Verkfall hefur staðið yfir og mikil ólga á meðal starfsfólks Bakkavarar í Spalding í Bretlandi. Formaður verkalýðsfélags segir að Bakkavör hafi vel efni á því að borga sanngjörn laun en velji að gera það ekki.
Matvælafyrirtækið Bakkavör, í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, rekur stóra verksmiðju í Spalding á austurströnd Bretlands. Þar eru framleidd matvæli fyrir breskar stórverslanir. Þetta er ein af mörgum verksmiðjum félagsins í Bretlandi.
Í frétt breska ríkissjónvarpsins, BBC, kemur fram að um 400 starfsmenn verksmiðjunnar hafi verið í verkfalli síðan 27. september. Starfsmennirnir og verkalýðsfélag þeirra krefjast mannsæmandi launa en talsmenn Bakkavarar segir að fyrirtækið hugi vel að kjörum starfsfólksins.
„Fyrirtækið hefur vel efni á að borga verkafólkinu sanngjörn laun en velur að gera það ekki,“ sagði Sharon Graham, framkvæmdastjóri verkalýðsfélagsins Unite. Samkvæmt verkalýðsfélaginu greiðir fyrirtækið laun rétt yfir lágmarkslaunum. „Þetta er snýst um græðgi en ekki nauðsyn. Fyrirtækið ætti ekki að vera í neinum vafa um að verkalýðsfélagið er með allan fókusinn á störfin, launin og aðbúnað félaga sinna og að Unite styður starfsfólkið heilshugar,“ sagði Graham í ávarpi.
BBC ræddi við verkakonu að nafni Judita Viegas sem bar fyrirtækinu ekki fallega söguna. „Starfsfólkið á skilið meira en þeir eru að borga okkur,“ sagði hún. „Ég á þrjú börn og þeir segja að verðbólgan sé á leiðinni niður en allt er að hækka í verði. Þannig að ég tel sanngjarnt að við fáum launahækkun jafnt og aðrir.“
Forsvarsmenn Bakkavarar segjast hafa boðið lægst launaðasta starfsfólkinu 7,8 prósent launahækkun og öðru starfsfólki 6,4 prósent. Að sögn fyrirtækisins eru um 35 prósent starfsfólks verksmiðjunnar í verkfalli. Hin 65 prósentin, eða um 800 manns séu enn þá starfandi.
Þá var sagt að samið hefði verið við starfsfólk í öllum öðrum verksmiðjum Bakkavarar í Bretlandi, sem eru um 20 talsins.
Sadie Woodhouse, framkvæmdastjóri, sagði að Bakkavör væri fyrir vonbrigðum með verkfallsaðgerðirnar. Almennt séð virði félagið það hlutverk verkalýðsfélaga að verja réttindi verkafólks.
„Hins vegar er engin glóra í því að kalla eftir verkfalli gegn fyrirtæki sem er þegar að sjá vel um fólkið sitt, veitir atvinnu í nærumhverfinu, fjárfestir í þjálfun og veitir launahækkanir umfram verðbólgu,“ sagði hún.