fbpx
Miðvikudagur 02.október 2024
Fréttir

Haraldur ósammála Adolfi Inga og birtir gamlan tölvupóst frá honum – „Þar skín vel í gegn fyrrnefnt viðhorf í garð bardagaíþrótta“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 2. október 2024 18:30

Adolf ingi og Haraldur Dean.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis, er ósammála íþróttafréttamanninum Adolfi Inga Erlingssyni um að banna ætti hnefaleika. Segir hann unnendur og iðkendur bardagaíþrótta mæta fordómum og bann myndi setja Ísland í flokk með einræðisríkjum.

Þetta segir Haraldur Dean, sem er jafn framt faðir glímukappans Gunnars Nelson, í færslu á samfélagsmiðlum. Færslan var sett fram sem viðbragð við grein Adolfs Inga á Vísi.

Í greininni sagði Adolf meðal annars að hann hefði efasemdir um að flokka ætti hnefaleika sem íþrótt, hvorki ólympíska hnefaleika né atvinnuhnefaleika. En ólympískir hnefaleikar hafa verið leyfðir hér á landi síðan árið 2002.

„Það er grundvallarmunur á hnefaleikum og öðrum íþróttum, meira að segja öðrum bardagaíþróttum. Hnefaleikar eru nefnilega eina íþróttin sem gengur útá að skaða mótherjann. Í hnefaleikum er markmiðið að meiða andstæðinginn og fullnaðarsigur fæst með því að rota hann,“ sagði Adolf í greininni.

Í hópi með Norður Kóreu og Afganistan

„Í dag var athygli mín vakin á því að fyrrum starfsmaður íþróttadeildar RÚV, Adolf Ingi Erlingsson, hafi skrifað pistill þar sem hann hvetur til þess að Ísland skipti sér í „stoltan“ hóp landa eins og Norður-Kóreu, Íran og nýlega Afganistan og banna hnefaleika,“ segir Haraldur Dean í færslu sinni. „en Talibanar ákváðu t.d. nýlega að banna bæði MMA og að mér skilst hnefaleika einnig, svona um leið og þeir bönnuðu konum að mennta sig og fótum tróðu önnur mannréttindi í nafni forræðishyggjunnar.“

Segir Haraldur Dean að pistill Adolfs Inga sé uppfullur af gömlu þvaðri um ofbeldi og líkamsárásir í nafni íþrótta. Þetta sé fyrir löngu búið að hrekja.

„Það er hins vegar ekkert nýtt að unnendur og iðkendur bardagaíþrótta mæti fordómum úr þessum ranni. Og þar eru ekki bara hnefaleikar undir,“ segir Haraldur Dean. „Það hefur því miður lengi loðað við ýmsa svokallaða íþróttafréttamenn að flytja bara fréttir af þeim íþróttum sem þeir hafa áhuga á og sneiða hjá öðrum eins og þeir mögulega geta. Þetta er gömul saga og ný og hefur því miður sérstaklega verið áberandi hjá Ríkisfjölmiðlinum gegnum árin.“

Sjá einnig:

Adolf Ingi vill banna hnefaleika alfarið – „Sorrí, Bubbi, ég elska þig“

Haraldur hefur verið viðloðinn bardagaíþróttir allt sitt líf en hefur einnig áhuga á til dæmis körfubolta og fótbolta. Hann segir ólíku saman að jafna þegar komið að umfjöllun og aðkomu fjölmiðla.

Hafi hótað að fjalla ekkert um karate

Til stuðnings máli sínu birtir hann skilaboð frá áðurnefndum Adolfi Inga frá árinu 2005, en á þeim tíma hélt Haraldur Dean út bloggi um karate og sendi út fréttir.

„Í október 2005 fór fram unglingameistaramótið í karate (kumite) og vakti ég m.a. athygli fjölmiðla á því. RÚV sendi sína menn að þessu sinni og allt í góðu með það. Mótið dróst aðeins á langinn og úrslitin voru ekki ljós fyrr en seinni partinn,“ segir Haraldur. „Um kl. 17:30 fékk ég neðangreindan tölvupóst frá Adolfi Inga sem var farið að lengja eftir úrslitunum til að setja í íþróttafréttirnar um kvöldið. Þar skín vel í gegn fyrrnefnt viðhorf í garð bardagaíþrótta (karate í þessu tilfelli).“

Í bréfi Adolfs Inga segir:

„Ef þið komið ekki úrslitum frá ykkur fljótlega verður ekkert fjallað um mótið hjá okkur og ekkert um karate almennt á næstunni.“

Að lokum spyr Haraldur Dean hvort að fólk sæi fyrir sér að starfsmaður ríkisfjölmiðils myndi senda slíkan póst og hóta til dæmis einhverjum innan fótboltans eða handboltans að íþróttadeild RÚV myndi ekkert fjalla um íþróttina á næstunni ef mót myndi dragast á langinn. „Svari hver fyrir sig,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Var undir gífurlegri pressu um að skrifa undir Icesave-lögin – Nakinn í símtali við Steingrím J sem hótaði afsögn

Var undir gífurlegri pressu um að skrifa undir Icesave-lögin – Nakinn í símtali við Steingrím J sem hótaði afsögn
Fréttir
Í gær

Banaslysið á Sæbraut: Sakar Sjálfstæðismenn um tvískinnung og segir þá hluta af vandanum

Banaslysið á Sæbraut: Sakar Sjálfstæðismenn um tvískinnung og segir þá hluta af vandanum