði er ekki aðeins ólýðræðislegur gjörningur hjá leiðtoga sem alltaf er með túlann fullan af lýðræðishjali heldur hreinasta valdníðsla af hennar hálfu. Það sést gjörla þegar rennt er yfir einföld og skýr lög Flokks fólksins á heimasíðu hans.“

Össur vísar svo í þessi lög og segir að þar komi fram, svart á hvítu, að það sé uppstillingarnefnd, skipuð af kjördæmaráði, sem geri tillögu að framboðslista. Í kjölfarið fjalli kjördæmisráð og stjórn um tillöguna á formlegum fundum.

„Formaðurinn hefur ekki einu sinni frumkvæðisrétt að tilnefningum – hvað þá til að gefa út tilskipanir um að tilteknir flokksmenn megi ekki vera í efstu sætum listanna. Gjörningurinn felur því ekki aðeins í sér fyrirlitningu á þeim lýðræðislegu vinnubrögðum sem hún krefst dag hvern úr ræðustól Alþingis, heldur líka óvanalega gróft brot á lögum flokksins,“ segir Össur.

Hann segir að það „sé með ólíkindum að svona lagað gerist á Íslandi á þriðja áratugi 21. aldarinnar.“

„Kannski á Ítalíu fyrir hundrað árum – en ekki hér og nú. Fjölmiðlar, sem eru helsta aðhaldstæki gegn valdspilltum leiðtogum, hljóta að skýra hvernig þetta samræmist lögum flokksins og hvort verjanlegt sé að flokkur undir slíkri stjórn fái tugmilljónir frá skattborgurum ár hvert í rekstrarstyrki.“

Össur fer hlýjum orðum um Jakob Frímann og segir hann hafa gert margt vel.

„Jakob Frímann er ástsæll listamaður sem á vild alls staðar enda merkilegt eintak. Enginn hefur náð meiri árangri fyrir kjarabaráttu listamanna en hann. Á sínum tíma var hann hvalreki fyrir Flokk fólksins og náði óvæntum og næsta ótrúlegum árangri með afar óhefðbundinni kosningabaráttu. Í dag er mesta fylgi Flokks fólksins einmitt í hans kjördæmi. Gæti verið að það sé þyrnir í auga drottningarinnar að hann hefur meira fylgi en hún í sínu kjördæmi?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum
Egill Þór er látinn
Fréttir
Í gær

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir