Til nokkurra tíðinda dró hjá Sjálfstæðisflokknum um helgina og ljóst að talsverð endurnýjun verður í þingflokknum eftir kosningar. Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson og Jón Gunnarsson missa til dæmis allir þingsæti sín. Þá vakti ekki síður athygli þegar Sigríður Andersen, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, ákvað að ganga til liðs við Miðflokkinn.
Jón, sem fjallar um málið á bloggsíðu sinni, segir að um sé að ræða mikil og óvænt tíðindi að Sigríður, sem hann kallar „botnfrosið vesturbæjaríhald“, skuli hafa ákveðið að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn og ganga til liðs við Miðflokkinn.
„Í síðasta prófkjöri leið Sigríður fyrir að vera helsti málsvari frelsisins innan Sjálfstæðisflokksins í Kóvíd fárinu. Áður hafði hún verið neydd til að segja sig frá embætti dómsmálaráðherra fyrir engar sakir. Nauðsyn bar þá til, að flokksforustan gætti pólitískra hagsmuna Sigríðar, en hún gerði það ekki og uppskeran er samkvæmt því,“ segir hann og leggur svo mat á framboðslista Sjálfstæðisflokksins eftir helgina.
„Annað sem mátti eiga von á miðað við stöðu og styrk Flokkseigendafélagsins voru þau dapurlegu úrslit, að Jón Gunnarsson skyldi lúta í lægra haldi fyrir varaformanninum, sem þurfti að færa sig um set úr sínu kjördæmi í annað til að eiga kost á endurkjöri,“ segir Jón og gagnrýni Bjarna Benediktsson, formann flokksins.
„Sérkennilegt að formaðurinn skyldi vera tilbúinn til að fórna einum af sínum traustasta stuðningsmanni í stað þess að leysa hnútinn með því að taka sjálfur áhættu með því að færa sig í 5 sætið á listanum. En það gerði hann ekki og því fór sem fór.“
Ljósið í myrkrinu segir hann vera að Ólafur Adolfsson, dæmigerður Sjálfstæðismaður af gamla skólanum, skuli hafa náð forystusætinu í Norðvesturkjördæmi.
„Eftir úrslit dagsins missa þeir Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson og Jón Gunnarsson þingsæti sín. Allir ötulir talsmenn skynsemi í hælisleitendamálum og öðrum málum. Jón Gunnarsson sýndi það heldur betur á ráðherraárum sínum sem dómsmálaráðherra, en flokkseigendafélagið þakkar honum það ekki,“ segir Jón og bætir við að lokum:
„Eftir þessa uppstillingu er Sjálfstæðisflokkurinn í töluverðum vanda og sá vandi gæti aukist, þegar framboðslistar í Reykjavík birtast. Það ríður á að kjörnefnd tali ekki bara við bergmálshellinn sinn heldur skoði hvað hægra fólki finnst skipta mestu máli í dag og taki tillit til þess.“
Ákvörðun Sigríðar vakti töluverða athygli á samfélagsmiðlum um helgina. Baldur Hermannsson, fyrrverandi framhaldsskólakennari og þáttagerðarmaður, að þarna hafi Sigmundur Davíð hrifsað „væna sneið“ úr Sjálfstæðisflokknum. Hann á jafnvel von á því að margir muni fylgja Sigríður. Þess má geta að Ásmundur Friðriksson, sem fékk ekki brautargengi trúnaðarmanna í Suðurkjördæmi um helgina, vildi ekki svara því í samtali við mbl.is í gær hvort hann gæti hugsað sér að fara í framboð fyrir Miðflokkinn.
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir á Facebook-síðu sinni að Sjálfstæðisflokkur hafi nú eignast öflugan keppinaut á hægri væng stjórnmálamanna.
„Miðflokkur boðar nýfrjálshyggju í efnahagsmálum og þjóðlega íhaldssemi á alþjóða- og menningarás. Hann skammar Sjálfstæðisflokk fyrir að hafa brugðist hægri mönnum. Þessu á Sjálfstæðisflokkur ekki að venjast. Margir kjósendur hafa undanfarið fært sig frá Sjálfstæðisflokki til Miðflokks í skoðanakönnunum. Og í dag lýsti Sigríður Á. Andersen fyrrum ráðherra flokksins því yfir að hún yrði oddviti Miðflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Kosningabaráttan verður fjörug. Og rétt að undistrika að úrslitin eru fjarri því að vera ráðin – fylgi flokka getur breyst mikið fram að kosningum.“