fbpx
Föstudagur 25.október 2024
Fréttir

Hannes Hólmsteinn svarar Hjálmtý fullum hálsi – „Við þetta verður ekki unað til lengdar“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. október 2024 09:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við þetta verður ekki unað til lengdar,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson í aðsendri grein á Vísi þar sem hann fjallar um óboðlega framkomu aktívista sem styðja Palestínu. Hannes telur að aktívistarnir séu að ræna landsmenn mál- og fundafrelsi.

Hannes efndi til fundar í Þjóðminjasafninu þann 14. október og fékk ungan bresk-ísraelskan hagfræðing að nafni Ely Lassman til að fara með erindi um Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin. Hannes rekur að þessi ungi hagfræðingur er fæddur í Bretlandi en fluttist ungur með foreldrum sínum til Ísrael þar sem hann gegndi herþjónustu.

„Því miður og gegn vilja mínum urðum við að hafa fundinn lokaðan, því að fullvíst var, hefðum við auglýst hann, að hinir háværu og herskáu stuðningsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas og Hesbollah á Íslandi hefðu þá reynt að ryðjast inn og hleypa fundinum upp. Morgunblaðið birti síðan viðtal við Lassman 17. október. Þetta varð tilefni til þess, að Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður, formaður félagsins Ísland-Palestína, skrifaði hér andmæli 19. október, sem mér er ljúft og skylt að svara.“

Alveg sama um Tíbet og Kambódíu

Hannes telur að Hjálmtýr Heiðdal hafi ekki alltaf borið sérstaka umhyggju fyrir undirokuðum þjóðum. Nefnir hann sem dæmi Tíbet og Kambódíu. Hjálmtýr Heiðdal hafi ekki séð nokkuð af því að Kínverjar hefðu hernumið Tíbet 1950 eða að kommúnistar, rauðu kmerarnir, hafi tekið völd í Kambódíu 1975. Því hafi ekki verið von á góðu þegar Hjálmtýr sneri sér að Gaza-svæðinu. Hjálmtýr hafi í grein þann 19. október rekið að árið 1947 lögðu Sameinuðu þjóðirnar til að umboðssvæði Breta, sem var kallað Palestína, yrði skipt í tvö ríki, gyðinga og araba. Hannes bendir á að gyðingar hafi samþykkt þessa tillögu en arabar hafnað henni og þess í stað gert árás á hið nýstofnaða Ísraelsríki. 856 þúsund gyðingar flúðu frá Arabaríkjum til Ísrael og 726 þúsund arabar flúðu frá Ísrael til Arabaríkja. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem fjölmennir hópar hafi flúið undan nýjum valdhöfum, þó það sé alltaf hörmulegt.

„En sá mikli munur var á, að Arabaríkin tóku ekki við flóttamönnunum frá Ísrael (þrátt fyrir allt sitt tal um bræðralag araba), heldur geymdu þá í sérstökum búðum, kynslóð fram af kynslóð. Sárin fengu ekki að gróa, heldur var þeim haldið opnum og í þau stráð salti. Fólkið í flóttamannabúðunum hafði fátt annað fyrir stafni en hata Ísrael. […] Hatursmenn Ísraelsríkis eru aðallega afkomendur flóttamanna í Arabaríkjum, sem hafa aldrei fengið að njóta sín þar, heldur þurft að hírast í búðum. Það er sorglegt. En það breytir engu um, að Ísrael er eina lýðræðisríkið í Miðausturlöndum.“

Öfgavinstrimaður sem hatar vestræna menningu

Hannes kallar Hjálmtýr öfgavinstrimann og segir að eins og aðrir slíkir hati hann vestræna menningu og þar með eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum. Því styður hann samtök á borð við Hamas og Hesbollah, sem Hannes kallar hryðjuverkasamtök. Eins hati öfgavinstrimenn þá sem skara fram úr, en það geri gyðingar óneitanlega enda eigi þeir 216 af 965 Nóbelsverðlaunahöfum á meðan arabar eiga aðeins tvo, svo dæmi séu tekin.

„Öfgavinstrimenn vilja jafna allt niður á við, gera alla að sömu minnipokamönnum og þeir eru sjálfir. Þeir láta sig engu skipta, að Hamas-liðar kúga konur og samkynhneigða og nota óbreytta borgara sem lifandi skildi, svo að þeir bera miklu fremur ábyrgð á mannfallinu í Gaza en Ísraelsher.“

Hjálmtýr hafi bent á að áðurnefndur fundur Hannesar í Þjóðminjasafninu hafi verið lokaður. Það sé vissulega sorgleg staðreynd en ekki annað hægt þegar öfgavinstrifólk ógni mál- og fundafrelsi. Við þetta verði ekki unað til lengdar.

„Sannleikurinn er sá, að vinstriöfgamenn, sem styðja hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah, eru á Íslandi sem annars staðar orðnir hættulegir stjórnarskrárbundnum réttindum okkar, málfrelsi og fundafrelsi. Þeir veitast að utanríkisráðherra á fundi í Háskóla Íslands, reyna að stökkva fram af svölum áhorfendapalls í Alþingishúsinu, tjalda vikum og mánuðum saman í leyfisleysi á Austurvelli, jafnframt því sem þeir hóta öllu illu þeim fyrirtækjum, sem eiga viðskipti við Ísrael. Fyrir skömmu varð að hætta við fund með Ísraelsmanni í verkfræðideild Háskóla Íslands, vegna þess að vinstriöfgamenn ætluðu að hleypa honum upp. Menningarfélag gyðinga á Íslandi hélt samkomu 7. október síðast liðinn til að minnast fórnarlamba árásarinnar á Ísrael ári áður, og varð hann að vera lokaður, svo að óspektarmenn kæmust ekki að. Hið sama var að segja um þennan fund með Ely Lassman. Við þetta verður ekki unað til lengdar. Við hljótum að reyna að endurheimta málfrelsi okkar og fundafrelsi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Jón Daði í Wrexham
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Guðmundur Ingi ómyrkur í máli: Dauðsfallið um síðustu helgi aðeins toppurinn á ísjakanum

Guðmundur Ingi ómyrkur í máli: Dauðsfallið um síðustu helgi aðeins toppurinn á ísjakanum
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Faðir piltsins sem lést á Stuðlum stígur fram: Spyr sig stöðugt hvernig þetta gat gerst

Faðir piltsins sem lést á Stuðlum stígur fram: Spyr sig stöðugt hvernig þetta gat gerst
Fréttir
Í gær

Vill að Ásmundur Einar axli ábyrgð og segi af sér – „Hræsnin og bullið“

Vill að Ásmundur Einar axli ábyrgð og segi af sér – „Hræsnin og bullið“
Fréttir
Í gær

Örvar lýsir skelfilegri vist í tælensku fangelsi – Kakkalakkar í klefunum, stæk hlandlykt og sofið á ísköldu gólfi án dýnu

Örvar lýsir skelfilegri vist í tælensku fangelsi – Kakkalakkar í klefunum, stæk hlandlykt og sofið á ísköldu gólfi án dýnu
Fréttir
Í gær

Dularfullt andlát konu á sjötugsaldri var í Austurborginni

Dularfullt andlát konu á sjötugsaldri var í Austurborginni
Fréttir
Í gær

Jón Gnarr skýtur hugmynd Áslaugar Örnu í kaf og leggur til aðra hugmynd

Jón Gnarr skýtur hugmynd Áslaugar Örnu í kaf og leggur til aðra hugmynd