Í Lögbirtingablaðinu í dag er birt stefna á hendur manni með erlent nafn en íslenska kennitölu. Fram kemur að maðurinn hafi aldrei átt lögheimili á Íslandi og er hann því væntanlega ekki íslenskur ríkisborgari. Þrátt fyrir að maðurinn hafi aldrei átt lögheimili hér á landi á hann þrjár fasteignir í Reykjavík og er það Reykjavíkurborg sem stefnir honum vegna ógreiddra fasteignagjalda af eignunum.
Maðurinn er á sextugsaldri en ekki kemur fram í stefnunni í hvaða landi talið er að hann sé búsettur. Maðurinn er þinglýstur eigandi þriggja íbúða sem eru allar í sama húsi, í Norðurmýrinni. Íbúðirnar eru samkvæmt fasteignaskrá 91, 173 og 183 fermetrar að stærð og eru þær samkvæmt núgildandi fasteignamati metnar á samtals 239.200.000 krónur.
Í stefnunni krefur Reykjavíkurborg manninn um greiðslu 342.998 króna, auk dráttarvaxta. Krafan er tilkomin vegna ógreiddra fasteignagjalda af íbúðunum þremur fyrir árið 2023.
Í stefnunni er einnig krafist staðfestingar á lögveðsrétti borgarinnar í íbúðunum þremur en tekið fram að samkvæmt lögum eigi hin ógreiddu fasteignagjöld að njóta lögveðsréttar í íbúðunum.
Stefnan er birt í Lögbirtingablaðinu þar sem ekki hefur tekist að hafa upp á manninum til að birta honum stefnuna og ítrekaðar tilraunir til að innheimta hin vangreiddu fasteignagjöld hafa ekki borið árangur.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok nóvember og skorað er á manninn að mæta fyrir dóm þá eða að greiða skuldina áður en að því kemur.