fbpx
Laugardagur 19.október 2024
Fréttir

Staðan í framboðsmálum flokkanna – Hörð barátta í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 19. október 2024 12:00

Stjórnmálin á Íslandi eru eins og Krúnuleikarnir þessa dagana.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþingiskosningar verða haldnar eftir rúman mánuð, þann 30. nóvember, og því þurfa stjórnmálaflokkarnir að hafa hraðar hendur við að klastra saman framboðslistum í tæka tíð til að hægt sé að byrja kosningabaráttuna. DV leit yfir sviðið til þess að sjá hvernig landið liggur hjá hverjum flokki fyrir sig.

126 nöfn fyrir 31. október

Framboðin þurfa að skila inn meðmælum í öllum kjördæmum sem þau bjóða fram í. Þau þurfa að að ná 210 meðmælum í Norðvesturkjördæmi, 300 í Norðaustur og Suðurkjördæmum, 330 í hvoru Reykjavíkurkjördæminu og 420 í Suðvesturkjördæmi. Meðmælendur mega ekki mæla með fleirum en einum lista.

Framboðsfresti lýkur klukkan 12:00 þann 31. október og þurfa þá að liggja fyrir framboðslistar. Í Norðvesturkjördæmi eru 8 þingsæti, 10 í Norðaustur og Suðurkjördæmum, 11 í Reykjavíkurkjördæmunum og 13 í Suðvesturkjördæmi. Manna þarf tvöfaldan þennan fjölda á framboðslistunum, sem sagt 126 manns hjá þeim flokkum sem bjóða fram í öllum kjördæmum.

Úrslitastund hjá Sjálfstæðsiflokknum á sunnudag

Kjördæmaráð Sjálfstæðisflokksins funda í flestum kjördæmum á sunnudag, 20. október um hvernig skuli velja á lista. Kjördæmisráðið í Reykjavík fundaði hins vegar á miðvikudag, 16. Október og lagði til uppstillingu. Í öllum hinum kjördæmunum liggja fyrir stjórnartillögur um að kjörnefnd raði í efstu sæti. Það er 4 til 6 efstu sætin. Einnig hefur verið boðað til annarra funda síðar um daginn til þess að framkvæma röðunina.

Af 17 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur aðeins Óli Björn Kárason (Suðvestur) tilkynnt að hann ætli ekki að bjóða sig fram á ný.

Þórdís og Jón vilja bæði annað sætið í Suðvesturkjördæmi.

Stærstu fréttirnar eru þær að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, utanríkisráðherra, ætli að yfirgefa oddvitastöðu sína í Norðvesturkjördæmi til að sækjast eftir öðru sætinu í Suðvesturkjördæmi. Þar situr fyrir Jón Gunnarsson sem hyggst ekki gefa sætið eftir án baráttu. Þá hefur Rósa Guðbjartsdóttir ákveðið að sækjast eftir þriðja sætinu en hún mun missa bæjarstjórastöðu sína í Hafnarfirði um áramót til Framsóknarmanna. Bryndís Haraldsdóttir vill hins vegar halda sínu þriðja sæti á listanum. Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, vill annað til fjórða sæti.

Í Norðvesturkjördæmi sækist þingmaðurinn og Flateyringurinn Teitur Björn Einarsson eftir oddvitasætinu en einnig Ólafur Adolfsson, apótekari frá Akranesi.

Í Norðausturkjördæmi hefur Akureyringurinn Njáll Trausti Friðbertsson fengið samkeppni um oddvitasætið frá Eskfirðingnum Jens Garðari Helgasyni, fyrrverandi formanns SFS. Valgerður Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður sækist eftir öðru sætinu sem og Berglind Harpa Svavarsdóttir bæjarfulltrúi í Múlaþingi. Þær þurfa hins vegar að keppa við Berglindi Ósk Guðmundsdóttir, núverandi þingmann, um það.

Í Suðurkjördæmi er stærsta spurningin hvað verði um Birgi Þórarinsson. Birgir náði kjöri fyrir Miðflokkinn í síðustu þingkosningum en sveik lit á kosninganótt og gerðist sautjándi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fastlega er búist við því að Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, leiði listann. En auk þeirra sitja Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason fyrir flokkinn í kjördæminu. Birgir sækist eftir þriðja sætinu.

Uppstokkun hjá Samfylkingu

Samfylkingin hefur tilkynnt að uppstillingarnefndir séu að störfum við að manna og raða á framboðslista. Tilkynnti hefur verið að allir framboðslistar verði tilbúnir laugardaginn 26. október.

Oddný Harðardóttir (Suður), fyrrverandi formaður og fjármálaráðherra, hefur tilkynnt að hún muni ekki sækjast eftir áframhaldandi þingmennsku.

Fyrir utan Oddnýju á flokkurinn í dag fimm þingmenn. Kristrúnu Frostadóttur (Reykjavík suður), Jóhann Pál Jóhannsson og Dagbjörtu Hákonardóttur (Reykjavík norður), Þórunni Sveinbjarnardóttur (Suðvestur) og Loga Má Einarsson (Norðaustur).

Guðmundur Árni vill sæti Þórunnar í Suðvesturkjördæmi.

Flokkurinn hefur farið með himinskautum í skoðanakönnunum í langan tíma og búist er við því að hann bæti við sig allmörgum þingsætum. Ásóknin er því mikil að komast í góðu bækurnar hjá forystunni og uppstillingarnefnd.

Í Reykjavík hafa Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, og Nicole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, sóst eftir öðru sæti í öðru hvoru kjördæminu. Læknirinn Jón Magnús Kristjánsson hefur einnig óskað eftir þriðja til fjórða sæti í öðru hvoru kjördæminu, en hann hefur verið mjög áberandi í umfjöllun um heilbrigðismál að undanförnu. Það sama gerir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, en framboð hans í sveitarstjórnarprófkjöri var metið ógilt fyrir síðustu kosningar.

Stóra spurningin í Reykjavík er hins vegar hvort að Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, muni leiða hitt Reykjavíkurkjördæmið eða hvort að Kristrún haldi tryggð við Jóhann Pál.

Í Suðvesturkjördæmi vill Þórunn Sveinbjarnardóttir vera áfram oddviti en hún fær samkeppni frá Guðmundi Árna Stefánssyni, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og varaformanni flokksins. Þá hefur Alma Möller, landlæknir, lýst því yfir að hún sækist eftir öðru sætinu. Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi sækist eftir þriðja sæti.

Minna hefur farið fyrir umræðu um mögulega frambjóðendur flokksins í landsbyggðarkjördæmunum.

Halla Hrund óvænt til Framsóknar

Framsóknarmenn hafa boðað kjördæmisþing næstu helgar til þess að afgreiða val frambjóðenda á framboðslista fyrir komandi kosningar. Stillt verður upp á lista en samþykki þarf frá kjördæmaþingunum til þess.

Lítið hefur farið fyrir umræðu um frambjóðendur flokksins, sem var sá ríkisstjórnarflokkur sem augljóslega sá mest á eftir samstarfinu. Flokkurinn sópaði að sér fylgi í kosningunum 2021 og fékk 13 menn kjörna. Nú er útlit fyrir verri niðurstöðu.

Halla Hrund tilkynnti framboð í gær.

Aðeins einn þingmaður Framsóknarflokksins hefur sagst ætla að hætta, Líneik Anna Sævarsdóttir (Norðaustur) og því má búast við því að ekki verði mikið um breytingar á framboðslistum flokksins. Flokkurinn hefur verið að mælast með á bilinu 6 til 9 prósenta fylgi og má því ætla að einhverjir þingmennirnir missi vinnunna.

Óvænt hefur Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og fyrirverandi forsetaframbjóðandi, þó tilkynnt að hún bjóði sig fram fyrir flokkinn.

Hvar verður Jón Gnarr?

Viðreisn efur óskað eftir frambjóðendum á lista fyrir laugardaginn 19. október. Ráðin í kjördæmunum funduðu í þessari viku og ákveðið hefur verið að stilla upp á lista.

Ekki hafa borist fréttir af öðru en að þeir fimm þingmenn sem sitja fyrir flokkinn vilji gera það áfram.

Stærsta spurningin er hvar eða hvort Jóni Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra, verði stillt upp. Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir eru í dag oddvitar Reykjavíkurlistanna og þingmenn flokksins og Hanna Katrín hefur sagt að Jón sé ekki fyrsti freki karlinn sem vilji fá rauðan dregil. Þorbjörg Sigríður segist ekki óttast framboð Jóns heldur fagna því.

Jón Gnarr vill leiða lista í Reykjavík fyrir Viðreisn.

Katrín Sig­ríður J. Stein­gríms­dótt­ir varaþingmaður hefur sóst eftir öðru sætinu á öðrum hvorum Reykjavíkurlistanum og Diljá Ámundadóttir Zoega, fyrrverandi borgarfulltrúi Besta flokksins, vill sæti þar líka. Þá vill Sigurður Orri Kristjánsson, fyrrverandi starfsmaður flokksins, einnig eftir sæti ofarlega á lista en tilgreinir ekki kjördæmi.

Af öðrum kjördæmum er það meðal annars að frétta að María Rut Kristinsdóttir, varaþingmaður í Reykjavík, vill leiða flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Píratar einir með prófkjör

Píratar opnuðu fyrir prófkjör í öllum kjördæmum á vefsíðu sinni á þriðjudagskvöld, 15. október. Kynningar fara fram um helgina og kosningarnar hefjast á sunnudag, 20. október klukkan 16:00. Þeim lýkur svo klukkan 16:00 á þriðjudag, 22. október.

Prófkjörið er bindandi fyrir helming þingsæta hvers kjördæmis. Kjörstjórn raðar í sæti neðar á lista með fjölbreytni og jafnrétti að leiðarljósi ásamt því að taka mið af prófkjörinu.

Dóra Björt hefur setið lengi í borgarstjórn og vill nú breyta til.

Píratar hafa í dag sex þingmenn. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, annar þingmaður flokksins í Reykjavík suður, hefur tilkynnt að hún hyggist ekki bjóða sig fram. Ekki hafa borist fregnir af öðru en að hinir þingmennirnir vilji sitja áfram. Það er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson (Suðvestur), Halldóra Mogensen og Andrés Ingi Jónsson (Reykjavík norður) og Björn Leví Gunnarsson (Reykjavík suður).

Á meðal þeirra sem lýst hafa yfir framboði eru Dóra Björt Guðjónsdóttir (Reykjavík), Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir (Norðvestur), Lenya Rún Taha Karim (Reykjavík), Sara Oskarsson (Reykjavík), Sigurbjörg Erla Egilsdóttir (Suðvestur), Indriði Ingi Stefánsson (Suðvestur) og Viktor Traustason (Norðaustur).

Barátta fyrir tilvist

Rétt eins og aðrir flokkar þurfa Vinstri græn að hafa hraðar hendur til að halda sér inni á Alþingi, hvað þá halda sínum átta þingmönnum. En flokkurinn hefur mælst undir fimm prósenta þröskuldinum könnun eftir könnun.

Kjördæmisráðin hafa fundað undanfarna daga um og öll komist að því að uppstilling sé eina raunhæfa leiðin í þessari tímapressu. Hafa uppstillingarnefndir þegar hafið störf og óskað er eftir frambjóðendum.

Það stefnir í baráttu tveggja þingkvenna í Norðausturkjördæmi.

Fastlega er búist við því að nýr formaður, Svandís Svavarsdóttir, leiði annað Reykjavíkurkjördæmið en Katrín Jakobsdóttir skildi eftir sig stórt skarð í hinu. Þingmaðurinn Steinunn Þóra Árnadóttir hefur þegar tilkynnt að hún hyggist ekki sækjast eftir endurkjöri. Aðrir þingmenn í Reykjavík eru Orri Páll Jóhannsson og Eva Dögg Davíðsdóttir.

Í Norðvesturkjördæmi hefur Bjarni Jónsson tilkynnt að hann muni ekki bjóða sig fram aftur og gott betur en það því hann hefur sagt skilið við flokkinn.

Í Norðausturkjördæmi vill þingmaðurinn Jódís Skúladóttir leiða listann en fyrir er þar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fyrrverandi matvælaráðherra.

Aldursforsetinn ekki af baki dottinn

Flokkur fólksins hefur frestað landsfundi sem átti að fara fram í Reykjavík 2. nóvember. Verður kröftum flokksins varið í kosningabaráttuna og landsfundur haldinn skömmu eftir kosningarnar.

Samkvæmt upplýsingum frá flokknum eru uppstillingarnefndir í öllum kjördæmum komnar af stað með sína vinnu. Það sé hefð hjá Flokki fólksins að stilla upp á lista. Ekki liggur hins vegar fyrir hvenær listar verða klárir.

Inga og félagar stilla upp listum að vana.

Flokkur fólksins náði inn þingmönnum í öllum sex kjördæmunum í síðustu alþingiskosningum. Ekki hafa borist fregnir af öðru en að þeir hyggist allir bjóða sig fram á nýjan leik, þar á meðal Aldursforsetinn Tómas Tómasson, sem er 75 ára.

Miðflokkur þarf að fylla margar stöður

Rétt eins og Samfylkingin þá hefur Miðflokkurinn farið með himinskautum í könnunum. Búist er við því að flokkurinn bæti við sig mörgum þingsætum, en hann hefur aðeins tvö í dag. Það er formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Norðaustur) og Bergþór Ólason (Norðvestur). Ljóst er því að ásókn verður mikil í að komast á lista hjá flokknum.

Kjördæmisráð flokksins hafa samþykkt að stilla upp listum. Rétt eins og hjá Flokki fólksins liggur ekki fyrir hvenær framboðslistarnir munu líta dagsins ljós.

Sósíalistar kynna oddvitana fyrst

Sósíalistaflokkurinn náði ekki yfir fimm prósenta þröskuldinn í síðustu alþingiskosningum en þar á bæ er fólk bjartsýnna í ár.

Gert er ráð fyrir uppstillingu á lista í öllum kjördæmum. Vinna er þegar hafin og tillaga um aðferðafræði uppstillingarinnar verður lögð fram á félagsfundi á sunnudag, 20. október.

Sanna Magdalena á ágætis möguleika á að komast á þing.

Endanlegir framboðslistar Sósíalistaflokkins munu liggja fyrir einhvern tímann á tímabilinu 20. til 30. október. Gert er þó ráð fyrir að nöfn oddvitanna verði kynnt fyrst.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi, hefur þegar gefið það út að hún hyggist bjóða sig fram og yrði þá væntanlega í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Forstjóri Iceland berst við Ísland um einkaleyfi nafnsins – „Fyrir mig persónulega og fjölskyldufyrirtækið okkar skiptir þetta miklu máli“

Forstjóri Iceland berst við Ísland um einkaleyfi nafnsins – „Fyrir mig persónulega og fjölskyldufyrirtækið okkar skiptir þetta miklu máli“
Fréttir
Í gær

Segir þyngdarstjórnunarlyfin geta flýtt fyrir öldrun

Segir þyngdarstjórnunarlyfin geta flýtt fyrir öldrun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brotaþoli sagði Snapchatperra að „fokka sér“- Dæmdur fyrir að senda unglingsstúlku urmul af typpamyndum

Brotaþoli sagði Snapchatperra að „fokka sér“- Dæmdur fyrir að senda unglingsstúlku urmul af typpamyndum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hannes Hólmsteinn og Gunnar Smári í hár saman: „Ljúgandi á daginn og grenjandi á kvöldin“

Hannes Hólmsteinn og Gunnar Smári í hár saman: „Ljúgandi á daginn og grenjandi á kvöldin“