Miðflokkurinn er á miklu flugi þessa dagana og mælist fylgi flokksins nú 18,7%. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist fylgi Miðflokksins 16% en ef úrslit kosninga yrðu á þennan veg gætu Samfylkingin og Miðflokkur myndað tveggja flokka stjórn.
Fylgi Miðflokksins hefur aldrei mælst meira en núna og til marks um þann uppgang sem hefur verið á fylgi hans undanfarin misseri má geta þess að hann mældist með rétt rúmlega 5% fylgi í ársbyrjun 2023.
Í frétt RÚV kom fram að Samfylkingin fengi nítján þingmenn en Miðflokkurinn þrettán og samanlagt 32 þingsæti. Það myndi duga til að mynda ríkisstjórn með minnsta mögulega meirihluta.
Sjálfstæðisflokkurinn á í vök að verjast og mælist fylgi hans nú 14,2%. Fengi flokkurinn aðeins níu þingsæti og myndi tapa sjö sætum frá síðustu kosningum.
Vinstri græn halda áfram að mælast utan þings og er fylgi flokksins nú 4,4%. Flokkurinn bætir örlítið við sig frá síðustu könnun en ekki nógu mikið til að koma manni á þing miðað við þessa nýju könnun. Framsóknarflokkur mælist með 6,3% fylgi.
Viðreisn er fjórði stærsti flokkur landsins samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi og mælist fylgi hans nú 10,3%. Myndi það duga til að fá sex þingmenn kjörna. Píratar mælast með 7,6% fylgi, Flokkur fólksins 7,5% og Sósíalistar 5,2% sem myndi duga til að koma þremur þingmönnum að.