fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Harðar deilur milli leigjanda og leigusala um kjúklingarækt

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 22. október 2024 12:00

Ágreiningur milli leigusala og leigjanda fór fyrir kærunefnd húsamála. Meðal annars sagði leigusalinn að leigjandinn hefði staðið fyrir óleyfilegri kjúklingarækt en leigjandinn sagði um að ræða kornhænur sem væru gæludýrin hans. Kornhænan á myndinni tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð í deilumáli milli leigusala og fyrrum leigjanda að íbúð hans. Vildi leigusalinn meina að nauðsynlegt hefði verið að fara í víðtækar viðgerðir á húsnæðinu og lóð þess eftir að leigjandinn flutti út. Sagði leigusalinn kjúklingarækt sem leigjandinn hefði staðið í án leyfis frá honum hafi átt sinn þátt í því. Leigusalinn hélt af þessum sökum tryggingafénu eftir. Leigjandinn mótmælti því og sagði leigusalann aldrei hafa sannað neitt tjón af hans hálfu og þar að auki hafi hann leyft gæludýrahald sem kjúklingaræktin hafi í raun verið. Vildi leigjandinn fá tryggingaféð endurgreitt. Úr varð að nefndin úrskurðaði leigjandanum í vil.

Leigjandinn leigði íbúðina allt árið 2023. Leigusalinn fullyrti í sínum svörum til nefndarinnar að þegar hann leigði leigjandanum íbúð sína hafi hún verið nýuppgerð og óslitin. Á því ári sem leigjandinn leigði hana hafi ýmsar skemmdir orðið. Þrifum hafi auk þess verið ábótavant þegar leigjandinn yfirgaf íbúðina og þörf hafi verið á málun og blettun. Loks sagði leigusalinn að nauðsynlegt hefði verið að þökulegggja á sameiginlegri lóð hússins þar sem leigjandinn hafi staðið fyrir kjúklingarækt í búri á lóðinni án leyfis.

Vegna alls þessa gerði leigusalinn kröfu í trygginguna, alls 445.691 krónur, en leigjandinn hafnaði kröfunni og því kom málið til kasta nefndarinnar.

Engar sannanir

Sagði leigjandinn að leigusalinn hefði ekki lagt fram neinar sannanir fyrir hinu meinta fjárhagslega tjóni. Engir reikningar eða önnur gögn frá verktökum hafi verið lögð fram vegna hinna meintu viðgerða. Eini reikningurinn sem lagður hafi verið fram sé fyrir launum til handa leigusalanum sjálfum. Kröfur hans hafi þar með verið ólögmætar.

Fullyrti leigjandinn að leigusalinn hefði gefið leyfi fyrir kjúklingaræktuninni en bætti við að leyfilegt hafi verið að vera með gæludýr í húsinu. Ljósmyndir sem sýna hafi átt meint tjón á grasinu á lóð hússins, vegna kjúklingaræktunarinnar, hafi verið teknar í upphafi þessa árs og grasið muni lagast með batnandi veðurfari.

Leigjandinn sagði einnig að hinar meintu skemmdir á íbúðinni væru allar af völdum eðlilegs slits.

Hvað eru gæludýr?

Í andsvörum sínum sagði leigusalinn að hann hefði vissulega gefið leyfi fyrir því að leigjandinn héldi gæludýr en alifuglar geti ekki talist gæludýr enda séu þeir ekki búfénaður samkvæmt lögum um búfjárhald. Grasið undir búrinu sem leigjandinn hafi geymt kjúklingana í sé dautt. Húsfélagið muni gera kröfu á hann vegna þessa tjóns sem leigjandinn beri ábyrgð á. Það sé líka eðlilegt að hann reikni sér laun vegna þrifa á íbúðinni eftir leigjandann þar sem leigjendur eigi ekki rétt á ókeypis þrifaþjónustu af hálfu leigusla við skil á íbúð, enda eigi leigjendur samkvæmt húsaleigulögum að skila húsnæðinu í sama ástandi og þeir hafi tekið við því.

Leigusalinn vildi einnig meina að skemmdirnar á íbúðinni geti ekki talist vera eðlilegt slit.

Í athugasemdum við andsvör leigusalans ítrekaði leigjandinn að aldrei hefðu verið færðar sönnur á hið meinta fjárhagslega tjón vegna viðgerða á íbúðinni og lóðinni.

Leigjandinn sagði einnig að kjúklingaræktin hefði víst fallið undir gæludýrahald. Um hafi verið að ræða kornhænur sem ekki hafi verið ætlaðar til manneldis heldur sem gæludýr og því hafi þær ekki fallið undir lagaákvæði um alifugla eins og leigusalinn hafi fullyrt. Kornhænurnar hafi verið á lóðinni í rúmt ár og leigusalinn ekki gert neina athugasemd við það. Hafi orðið tjón orðið á lóðinni yrði krafa vegna þess að koma frá húsfélaginu sjálfu. Leigjandinn viðurkenndi hins vegar að annmarkar hefðu verið á þrifum þegar hann flutti út úr íbúðinni en þeir hafi verið minniháttar og hann ekki fengið tækifæri til að bæta úr.

Engin úttekt engin trygging

Í niðurstöðu kærunefndar húsamála segir að leigusalinn hafi lagt fram myndir af íbúðinni sem teknar voru við lok leigutíma en ekki gert sameiginlega úttekt með leigjandanum á ástandi íbúðarinnar við upphaf eða lok leigutíma. Krafa hans vegna viðgerðarkostnaðar sé ekki byggð á reikningum heldur á hans eigin áætlun þar á meðal um eigin vinnu.

Nefndin segir myndirnar sýna fram á að þrifum hafi verið ábótavant við lok leigutíma. Leigjandinn hafi viðurkennt það en ekki sé hægt að fallast á að hann sé bótaskyldur þar sem aldrei hafi verið gerð sameiginleg úttekt við lok leigutímans og honum ekki gefinn kostur á að bæta úr. Leigusalinn hafi ekki sýnt fram á tjón sitt með gögnum. Skemmdir á íbúðinni séu minniháttar og geti hafa verið til staðar þegar leigjandinn flutti inn eða orðið vegna eðlilegs slits.

Þegar kemur að kjúklingaræktinni sem deilt var um hvort teldist vera leyfilegt gæludýrahald segir nefndin að myndir frá leigusalanum sýni að búrið undir fuglana hafi verið á þeim hluta lóðarinnar þar sem var mold en ekki gras. Þar sem sameiginleg úttekt hafi ekki verið gerð á ástandi lóðarinnar eftir að búrið var fjarlægt sé ómögulegt að meta hvort viðskilnaður leigjandans við lóðina sé bótaskyldur. Nefndin tók hins vegar ekki afstöðu til hvort um gæludýrahald hefði verið að ræða.

Nefndin féllst því á kröfu leigjandans um að leigusalanum bæri að endurgreiða trygginguna, auk vaxta og dráttarvaxta.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“