Erna Bjarnadóttir fyrsti varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi er verulega ósátt við fréttaflutning Vísis af fjallgöngu sem farið var í á báða toppa Tindfjalla á Suðurlandi. Segir Erna um lágkúrulegan fréttaflutning að ræða og virðist raunar ekki bara ósátt við Vísi heldur alla fjölmiðla:
„Ég bara spyr er lágkúru fjölmiðla engin takmörk sett eftir allt sem á undan er gengið. Hið minnsta smellubeita úr minnstu hillu,“ segir Erna í færslu á samfélagsmiðlum.
Það sem Erna er væntanlega ósáttust við er fyrirsögn fréttarinnar sem er:
„Fóru líka upp á eiginkonuna fyrir besta útsýni landsins.“
Fréttin fjallar þó alls ekki um það sem kannski einhverjum kynni að detta í hug þegar fyrirsögnin er lesin. Umfjöllunarefnið er fjallganga sem farið var í vegna sjónvarpsþáttarins Okkar eigið Ísland sem sýndur er á Stöð 2.
Í fréttinni kemur fram að toppar Tindfjalla séu kenndir við hjónin Ými og Ýmu en fyrrnefndi toppurinn sé tveim metrum hærri. Haft er eftirfarandi eftir Garpi Elísabetarsyni umsjónarmanni þáttarins um hjónin:
„Garpur útskýrir að Ýma sé kona Ýmis. Þau hafi verið hjón í þúsundir ára. Hann segist aldrei hafa farið upp á Ýmu fyrr en í þetta skiptið. „Fólk fer yfirleitt bara upp á Ými og svo niður. Nú ætla ég að vera hér og segja ykkur: Farið upp á Ýmu. Ýma er geggjuð.““
Þess má geta að lokum að Erna er enn varaþingmaður þótt eini þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi Birgir Þórarinsson hafi fært sig yfir í Sjálfstæðisflokkinn eftir síðustu alþingiskosningar.