Þetta eru lokaorð leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag þar sem föstum skotum er skotið að Svandísi Svavarsdóttur, formanni Vinstri grænna, um atburðarás síðustu daga.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gekk á fund forseta Íslands í gær og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, féllst á beiðnina en lagði jafnframt til að ríkisstjórnin sæti sem áfram sem starfsstjórn.
„Allt er það eftir bókinni,“ segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins og vísar svo í orð Höllu:
„Frumskylda mín sem forseta er að tryggja að í landinu sé starfhæf stjórn. Ríkisstjórn sem beðist hefur lausnar situr sem starfsstjórn til bráðabirgða. Í því felst að hún gegnir þeim störfum sem nauðsynleg eru við daglega stjórn landsins.“
„Ástæða þess að forseti taldi sig þurfa að stafa hlutverk og eðli starfsstjórnar með þessum hætti er að síðustu dægur hefur komist á kreik einhver furðulegur misskilningur – upplýsingaóreiða jafnvel – um inntak starfsstjórna,“ segir leiðarahöfundur og bætir við að svo vilji til að þennan misskilningi megi rekja til Svandísar sem lét í ljós von um að mynda mætti starfsstjórn án Bjarna „eins og starfsstjórnir hafi pólitískt hlutverk“.
„Ekki er ljóst hvort þar að baki býr persónuleg óvild eða pólitískur ofmetnaður, en það gildir einu; ráðabruggið lýsti ótrúlegri vanþekkingu á stjórnskipan landsins. Hefur Svandís þó starfað 15 ár á Alþingi, þar af 11 ár sem ráðherra og býr að pólitískri fjölskylduarfleifð að auki. Samt vildu Vinstri grænir ekki taka þátt í starfsstjórninni, þó lögspekingum beri saman um skyldu þeirra til þess að verða við tilmælum forseta um það. Gæti ábyrgðarleysið verið meira?,“ spyr leiðarahöfundur.
Í leiðaranum eru svo rifjuð upp ýmis mál sem tengjast Svandísi og þá gagnrýni sem hún hefur fengið á sig, til dæmis dóm í Hæstarétti árið 2011 og dóm sem hún fékk sem heilbrigðisráðherra 2021 vegna skylduvistunar á sóttkvíarhóteli.
Í leiðaranum segir svo höfundur:
„Hina hörðu gagnrýni á Svandísi vegna embættisfærslu hennar má rekja til þess að hún hefur virst hafa vísvitandi farið fram án lagaheimilda, jafnvel þvert á lög, og raunar haft uppi orð um að hana varðaði lítt um lögin, hún væri nefnilega í pólitík. Það hefur þótt bera vott um óboðlega ósvífni og vanvirðu við góða lýðræðishefð.
Er það svo? Eftir á að hyggja var sú gagnrýni ef til vill ósanngjörn.
Miðað við yfirgripsmikið þekkingarleysi hennar á stjórnskipan landsins, sem opinberast hefur í orðum Svandísar um starfsstjórnir, er nefnilega ekki loku fyrir það skotið að öll þessi axarsköft og lögbrot í embætti megi fremur rekja til vanþekkingar og grunnhyggni en gerræðis og slægðar.“
Segir höfundur að hvort heldur er þá sé það hvorki Svandísi né VG til álitsauka og var fylgið ekki beysið fyrir.
„Þegar við tekur hið fádæma ábyrgðarleysi að skorast undan þátttöku í starfsstjórninni – stjórninni sem axla þarf skyldurnar af ríkisstjórninni sem Svandís kom sjálf fyrir kattarnef – fyrirgefst kjósendum þó þeir átti sig ekki á erindi Vinstri grænna við sig. Eða öðrum flokkum þó þeim lítist mátulega á ríkisstjórnarsamstarf við þá næstu árin. Svo kann því að fara að Svandís setji nýtt Íslandsmet flokksformanns í að ganga af flokki sínum dauðum. Það yrði þjóðinni ekkert reiðarslag; skynsamir, heilsteyptir og heiðarlegir vinstrimenn hafa í önnur hús að venda.“