Vinstri græn mælast rétt svo yfir 5 prósenta þröskuldi til að fá jöfnunarþingsæti í nýrri könnun Maskínu. Þetta er fyrsta könnunin sem tekin er eftir stjórnarslit.
Samfylkingin mælist enn þá stærsti flokkur landsins með 21,9 prósenta fylgi. Miðflokkurinn enn þá næst stærstur með 17,7 prósent. Í þriðja sæti kemur Sjálfstæðisflokkurinn, sem sleit ríkisstjórnarsamstarfinu, með 14,1 prósent.
Ekki er mikill munur á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar, sem mælist með 13,4 prósent. Framsóknarflokkurinn er með 8 prósent, Flokkur fólksins með 7,3 prósent og bæði Sósíalistar og Píratar með 5,2 prósent.
Þessi könnun er sú fyrsta í nokkurn tíma sem sýnir Vinstri græn yfir 5 prósent þröskuldinum, það er með 5,1 prósent.
Hinn nýji Lýðræðisflokkur Arnars Þórs Jónssonar mælist með 0,9 prósent, langt frá þröskuldinum.
Þingsæti myndu skiptast svona:
Samfylking 14
Miðflokkur 12
Sjálfstæðisflokkur 9
Viðreisn 8
Framsóknarflokkur 5
Flokkur fólksins 5
Píratar 3
Vinstri græn 3
Sósíalistaflokkur 3
Könnunin var tekin dagana 15. til 18. október.