Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, vill leiða flokkinn í kjördæminu í komandi alþingiskosningum. Þetta tilkynnti hann skömmu eftir að oddvitinn, Þórdís K. Gylfadóttir Reykfjörð tilkynnti að hún myndi sækjast eftir 2. sætinu í Suðvesturkjördæmi.
„Ég býð mig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi,“ segir Teitur í færslu á samfélagsmiðlum. „Frá því ég tók sæti á Alþingi fyrir einu og hálfu ári síðan hef ég barist fyrir hagsmunum íbúa Norðvesturkjördæmis. Áskoranirnar eru fjölmargar og ólíkar, en ég tel einsýnt að áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu sé forsenda aukinnar velferðar og bættra lífskjara fólksins á svæðinu. Það er leiðin fram á við.“
Segist Teitur óska eftir stuðningi Sjálfstæðismanna á kjördæmaráðsþingi næsta sunnudag.