fbpx
Föstudagur 25.október 2024
Fréttir

Dótturfélag ISAVIA mátti segja manni upp vegna aldurs – „Tímamótaúrskurður“ hafði ekkert að segja

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 22. október 2024 18:30

Maðurinn var alvarlega veikur þegar hann fékk uppsagnarbréfið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

ISAVIA innanlandsflugvellir, dótturfélag ISAVIA, var sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfu starfsmanns sem var sagt upp við 67 ára aldur. Krafðist hann miskabóta vegna ólögmætrar meingerðar gegn persónu og æru sinni auk vangreiddra launa.

Starfsmaðurinn krafðist rúmra 5 milljón króna með dráttarvöxtum í bætur vegna vangreiddra launa. Einnig 2 milljón króna í miskabætur sem og alls málskostnaðar.

Starfsmaðurinn starfaði áður hjá Flugmálastjórn og Flugstoðum en eftir lagabreytingar hafi ráðningarsamningur hans færst yfir til ISAVIA og loks ISAVIA innanlandsflugvalla árið 2019. Samningurinn sem hann gerði við Flugstoðir árið 2006 hélst sá sami allan tímann og var ótímabundinn, það er ekki var tiltekinn neinn tími starfsloka.

Þann 27. maí árið 2020 fékk maðurinn starfslokabréf þar sem sagt var að starfslok taki mið af ákvörðun stjórnar um hámarksaldur starfsmanna, við lok þess mánaðar er þeir ná 67 ára aldri að viðbættum uppsagnarfresti. Starfslok þessa starfsmanns áttu því að vera 31. janúar árið 2021.

Starfsmaðurinn var í veikindaleyfi þegar hann fékk bréfið afhent vegna alvarlegra veikinda. Veikindaréttur hans hefði verið að fullu tæmdur þann 31. janúar árið 2021 og ekki hafi mátt gera ráð fyrir að hann myndi snúa aftur til vinnu vegna veikinda sinna.

ASÍ töldu úrskurð marka tímamót

Í marsmánuði árið 2021 kærði Alþýðusamband Íslands ISAVIA ANS, annað dótturfélag ISAVIA, vegna uppsagnar annars starfsmanns vegna aldurs, það er manns sem heitir Þorgrímur Baldursson. Úrskurðarnefnd kærunefndar jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu þann 31. janúar árið 2022 að félagið hefði brotið á rétti starfsmannsins.

Fjallað var um það mál í fjölmiðlum og greint frá því að ISAVIA hafi horfið frá þeim áætlunum að hækka hámarksaldurs starfsmanna úr 67 í 70 ár vegna COVID faraldursins. Félagið hafi staðið frammi fyrir hópuppsögnum á þeim tíma.

Þorgrímur, sem var 67 ára í febrúar 2020, hafði óskað eftir því að starfa til sjötugs en fengið þær upplýsingar að hann mætti starfa fram að áramótum. Fékk hann ekkert uppsagnarbréf og taldi því að horfið hafi verið frá áætlununum en þegar hann mætti til vinnu eftir áramótin 2021 gat hann ekki lengur stimplað sig inn.

ASÍ taldi úrskurðinn marka tímamót og sýndi að óheimilt væri að segja fólki upp vegna aldurs. Myndi úrskurðurinn hafa veruleg og áþreifanleg áhrif á íslenskum vinnumarkaði um ókomna tíð. Svo er ekki.

Meingerð gegn persónu og æru

Starfsmaðurinn í áðurnefndum dómi vísaði í þennan úrskurð og þá meginreglu íslensks skaðabótaréttar um að samninga skuli efna og greiða bætur fyrir ólögmæta uppsögn ráðningarsamnings. Uppsögn hans hafi verið ólögmæt meingerð gegn persónu hans og æru og valdið honum kvíða, streitu og andlegum þjáningum á meðan hann var í veikindaleyfi.

Sjá einnig:

Íslenska ríkið mátti mismuna manni sökum aldurs – Var sjötugur þegar hann sótti um

Taldi hann aldur í eðli sínu ólögmætt sjónarmið við ákvarðanatöku enda segi hann ekkert til um eiginleika þess einstaklings sem eigi í hlut. Rétt eins og kynferði, kynþáttur, litarháttur, þjóðerni, trúarbrögð eða önnur atriði sem listuð eru í stjórnarskrá, Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnsýslulögum. Hann hafi hlotið fjárhagslegt tjón vegna uppsagnarinnar, misst hluta lífeyrisréttinda og verið skilinn eftir með skerta atvinnumöguleika.

Starfsmanninum ekki mismunað

ISAVIA innanlandsflugvellir hafnaði kröfunum og sögðu rangt að starfsmaðurinn hefði mátt gera ráð fyrir að vinna til sjötugs. Ekkert í ráðningarsamningi hans gæfi það til kynna heldur hefði hann mátt gera ráð fyrir að starfa samkvæmt reglum vinnuveitanda á hverjum tíma.

Taldi félagið að það hefði enga þýðingu að einhver líkindi væru með málinu sem úrskurðað var hjá kærunefnd jafnréttismála. Starfsmaðurinn hafi fengið ríflega hálfs árs fyrirvara á meðan hann var í veikindaleyfi og ekki geta vænst til þess að geta snúið aftur til starfa hjá félaginu.

Einnig að starfsmaðurinn hafi ekki verið beittur neinni mismunun við starfslok. Starfslokareglurnar gildi jafnt um alla nema í sérstökum undantekningartilfellum. Félagið hafi ekki bakað sér neina skaðabótaskyldu og miskabótakrafan sé órökstudd, tilhæfulaus og vanreifuð. Uppsögnin hafi ekki verið persónuleg og ekki stefnt gegn æru hans.

Máttu setja reglur um aldur

Dómari taldi starfsmanninn ekki hafa fært sönnur á að staðið hafi verið að starfslokum hans með ólögmætum hætti. Í samningi SA og Samiðnar sem liggi fyrir í málinu sé hvergi að finna ákvæði um hvenær starfsmenn skuli hætta vegna aldurs. Hafi félaginu því verið heimilt að setja reglur um það. Engin skaðabótaskylda væri því fyrir hendi. Þrátt fyrir það var málskostnaður látinn niður falla í málinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Jón Daði í Wrexham
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Guðmundur Ingi ómyrkur í máli: Dauðsfallið um síðustu helgi aðeins toppurinn á ísjakanum

Guðmundur Ingi ómyrkur í máli: Dauðsfallið um síðustu helgi aðeins toppurinn á ísjakanum
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Faðir piltsins sem lést á Stuðlum stígur fram: Spyr sig stöðugt hvernig þetta gat gerst

Faðir piltsins sem lést á Stuðlum stígur fram: Spyr sig stöðugt hvernig þetta gat gerst
Fréttir
Í gær

Vill að Ásmundur Einar axli ábyrgð og segi af sér – „Hræsnin og bullið“

Vill að Ásmundur Einar axli ábyrgð og segi af sér – „Hræsnin og bullið“
Fréttir
Í gær

Örvar lýsir skelfilegri vist í tælensku fangelsi – Kakkalakkar í klefunum, stæk hlandlykt og sofið á ísköldu gólfi án dýnu

Örvar lýsir skelfilegri vist í tælensku fangelsi – Kakkalakkar í klefunum, stæk hlandlykt og sofið á ísköldu gólfi án dýnu
Fréttir
Í gær

Dularfullt andlát konu á sjötugsaldri var í Austurborginni

Dularfullt andlát konu á sjötugsaldri var í Austurborginni
Fréttir
Í gær

Jón Gnarr skýtur hugmynd Áslaugar Örnu í kaf og leggur til aðra hugmynd

Jón Gnarr skýtur hugmynd Áslaugar Örnu í kaf og leggur til aðra hugmynd