fbpx
Föstudagur 28.febrúar 2025
Fréttir

Gagnrýna harðlega há laun æðstu yfirmanna skólamála hjá borginni – „Borgarstjóri ætti kannski að líta sér nær“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 16. október 2024 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, Marta Guðjónsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, gagnrýndu harðlega há laun yfirstjórnar skóla- og frístundasviðs borgarinnar á fundi ráðsins síðasta mánudag. Meðallaun yfirstjórnarinnar sem alls er skipuð átta manns voru tæplega 1,8 milljónir króna á mánuði á síðasta ári. Segja fulltrúarnir að í ljósi þessa séu umdeild orð Einars Þorsteinssonar borgarstjóra í garð kennara, sem kom af stað allsherjar uppnámi hjá stéttinni, þeim mun gagnrýniverðari.

Marta lagði í júlí síðastliðnum fram fyrirspurn. Hún óskaði eftir upplýsingum um hver var launakostnaður yfirstjórnar skóla- og frístundasviðs árið 2023 og hver meðallaunin voru. Einnig vildi hún vita hver var launakostnaður vegna fagstjóra skóla- og frístundasviðs í hverfum árið 2023 og hver meðallaunin voru. Sömuleiðis vildi Marta vita hver var launakostnaður stjórnenda, leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra, borgarrekinna leikskóla árið 2023 og hver meðallaunin voru.

Svar Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla og frístundasviðs, var lagt fram á fundinum á mánudaginn. Samkvæmt svarinu var launakostnaður yfirstjórnar skóla- og frístundasviðs, þar sem alls eru 8 stöðugildi, árið 2023 168.644.165 króna auk launatengdra gjalda að upphæð 42.161.041 króna. Meðalárslaun voru 21.080.521 króna. Það þýðir 1.756.710 króna að meðaltali á mánuði.

Launakostnaður fagstjóra skóla- og frístundasviðs í hverfum, alls 8 stöðugildi, var 127.805.192 króna árið 2023, auk launatengdra gjalda að upphæð 31.951.297 króna. Meðalárslaun voru 15.975.649 króna. Það þýðir 1.331.304 króna að meðaltali að mánuði.

Launakostnaður leikskólastjóra borgarrekinna leikskóla Reykjavíkurborgar, alls 72,43 stöðugildi, var 801.752.979 króna árið 2023, auk launatengdra gjalda að upphæð 200.438.244 kr. Meðalárslaun voru 11.069.349 króna. Það eru mánaðarlaun upp á 922.445 krónur á mánuði.

Launakostnaður aðstoðarleikskólastjóra borgarrekinna leikskóla Reykjavíkurborgar, alls 56,58 stöðugildi, var 503.261.921 króna árið 2023, auk launatengdra gjalda að upphæð 125.815.480 króna. Meðalárslaun voru 8.894.696 króna. Það eru 741.224 krónur á mánuði.

Náði ekki að róa ástandið

Eins og fram kom í fréttum í gær mætti fjöldi grunnskólakennara í ráðhús Reykjavíkur til að mótmæla orðum Einars Þorsteinssonar borgarstjóra í sinn garð en þau orð Einars sem fóru svona fyrir brjóstið á kennurum viðhafði hann á ráðstefnu Sambands sveitarfélaga:

„Mér finnst ein­hvern veg­inn öll „statistic“ bara um skól­ana okk­ar benda til þess að við séum að gera eitt­hvað al­gjör­lega vitlaust. Að kenn­ararn­ir séu að biðja um það að fá að vera minna með börn­um en eru samt veik­ari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri ein­hverj­ir und­ir­bún­ings­tím­ar.“

Einar reyndi að útskýra orð sín í grein á Vísi og sagði að þessi tilvitnun í hann skorti allt samhengi við annað sem hann sagði í þessari ræðu sinni á ráðstefnunni:

„Starf kennara er eitt það mikilvægasta í okkar samfélagi og það þarf að standa vörð um heilsufar kennara með tiltækum ráðum.“

Þessi grein dugði þó engan veginn til að sefa reiði kennara.

Einar líti sér nær

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði, Marta Guðjónsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, sögðu í bókun sinni á þessum fundi ráðsins, þar sem laun stjórnenda hjá skóla- og frístundasviðs voru kynnt, þessa framgöngu Einars í garð kennara alls ekki í lagi, sérstaklega í ljósi þess hversu há laun æðstu yfirmanna skólamála hjá borginni væru. Sögðu þeir að borgarstjórinn ætti að líta sér nær í stað þess að beina spjótum sínum að kennurum:

„Hér er um að ræða óheyrilegan launakostnað við átta manna yfirstjórn skóla- og frístundasviðs eða sem nemur 168.644.165 kr. auk launatengdra gjalda að upphæð 42.161.041 kr. Meðalárslaun eru því 21.080.521 kr. eða 1.756.682 kr. á mánuði. Laun yfirstjórnar sviðsins eru sambærileg launum ráðherra í ríkisstjórn. Svo leyfir borgarstjóri sér að skipta sér af kjaradeilu kennara með því að gera lítið úr þeirra störfum á sama tíma og hann er að eyða fúlgum fjár í yfirstjórn kerfisins. Borgarstjóri ætti kannski að líta sér nær, skera niður í yfirbyggingu báknsins og nýta fjármagnið í þágu barnanna í umbætur í skólakerfinu sem stendur höllum fæti. Nær helmingur drengja og þriðjungur stúlkna geta ekki lesið sér til gagns að loknum grunnskóla og starfsaðstæður í grunnskólum og leikskólum oft bagalegar vegna viðhaldsleysis.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Grímur opnar sig um persónulega reynslu sem barn í kerfinu – „Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta“ 

Grímur opnar sig um persónulega reynslu sem barn í kerfinu – „Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta“ 
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Óhugnaður á bílastæði – Landsréttur þyngdi dóm yfir Candido Alberto

Óhugnaður á bílastæði – Landsréttur þyngdi dóm yfir Candido Alberto
Fréttir
Í gær

Kristján Sívarsson fyrir dóm sakaður um að pynta konu í tíu daga – Notaði nál, hníf, hamar, járnrör, spýtu og hleðslutæki

Kristján Sívarsson fyrir dóm sakaður um að pynta konu í tíu daga – Notaði nál, hníf, hamar, járnrör, spýtu og hleðslutæki
Fréttir
Í gær

World Class hjónin skála í nýja húsinu – Nágrannar óánægðir með snigilshraða á framkvæmdum

World Class hjónin skála í nýja húsinu – Nágrannar óánægðir með snigilshraða á framkvæmdum
Fréttir
Í gær

Koma af fjöllum í máli Alfreðs: „Við erum al­veg blind gagn­vart geðsviði LSH“

Koma af fjöllum í máli Alfreðs: „Við erum al­veg blind gagn­vart geðsviði LSH“
Fréttir
Í gær

Ívar Orri kemur til dyranna eins og hann er klæddur – „Ef þú ert ekki sterkur þá ertu aumur“

Ívar Orri kemur til dyranna eins og hann er klæddur – „Ef þú ert ekki sterkur þá ertu aumur“
Fréttir
Í gær

Óhugnanlegt myndband: Ungmenni á reiðhjólum börðu ökumann til óbóta

Óhugnanlegt myndband: Ungmenni á reiðhjólum börðu ökumann til óbóta
Fréttir
Í gær

Ólafur segir marga misnota veikindaréttinn: „Upp hafa komið hreint ótrúleg mál“

Ólafur segir marga misnota veikindaréttinn: „Upp hafa komið hreint ótrúleg mál“