Nú síðast lét Pútín móðan mása og hafði í hótunum um þriðju heimsstyrjöldina ef Vesturlönd heimila Úkraínu að nota vestræn vopn til árása á rússneskt landsvæði. Sagði hann að ef það gerist muni Rússar hugsanlega grípa til kjarnorkuvopna.
Spurningin er auðvitað hvort hér sé um sálrænan hernað að ræða? Innantómar hótanir eða er Pútín í raun og veru reiðubúinn til að nota kjarnorkuvopn í stríðinu gegn Úkraínu og hrinda þannig hugsanlega þriðju heimsstyrjöldinni af stað?
Þessu velta sérfræðingar fyrir sér þessa dagana í kjölfar ummæla Pútíns um að breyta eigi reglum um notkun kjarnorkuvopna. Nú kveða þær á um að aðeins megi nota þau ef tilvist landsins er ógnað en Pútín vill breyta þessu og veita heimild til beitingar þeirra ef ráðist er á landið með hefðbundnum vopnum og úr verður alvarleg ógn við fullveldi landsins.
Dimtry Peskov, talsmaður Kremlverja, var spurður að því fyrir helgi hvort þessi breyting sé í raun skilaboð til Vesturlanda. „Þetta á að skilja sem skýra aðvörun. Þetta eru skilaboð sem vara þessi lönd við afleiðingunum af að taka þátt í árás á landið okkar með ýmsum vopnum, ekki bara kjarnorkuvopnum,“ sagði hann að sögn Reuters.
Þessi skilaboð frá Kreml voru send á sama tíma og Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, þrýstir á Vesturlönd um heimild til að nota langdræg vopn, sem þau gefa Úkraínu, til árása á rússneskt landsvæði. Sem dæmi um slíka notkun væri að skjóta langdrægu flugskeyti á vopnageymslu langt inn í Rússlandi.
Talsmenn rússneskra stjórnvalda hafa varað Vesturlönd við þessu og sagt að ef þetta gerist þá verði því tekið sem árás sem NATÓ tekur þátt í.
Ef svo færi að Rússar gerðu alvöru úr hótunum sínum og beittu kjarnorkuvopnum gegn Úkraínu eða NATÓ-ríki, þá er hugsanlegt að NATÓ muni svara með kjarnorkuvopnum og þá er auðvitað mikil hætta á að þriðja heimsstyrjöldin brjótist út.
Reuters og AFP ræddu við fjölda sérfræðinga á þessu sviði til að fá mat þeirra á hvort hótanir Kremlverja séu raunverulegar eða loftið eitt.
Sérfræðingarnir eru ekki á einu máli hvað þetta varðar. Nikolai Sokov, sem var diplómat á tíma Sovétríkjanna og einnig fyrir Rússland, sagði að skilaboðin séu skýr: „Gerið ekki mistök – allt þetta getur leitt til kjarnorkustríðs.“
Bahram Ghiassee, sérfræðingur hjá hugveitunni Henry Jackson í Lundúnum, sagði um viðbrögð sé að ræða við lobbíisma Úkraínumanna varðandi að fá að nota langdræg vopn til árása á rússneskt landsvæði.
Andreas Umland, sérfræðingur hjá sænsku alþjóðamálastofnuninni, sagði að hér væri bara um blöff að ræða hjá Pútín. Þetta sé sálfræðihernaður án mikils innihalds og sé ætlað að hræða stjórnmálamenn og kjósendur.